Fimmtudagur 13. október 2022 kl. 14:07

Ronja ræningjadóttir í Frumleikhúsinu

Leikfélag Keflavíkur frumsýnir barna- og fjölskylduleikritið Ronju ræningjadóttur föstudaginn 14. október. Æfingar hófust í lok ágúst en u.þ.b. 70 manns mættu í prufur fyrir sýninguna, þar af rúmlega 50 börn á aldrinum tólf til fimmtán ára.

Leikhópurinn samanstendur af 22 einstaklingum á öllum aldri en yngstu leikarar sýningarinnar eru 12 ára en sá elsti 34 ára. Fyrir utan leikhópinn koma fjölmargar hendur að sýningunni, fjögurra manna hljómsveit sér um tónlist sýningarinnar en það hefur verið vani leikfélagsins síðustu misseri að vera með lifandi hljómsveit. Þaulvanir menn sjá um tæknimálin og sviðsmyndavinnuna en leikhópurinn hefur sjálfur séð um búningagerð, sem er virkilega mikið afrek enda u.þ.b. 45 búningar í sýningunni. Leikstjóri sýningarinnar er Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm og danshöfundur er Guðríður Jóhannsdóttir.

Leikfélag Keflavíkur er spennt að sýna aftur barnasýningu fyrir Suðurnesjamenn og þá sérstaklega að fá börn og ungmenni aftur í leikhúsið, bæði á sviði og sem áhorfendur. „Við hvetjum bæjarbúa að sjálfsögðu til að mæta og sjá framtíðarleikara blómstra á sviðinu í þessari yndislegu uppsetningu á Ronju ræningjadóttur,“ segir í tilkynningu frá Leikfélagi Keflavíkur.

Miðasala fer fram á tix.is