Fjörheimar
Fjörheimar

Mannlíf

Sýningarspjall um Heimskautin heilla
Miðvikudagur 24. júní 2020 kl. 09:25

Sýningarspjall um Heimskautin heilla

í Þekkingarsetri Suðurnesja sunnudaginn 28. júní kl. 14

Sýningin Heimskautin heilla í Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði er tileinkuð franska Íslandsvininum, lækninum og heimskautaleiðangursstjóranum Jean-Baptiste Charcot (1867-1936) og rannsóknarstarfi hans.

Þar hefur hluti innviða hins fræga rannsóknarskips hans, Pourquoi-Pas? sem fórst við Ísland haustið 1936 verið endurgerður og þar eru ennfremur til sýnis fjölmargir merkir gripir sem afkomendur Charcots og aðrir velunnarar sýningarinnar hafa gefið frá því hún var opnuð í ársbyrjun 2007. Þar á meðal má nefna eitt glæsilegasta og nákvæmasta módel sem gert hefur verið af Pourquoi-Pas?, portrett af Charcot frá 1935 sem listamaðurinn René-Yves Creston gaf Hermanni Jónassyni, þáverandi forsætisráðherra Íslands, og eftirlíkingu af kajak sem inúítar gáfu Charcot í einum af fjölmörgum leiðöngrum hans til Grænlands á sínum tíma.

En hver var Charcot og hver er arfleifð hans nú á tímum sífellt hraðari loftslagsbreytinga? Friðrik Rafnsson, þýðandi, leiðsögumaður og heiðursfélagi í Vináttufélagi Charcots og Pourquoi-Pas?, fjallar stuttlega um það og býður í kjölfarið upp á leiðsögn um sýninguna. Sjá nánar um hana á https://charcot.is

Sýningin er einkar fjölskylduvæn og allir krakkar sem koma geta fengið lánað myndskeytt lesefni um Charcot og ævintýri hans.

Sýningarspjallið fer fram í Þekkingarsetri Suðurnesja, Garðvegi 1 í Sandgerði sunnudaginn 28. júní kl. 14. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.