HMS
HMS

Íþróttir

Njarðvíkingar með enn einn sigurinn
Dedrick Deon Basile er öflugur leikmaður Njarðvíkur og hann skilaði fimmtán stigum í hús í gær auk þess að gefa átta stoðsendingar.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 23. október 2021 kl. 08:07

Njarðvíkingar með enn einn sigurinn

Njarðvíkingar tóku á móti Val í Subway-deild karla í körfuknattleik í Ljónagryfjunni í gær. Eftir jafnan fyrsta leikhluta má segja að Njarðvíkingar hafi hafið sig til flugs og hrósuðu 26 stiga sigri að lokum. Keflavík sótti ÍR heim á fimmtudag og þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigri gegn andlausu liði Breiðhyltinga.

Njarðvík - Valur 96:70

(17:16, 26:17, 20:17, 33:20)

Leikurinn var frekar jafn í byrjun en eftir að Valsmenn komust í sjö stiga forystu (5:12) tóku Njarðvíkingar til sinna ráða og sneru dæminu við. Aðeins munaði einu stigi á liðunum eftir leikhlutann (17:16) Njarðvík í vil.

Njarðvíkingar juku forskotið jafn og þétt og höfðu tíu stiga forystu þegar gengið var til hálfleiks. Heimamenn voru skrefinu á undan Valsmönnum allan leikinn en það var ekki fyrr en í síðasta leikhluta að sókn Njarðvíkinga setti í fluggírinn og gerði út um leikinn, skoruðu 33 stig gegn tuttugu stigum gestanna.

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris

Sóknarleikur Njarðvíkinga hefur verið góður á tímabilinu og hefur liðið gert að meðaltali 104 stig í leik, varnarleikurinn var til fyrirmyndar og að halda Val í 70 stigum hlýtur að teljast nokkuð gott. Ólafur Helgi Jónsson átti stórgóða innkomu af bekknum en hann skoraði ellefu stig og tók þrjú fráköst.

Fotios Lampropoulos var öflugur undir körfunni með tuttugu stig og þrettán fráköst.

Frammistaða Njarðvíkinga: Fotios Lampropoulos 20/13 fráköst, Nicolas Richotti 19/5 fráköst/5 stoðsendingar, Mario Matasovic 16/4 fráköst, Dedrick Deon Basile 15/6 fráköst/8 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 11, Logi Gunnarsson 8, Veigar Páll  Alexandersson 4, Snjólfur Marel Stefánsson 3, Bergvin Einir Stefánsson 0, Elías Bjarki Pálsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0.

Tölfræði leiks.


ÍR - Keflavík (73:89)

(12:22, 16:29, 21:15, 24:23)

Keflvíkingar sóttu ÍR heim á fimmtudag og lentu ekki í vandræðum með slaka Breiðhyltinga. Frá fyrsta leikhluta var útséð í hvað stefndi og munaði 23 stigum á liðunum í hálfleik (28:51).

ÍR sóttu í sig veðrið í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í sautján stig (49:66) en Keflvíkingar höfðu fulla stjórn á aðstæðum og lönduðu öruggum sigri.

Domynikas Milka átti stórgóðan leik, setti niður tuttugu stig, tók átta fráköst og átti fjórar stoðsendingar.


Tölfræði leiks.