Public deli
Public deli

Íþróttir

Keflavík vann Stjörnuna - Reykjanesbæjarslagur framundan
Keflavíkurkonur fögnuðu sigri og mæta nú Njarðvík. VF/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 13. maí 2024 kl. 22:19

Keflavík vann Stjörnuna - Reykjanesbæjarslagur framundan

Keflavík sigraði Stjörnuna í æsispennandi lokaleik undanúrslitarimmu liðanna í Blue höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 81-76 þar sem Keflavík sýndi mátt sinn og megin í lokin. Framundan er draumaúrslitasería Reykjanesbæjar þegar Keflavík og Njarðvík mætast í úrslitaviðureign. Fyrsta viðureignin verður í Keflavík á fimmtudag.

Undirritaður man ekki eftir jafn mörgum áhorfendum á kvennaleik í Keflavík en stemmningin í Blue höllinni hefur verið frábær í undanförnum leikjum Keflavíkurliðanna þar sem meira hefur verið lagt upp úr stemmningu.

Þessi fimmti leikur bauð upp á frábæra skemmtun en misgóðan körfubolta enda spennustigið hátt. Keflavík byrjaði betur en í hinum fjórum viðureignunum gegn Stjörnunni sem þó skoruðu fimm fyrstu stigin. Heimakonur svöruðu þá fyrir sig og fóru í gang. Stjarnan leiddi þó með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 20-23. Skyttur Keflavíkur voru ekki eins heitar í öðrum leikhluta og Stjarnan náði mest níu stiga forskot en leiddi með sex þegar flautað var til hálfleiks 41-47. Greina mátti nettan áhyggjusvip á stuðningsfólki heimamanna í hálfleik. Voru Stjarnan virkilega að fara að slá Keflavík út í undanúrslitum?

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Keflavík með Söru Rún og Birnu Valgerði í góðum gír í upphafi síðari hálfleiks voru fljótar að jafna og þegar þriðji leikhluti var búinn var staðan jöfn 60-60. Spennustigið hátt og hittnin ekki góð í lokin.

Heimakonur náðu forystu í upphafi fjórða leikhluta en náðu þó ekki að slíta Stjörnukonur frá sér. Þær voru þó sterkari í lokin. Stjörnukonur urðu að lúta í gras gegn Keflavík en geta borið höfuðið hátt. Stuðningsmenn Keflavíkur fögnuðu vel og innilega og framundan er mögnuð úrslitasería gegn Njarðvík um Íslandsmeistaratitilinn. Reykjanesbær - El clasico.

Stigahæst hjá Keflavík voru Sara Rún Hinriksdóttir með tuttugu stig. Besti leikur hennar í langan tíma. Daniela Wallen var með 16 stig, Thelma Ágústsdóttir var mjög góð og skoraði 15 stig, E. Pinzan var með 13 og Birna V. Benónýsdóttir með tólf stig en hún meiddist í leiknum þegar hún var við það að skila boltanum í körfuna inni í teig og meiddist á hné. Þegar þetta er skrifað er ekki vitað um hversu alvarleg meiðslin eru.

Pressan fyrir þennan leik var á heimakonum sem flestir spáðu öruggum sigri í þessari undanúrslitaviðureign en Stjörnukonur skinu skært og ekki bara bitu frá sér heldur léku geggjaðan körfubolta. Keflavíkurkonur voru ekki að sýna sitt rétta andlit í seríunni og má spyrja sig hvort þær hafi vanmetið þær bláu úr Garðabænum. En þær höfðu þetta og mæta nú sjóðheitum grönnum sínum úr Njarðvík í úrslitunum sem unnu Grindavík 3-0. Líklegt má telja að það verði ekki neitt vanmat þá.