Viðskipti

Litla brugghúsið með eldgosabjór
Davíð Ásgeirsson, Kristján Carlsson Gränz og Kristinn Bergsson. VF/pket.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 25. febrúar 2023 kl. 06:35

Litla brugghúsið með eldgosabjór

Litla brugghúsið í Garðinum sem hóf starfsemi árið 2020, heldur áfram að vaxa og dafna en von er á glænýjum bjór sem mun verða með skírskotun í eldgosin á Reykjanesi.

Fyrirtækið hlaut á dögunum styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja til að gera eldgosabjórinn en hann bætist í hóp þeirra fjögurra sem nú þegar hafa litið dagsins ljós. Litla brugghúsið framleiðir einnig árstíðabjóra fyrir tvö hótel í Reykjanesbæ. Þá verður páskabjórinn, Hippitus Hoppitus einnig settur á flöskur á næstu dögum og verður fáanlegur í Litla Brugghúsinu, Vínbúðunum og í Bjórlandi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Vegna mikillar eftirspurnar eftir þeim fjórum tegundum bjóra sem við höfum nú þegar sett á markað, þurftum við að bæta tækjakostinn til að ná hagræðingu og betri nýtingu í framleiðslunni. Þá lá beinast við að koma með fimmtu tegundina en við stefnum á að hann verði kominn á markað innan tveggja mánaða. Þessi bjór mun draga nafn sitt af eldgosunum en við erum ekki alveg búnir að ákveða endanlegt nafn og eins er þróun enn í gangi. Hvernig bjórinn verður á enn eftir að koma í ljós í þeim prufusuðum sem eru og verða í gangi á næstunni. Ég er mjög spenntur að smakka þessar prufur en stefnan er síðan að koma endanlegri uppskrift í framleiðslu, vonandi eigi síðar en eftir mánuð,“ segir Kristján Carlsson Gränz, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.