Flugger
Flugger

Íþróttir

Maggi Tóka og Hámundur Örn mætast í úrslitum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 17. maí 2024 kl. 06:05

Maggi Tóka og Hámundur Örn mætast í úrslitum

Undanúrslitin í tippleik Víkurfrétta fóru fram um helgina og kom greinilega í ljós að „kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið“. Forystusauðirnir tveir, þeir Grétar Ólafur Hjartarson og Gunnar Már Gunnarsson, voru eflaust búnir að ákveða hvað þeir skyldu skoða í London samhliða að mæta á úrslitaleikinn í FA cup á milli Manchester-liðanna United og City. Eftir frábæra frammistöðu í tippleiknum í vetur voru þeir báðir sjálfsagt sigurvissir en voru laglega teknir í bólinu af Magga Tóka sem vann Grétar 10-8 og Hámundi Erni Helgasyni sem vann Gunnar Má 9-6. Við þökkum fyrrum liðsfélögunum Grétari og Gunnari Má kærlega fyrir góða frammistöðu í vetur.

Einn Íslendingur af 24 náði þrettán réttum og baðar sá hinn sami sig upp úr rúmum 3,2 milljónum króna. 29 af 830 sem náðu tólf réttum keyptu seðilinn á Íslandi, fær hver tæpar 35 þúsund krónur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þá er ekkert eftir nema sjálfur úrslitaleikurinn. Víkurfréttir tóku stöðuna á Magga Tóka og Hámundi. Þar sem Hámundur endaði í þriðja sæti fékk hann fyrstur orðið.

„Ég er búinn að svífa um á bleiku skýi síðan á laugardaginn þegar ég sá að ég hafði rúllað Gunnari Má upp. Ég verð að viðurkenna að ég átti von á meiri mótspyrnu frá honum, sem telur sig vera voðalegan getraunaspeking. Það er greinilega ekki það sama að sjá um getraunastarfið fyrir Grindavík með frábærum hætti og vera góður að tippa. Að klikka svona eins og hann gerði á ögurstundu, ég átti von á meiru frá Gunna. Ég mæti áfram með auðmýktina að vopni í úrslitlaleikinn á móti Magga Tóka, hann er greinilega sjóðandi heitur þessa dagana og ég þarf að kafa djúpt í reynslubrunn minn til að vinna hann á sunnudaginn,“ sagði Hámundur.

„Að sjálfsögðu er ég ánægður með að koma mér í úrslitaleikinn. Ef ég man rétt þá heldur Hámundur ekki með Manchester United og þar sem ég veit að þú, blaðamaður Víkurfrétta, ert United-stuðningsmaður eins og ég, finnst mér eins og það sé skrifað í skýin að ég vinni Hámund og ég og þú fögnum glæstum sigri okkar manna á móti City á Wembley. Ég hlakka mikið til að fara í þessa ferð,“ sagði Maggi Tóka.