Public deli
Public deli

Íþróttir

Njarðvíkingar senda öðru sinni kvennalið til leiks
Njarðvíkingurinn Kolbrún Dís Snorradóttir er ein af ungu og efnilegu leikmönnunum liðsins en hún er fædd árið 2008. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. apríl 2024 kl. 06:06

Njarðvíkingar senda öðru sinni kvennalið til leiks

„Rökrétt skref að yngja leikmannahópinn í ár,“ segir Dagmar Þráinsdóttir, þjálfari Njarðvíkur.

Knattspyrnudeild UMFN sendi kvennalið í fyrsta skipti til þátttöku í bikarkeppni KSÍ á síðasta tímabili. Kvennalið Njarðvíkur fékk þá nágranna sína Grindavík í heimsókn og má segja að Njarðvíkurkonur hafi staðið sig hetjulega í frumraun liðsins þótt gestirnir hafi unnið leikinn. Nú ári síðar tekur Njarðvík aftur þátt í bikarkeppninni og mætir ÍH næstkomandi sunnudag klukkan 14 á útigervigrasinu við Nettóhöllina. Dagmar Þráinsdóttir, þjálfari Njarðvíkur, segir að töluverðar breytingar hafi orðið á leikmannahópnum.

Dagmar Þráinsdóttir, þjálfari Njarðvíkinga.

„Leikmannahópurinn í ár er töluvert breyttur frá því í fyrra og nú skipa fleiri ungar og efnilegar knattspyrnukonur hópinn í bland við nokkrar eldri og reynslumeiri,“ segir Dagmar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Markmiðið er að senda lið til leiks á Íslandsmótið í knattspyrnu á næsta ári og því rökrétt skref að yngja leikmannahópinn í ár með leikmönnum sem gætu mögulega spilað með liðinu í 2. deild á næsta ári ef allt gengur upp.“

Byrjunarliðið sem lék fyrsta opinbera leik kvennaliðs Njarðvíkur á síðasta ári.

Uppgangur kvennaknattspyrnunnar í Reykjanesbæ er búinn að vera ævintýralegur undanfarin ár og Dagmar segir þetta vera enn eitt skrefið í þeirri vegferð að bæjarfélagið eignist lið í 2. deild þar sem ungar og efnilegar knattspyrnukonur fá tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.