Íþróttir

Spennandi að mæta KR í bikarnum
Rafn Markús og Snorri, þjálfarar Njarðvíkurliðsins.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 6. júní 2019 kl. 11:26

Spennandi að mæta KR í bikarnum

„Leikurinn leggst vel í okkur. Þetta er spennandi verkefni fyrir okkar lið að fara á Meistaravelli og spila við sterkt lið KR. Vonandi eiga Njarðvíkingar eftir að fjölmenna í Reykjavík og styðja okkur. Einnig verður gaman fyrir okkar stuðningsmenn að sjá Njarðvíkurliðið mæta okkar manni Óskari Erni Haukssyni sem hefur byrjað tímabilið mjög vel. Við erum með skemmtilegt lið af flottum leikmönnum sem að leggja mikið á sig. Þetta verður spennandi verkefni sem við hlökkum til að takast á við,“ segir Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Inkassoliðs Njarðvíkinga sem mætir Pepsi-deildarliði KR í 8 liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar.

Hvaða áhrif hefur þetta á mannskapinn að vera í bikar?

„Það er eðlilegt að það fylgi því aukið álag að ná langt í bikar. Það tekur klárlega toll fyrir leikmannahópinn en auðvitað erum við ánægðir að vera komnir áfram í bikarnum og spila fleiri leiki. Álagið þýðir að við erum að ná góðum árangri og erum enn í tveimur mótum. Það er klárt að allir vilja spila sem flesta leika en auðvitað þurfum við að passa upp á leikmannahópinn þar sem stefnir í að við spilum fjóra leiki á tólf dögum í kringum bikarleikinn. Þannig að allur fókusinn verður á ná sem mestri endurheimt fyrir næsta leik. Eins munum við reyna að gefa leikmönnum eins marga frídaga og mögulegt er til þess að þeir nái að hvílast sem best.“

Hvernig er staðan á mannskapnum?

„Staðan á leikmannahópnum er nokkuð ágæt, en það er eitthvað um meiðsli hjá okkur. Toni sem handleggsbrotnaði gegn Keflavík verður frá fram í júlí, Pawel hefur verið frá í síðustu leikjum og Kenny þurfti að fara útaf gegn Fjölni vegna meiðsla, það munar um minna en þeir sem hafa komið inn hafa staðið sig mjög vel en ég vona að þeir verði klárir í næsta leik gegn Fram.“

Njarðvíkingar hafa leikið ágætan fótbolta það sem af er sumars en fá nú stórt verkefni þegar þeir mæta KR í bikarnum. VF-mynd/pállorri.