Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Keflavíkurliðið er ungt
Alma Rós Magnúsdóttir vakti athygli í Bestu deildinni á síðasta tímabili en hún er fædd árið 2008. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. apríl 2024 kl. 06:08

Keflavíkurliðið er ungt

„Þær eiga eftir að fá margar mínútur í sumar,“ segir Jonathan Glenn um unga leikmenn kvennaliðs Keflavíkur.

Keflavík á eina liðið á Suðurnesjum sem leikur í efstu deild þetta árið en Keflavík tryggði sæti sitt í Bestu deild kvenna með góðri frammistöðu í lok tímabilsins. Jonathan Glenn er á öðru ári sínu með liðið og hann er vongóður um að liðið eigi eftir að sýna enn betri árangur í sumar en í fyrra.

„Veturinn hefur lofað góðu. Við byggðum upp í kringum þann góða kjarna sem við höfum af ungum Keflvíkingum, ungum leikmönnum sem við viljum hjálpa að þroska sig sem toppleikmenn framtíðarinnar,“ segir Jonathan og bætir við að ungu leikmennirnir hafi fengið mörg tækifæri og margar mínútur á undirbúningstímabilinu; „og þær eiga eftir að fá margar mínútur í sumar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Jonathan Glenn fagnar eftir sigurleik ásamt Guðrúnu Jónu Kristjánsdóttur, aðstoðarþjálfara, og Kristrúnu Ýr Holm, fyrirliða Keflvíkinga.

Leikmenn smella saman

Jonathan segir að hann sé mjög ánægður með hvernig ungu leikmennirnir hafa tekist á við að þurfa að þroskast hratt og þá falli nýju leikmennirnir vel inn í hópinn. „Keflavíkurliðið er ungt og ég er mjög ánægður með hvernig nýir leikmenn eru að falla inn í hópinn. Þrír erlendir leikmenn hafa gengið til liðs við okkur, framherjinn Saorla Miller, bakvörðurinn Sue Friedrichs sem spilaði með Selfossi tvö tímabil og Elianna Beard en hún er sókndjarfur miðjumaður með reynslu úr meistaradeildinni og lék með Grindavík árið 2021. Þær hafa virkilega styrkt hópinn, eru góðir leikmenn að vinna með og falla vel inn í hópinn.

Við fórum í góða æfingaferð til Barcelona á Spáni þar sem við æfðum við bestu aðstæður og veðrið lék við okkur á meðan við vorum þar. Það besta sem ferðin gerði fyrir liðið var að styrkja tengslin og andann í hópnum. Við vorum mjög ánægt með hvernig sú ferð heppnaðist.“

Saorla Miller, Sue Friedrichs og Elianna Beard.
Mynd/Keflavík á Facebook


Berjast fram á lokamínútu

Annars segir Jonathan að stelpurnar séu allar mjög spenntar að hefja tímabilið en fyrsti leikur hjá Keflavík í Bestu deildinni er 22. apríl. „Við spilum við Breiðablik úti í fyrstu umferð og vonum að Keflvíkingar mæti á leikinn til að styðja við bakið á okkur. Það væri mjög gott að finna þann stuðning í byrjun tímabilsins.“

En hverju mega stuðningsmenn eiga von á frá Keflavíkurliðinu í sumar?

„Það sem stuðningsmenn liðsins geta vænst af Keflavík í sumar er lið sem mun leggja sig fram í öllum leikjum, þær munu gefa allt í leikina og sýna sömu vinnusemi og við sáum hjá þeim á síðasta tímabili. Þær gáfu allt í leikina og börðust fram á lokamínútu til að tryggja Keflavík áframhaldandi sæti í Bestu deildinni. Vonandi getum við byggt á reynslu okkar frá síðasta ári og bætt okkur í deild og bikar. Við komumst í átta liða úrslit bikarkeppninnar í fyrra sem er mikið afrek. Í sumar vil ég líka sjá að við byggjum okkur upp í deildinni og gangi betur en í fyrra,“ sagði Jonathan Glenn í lokin.