Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Jólabarn sem sér fram á öðruvísi jól í ár
Sunnudagur 17. desember 2023 kl. 06:00

Jólabarn sem sér fram á öðruvísi jól í ár

Jóhanna Sævarsdóttir er 61 árs Grindvíkingur og er aðstoðarskólastjóri í Háaleitisskóla. Jóhanna og maður hennar, Viðar Geirsson sem er vélstjóri á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni, eyða miklum tíma í sumarbústað fjölskyldunnar í Hraunborgum, á Spáni og hafa nýlega tekið ástfóstri við golfíþróttina. Jóhanna er jólabarn en sér fram á öðruvísi jól í ár.

Árið byrjaði á Spáni og því lýkur á Spáni hjá okkur hjónunum. Þetta ár hefur verið skemmtilegt, frekar hefðbundið og fjölskyldan hefur haft það gott. Þetta hefur verið nokkuð rólegt ár, aðeins einn stórviðburður í fjölskyldunni varð þegar yngsta dóttirin útskrifaðist úr HÍ í vor með Bs gráðu í sálfræði. Annars rólegt og gott ár þar til 10. nóvember þegar tilveran fór á hvolf.

Ertu mikið jólabarn?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er skrýtið að sitja hér í garðinum mínum á Spáni í sól og 20 stiga hita að svara spurningum og hugsa um jólin mín, allt er svo öðruvísi núna, ég fæ smá sting í hjartað og kökk í hálsinn, fæ heimþrá eftir húsinu mínu og fallega bænum mínum þegar ég hugsa um jólin núna. En já, ég er jólabarn og elska jólin og allt sem þeim fylgir.

Ég tengi jólastússið við dæturnar, allar jólasýningarnar, jólatónleikana og leikritin sem barnafólk tekur þátt í í desember. Við erum ekki lengur í því stússi og síðustu ár hafa jólin verið róleg hjá okkur þar sem við njótum aðventunnar og samveru um jólin með fjölskyldu og vinum.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili ?

Við settum jólatréð alltaf upp á þorláksmessu hér á árum áður, það var hefð hjá okkur, oft seint um kvöldið því við vorum á fullu að þrífa og klára stundum á seinustu stundu. Núna er ég með lítið plasttré sem ég keypti með ljósum og skrauti á á markaðnum hér á Spáni og það verður sett upp þegar yngsta dóttirin kemur út til okkar.

Hver er fyrsta jólaminningin?

Fyrsta minningin mín er þegar ég er á jólaballi í Kvennó í nýjum hvítum kjól með rauðum borða sem móðir mín saumaði á mig, kjóllinn var svo fallegur en mig klæjaði mikið undan honum. Ég man ekki alveg aldurinn en giska á að ég hafi verið um fimm til sjö ára. Það sem gerir þetta eftirminnilegt er að ég var oft veik á jólunum og missti þá af jólaballinu.

En skemmtilegar jólahefðir:

Það er alltaf jólaboð á jóladag hjá stórfjölskyldu mannsins míns með hangikjöti og öllu. Þessi jól verðum við hjónin á Zenia ströndinni á jóladag en það er hefð hér og þangað koma fleiri hundruð manns, fjölskyldur mæta og grilla og hafa gaman.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Það er eins með gjafirnar eins og margt annað, áður fyrr var ég stundum fram á aðfangadag að kaupa þær en er núna búin að kaupa og ganga frá gjöfum.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Að vera með fólkinu mínu, helst öllum, og njóta jólahátíðarinnar með þakklæti og gleði í hjarta.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin?

Yngsta dóttirin hún Silja Rós sem er fædd 6. desember, er besta jólagjöf sem ég hef fengið. Af veraldlegum hlutum þá er það gullhringur með hvítri perlu sem maðurinn minn gaf mér fyrstu jólin okkar saman sem par. Ég henti svo þessum hring sem mér þótti svo vænt um óvart í ruslið, ég leitaði mikið en fann hann ekki.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Eina óskin á óskalistanum er að komast aftur heim í húsið mitt, heim í fallega bæinn minn Grindavík sem fyrst.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Á aðfangadag er hamborgarhryggur, möndlugrautur og heimatilbúinn ís og síðan hangikjöt og frómas á jóladag. Þetta er líka svona í ár þrátt fyrir að við séum á Spáni, hangikjötið, laufabrauðið, rauðkálið og Orabaunirnar var tekið með út. Við förum í skötuveislu hjá Íslendingafélaginu og hamborgarhryggurinn er spænskur.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Þetta verða kósý jól hjá okkur hjónunum, við verðum tvö núna svo rólegra getur það varla orðið. Ég ætla að að elda gott, hitta vini, spila golf, slappa af í sólinni og horfa á væmnar Hallmark jólamyndir á kvöldin.