Íþróttir

Sveindís Jane skoraði og lagði upp í sigri á Serbum
Sveindís Jane fagnar marki sínu. Myndir: Fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 28. febrúar 2024 kl. 08:52

Sveindís Jane skoraði og lagði upp í sigri á Serbum

Keflvíkingurinn Sveindís Jane Jónsdóttir átti stóran þátt í því að tryggja Íslandi sæti á A-deild undankeppni EM 2025. Sveindís skoraði jöfnunarmark Íslands á 75. mínútu og átti stoðsendingu á Bryndísi Örnu Níelsdóttur sem skoraði sigurmarkið á 86. mínútu.

Serbía komst yfir snemma í leiknum (6') og Íslendingar áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi. Ísland sýndi mikla baráttu í seinni hálfleik en vörn Serba hélt þar til Sveindís jafnaði á 75. mínútu. Markið kom eftir skyndisókn þar sem Sveindís nýtti hraða sinn þegar Amanda Jacobsen Andradóttir átti góða sendingu inn fyrir vörn Serba. Sveindís náði boltanum og var ein á móti markmanni sem var komin langt út úr markinu og eftirleikurinn var einfaldur, Sveindís setti boltann yfir markvörðinn og í netið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Markvörður Serba var stödd í „einskinsmannslandi“ og gat ekkert gert við marki Sveindísar.

Ísland og Serbía gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna sem var leikinn í Serbíu síðastliðinn föstudag, þar skoraði Alexandra Jóhannsdóttir eftir eitt af löngu innköstum Sveindísar, þannig að Sveindís átti þátt í öllum mörkum Íslands gegn Serbíu.

Á vefnum Fotbolti.net er skemmtilegt viðtal við Sveindísi eftir leikinn í gær.