Public deli
Public deli

Mannlíf

Tók kvikmyndagerð fram yfir lækninn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 20. janúar 2024 kl. 06:01

Tók kvikmyndagerð fram yfir lækninn

Kári Snær var dúx í FS á haustönn.
Notar netið mikið til að afla sér þekkingar.
Með dellu fyrir myndavélum og er í skemmtilegu starfi hjá RÚV.

Kári dúxaði frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja með 9,32 í meðaleinkunn.

Kári Snær Halldórsson var dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn og útskrifaðist af raunvísindabraut með meðaleinkunina 9,32. Ástæða þess að hann valdi sér þessa braut var áhugi hans á læknavísindum og því var eðlileg spurning blaðamanns hvort næsta skref yrði læknisfræði í Háskóla Íslands. „Alls ekki,“ var svar Kára en eftir um eitt ár í FS fékk hann áhuga á kvikmyndagerð og hefur ekki litið til baka síðan þá.

Kári hefur unnið sem verktaki hjá RÚV í rúmt ár, er með kvikmynd í pípunum og sagði að talsvert meiri líkur væru á að hann verði búinn að gera þá kvikmynd eftir þrjú ár en að hann verði búinn að vera á námsbekk að nema læknisfræði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kári er ekki fæddur og uppalinn í Reykjanesbæ, hann flutti þangað frá Ísafirði þegar hann var sex ára og fjölskyldan bjó á Ásbrú fyrstu árin. Hann náði einu ári í leikskóla og fór svo í Njarðvíkurskóla og býr í dag í Innri-Njarðvík. Kári fór strax í FS eftir grunnskóla og skráði sig í raunvísindadeild, var á læknisfræðilínu því hugur hans stefndi þangað. Svo breyttist stefna hans. „Ég fékk dellu fyrir myndavélum og hef í raun ekki litið til baka síðan. Það var athyglisvert hvernig þessi áhugi kviknaði hjá mér, í gegnum verkefni í greinum sem alls ekki eru kennd við kvikmyndun. Við vorum að fara gera íslenskuverkefni og ég náði að sannfæra kennarann, Ástu Svanhvíti Sindradóttur, um að leyfa okkur að skila lokaverkefninu sem stuttmynd. Við settum Hrafnkels sögu Súrssonar upp í nútímalegum stíl. Úr varð tuttugu mínútna stuttmynd sem gekk mjög vel. Frábær kennari okkar í samfélagsfræði, Guðmundur Ingvar Jónsson, hvatti okkur til að nýta tæknina svona líka og þar kom þessi áhugi minn endanlega. Ég keypti mér góðar græjur og hef síðan gert mikið af alls kyns efni, bæði í félagslífinu í skólanum og fyrir fólk úti í bæ. Ein stuttmyndin sem við gerðum, Það heyrast engin öskur í kafi, keppti fyrir hönd FS á kvikmyndahátíð framhaldsskólanna og vann verðlaun fyrir bestu kvikmyndatökuna og bestu tæknilegu útfærsluna. Út frá þessu öllu bauðst mér svo vinna hjá RÚV sem ég hef verið í núna í rúmt ár. Ég er framleiðandi á kynningardeild, er bæði að klippa til auglýsingar og kem mikið að öllu efni sem fer á samfélagsmiðla.“

Kári ásamt Boga Ágústssyni, Ingólfi Ísak Kristinssyni og Einari Michaelssyni.

Í íslenskuverkefninu í FS kynntist Kári Einari Michaelssyni sem fór svo í kvikmyndaskólann. Þeir ákváðu að vinna áfram saman.

„Við gerðum nokkrar stuttmyndir, vorum t.d. að frumsýna myndina Hvers dags gammbítur, sem var útskriftarverkefni Einars, í Stapa fyrir jólin. Við fengum sjálfan Boga Ágústsson, fréttamann á RÚV, til að leika vonda karlinn í myndinni. Það var mjög gaman. Við erum að verða búnir að semja handrit að kvikmynd í fullri lengd, ég tel mun meiri líkur á að ég verði búinn að klára þá mynd eftir þrjú ár, í stað þess að vera sestur á skólabekk að læra læknisfræði. Mér finnst þetta ofboðslega skemmtilegt, mér hefur gengið vel í þessu og sé því ekki fram á annað en leggja þetta fyrir mig. Ef ég myndi fara í nám myndi ég fara erlendis og þá líklega til Þýskalands. Ég er kominn í góða vinnu og er hugsanlega að fara í fleiri verkefni fyrir RÚV svo til að byrja með ætla ég að einbeita mér að því.“

Myndband með Má og Ladda

Kári tekur áfram að sér alls kyns aukaverkefni og gerði t.d. myndbandið við jólalag Más Gunnarssonar, Mér finnst ég bara eiga það skilið, sem kom út fyrir jólin en enginn annar en Laddi syngur og leikur í myndbandinu. „Þetta kom upp með mjög skömmum fyrirvara. Már sendi á mig og sagðist vera koma til landsins daginn eftir og spurði hvort ég gæti gert myndband fyrir hann í lagi sem Laddi væri að syngja með honum og leika í myndbandinu. Ég hugsaði með mér að Laddi hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og var því ekki lengi að samþykkja að taka þátt í þessu. Framtíðarplönin á þessari stundu eru að þróa mig áfram sem kvikmyndagerðarmaður, kannski mun ég fara í nám erlendis en allt sem ég kann í dag hef ég sjálfur lært á netinu. Það er ótrúlegt hvaða þekkingu er hægt er að afla sér á netinu og í raun gæti maður lært þetta allt án þess að fara í skóla. Ég er líka þannig að ég reyni að læra af öllum. Á þessum stutta tíma hjá RÚV hef ég unnið með mörgum fagaðilum og hef lært mikið af þeim, ég er eins og svampur og reyni að sjúga í mig sem mest af fróðleik. Mér hefur alltaf gengið vel að læra en mér finnst vera kominn tími til að endurskoða menntakerfið. Ég er með límheila, það dugar mér að lesa eitthvað einu sinni og þá man ég það en það eru ekki allir þannig, oft og tíðum mjög klárt fólk en því bara hentar ekki núverandi námsfyrirkomulag. Ég vona að kennslufræðin muni þróast meira í þessa átt sem ég fékk að prófa í samfélagsfræðinni og íslenskunni, að nýta tæknina svona. Tæknin er komin til að vera og hún á bara eftir að þróast. Af hverju ekki frekar að vinna með henni í stað þess að þráast við gamlar og úreldar aðferðir? Til hvers erum við ennþá að læra dönsku? Af hverju er ekki frekar meiri áhersla lögð á fjármálalæsi? Eitthvað sem nýtist öllum, hvað er danska að fara nýtast mér ef ég er ekki að fara flytja þangað?“

Kári fékk dellu fyrir myndavélum og hefur ekki litið til baka síðan.

Móti boðum og bönnum

„Ég hef alveg orðið var við umræðuna úr grunnskólunum varðandi farsíma. Sumir vilja alfarið banna þá og kannski væri það draumastaðan því börnin hafa gott af því að kynnast persónulega. Ég er hins vegar frekar frjálslyndur og er á móti boðum og bönnum, börnin myndu alltaf finna leiðir ef símarnir yrðu bannaðir því er það ekki venjulega þannig að það sem er bannað finnst börnunum spennandi? Því er kannski gáfulegra að kenna börnunum frekar hvernig eigi að nota símann, kenna þeim ábyrga notkun,“ sagði dúxinn að lokum.