Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Keflavík missteig sig á Hlíðarenda
Aðeins munar einum sigri á Keflavík og Njarðvík sem eru í efstu tveimur sætur deildarinnar. Mynd úr leik Njarðvíkur og Keflavíkur fyrr á tímabilinu. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. janúar 2024 kl. 11:19

Keflavík missteig sig á Hlíðarenda

Suðurnesjaliðin skipa þrjú efstu sætin í Subway-deild kvenna

Topplið Keflavíkur missteig sig í lokaleik sautjándu umferðar Subway-deildar kvenna í körfuknattleik í gær þegar Keflvíkingar töpuðu fyrir Val á Hlíðarenda. Keflavík er ennþá á toppnum en nú eru Njarðvíkingar aðeins einum sigri á eftir toppliðinu. Njarðvík lagði Snæfell örugglega í fyrradag og Grindavík vann Þór Akureyri. Suðurnesjaliðin þrjú skipa þrjú efstu sæti deildarinnar.

Snæfell - Njarðvík 59:92

Selena Lott var afgerandi best í leiknum gegn Snæfelli.

Leikur Snæfells og Njarðvíkur varð aldrei spennandi og botnliðið auðvelt viðureignar fyrir Njarðvíkinga sem eru núna búnar að vinna sjö leiki í röð. Njarðvík fór sér engu óðslega í fyrri hálfleik og leiddi með sex stigum í hálfleik (34:40).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í þriðja leikhluta fór heldur að draga í sundur með liðunum og munurinn orðinn átján stig fyrir fjórða leikhluta (48:66).

Njarðvíkingar unnu heimakonur í síðasta leikhlutanum og með fimmtán stigum og lokatölur 59:92.

Selena Lott  skoraði 26 stig og bar af í leiknum. Næstar henni voru þær Emelie Hesseldal og Ena Viso með fimmtán stig hvor, þá var Hulda María Agnarsdóttir með tíu stig, Lára Ösp Ásgeirsdóttir átta, Jana Falsdóttir sjö, Krista Gló Magnúsdóttir fimm, Anna Lilja Ásgeirsdóttir þrjú, Kristín Guðjónsdóttir tvo og loks var Sara Björk Logadóttir með eitt stig.


Þór Akureyri - Grindavík 72:85

Fyrirliðinn Hulda Björk Ólafsdóttir hefur átt gott tímabil með Grindvíkingum sem eru í þriðja sæti Subway-deildar kvenna.

Grindavík hóf leikinn fyrir norðan með miklum krafti og tók afgerandi forystu í fyrsta leikhluta (5:27). Þórsarar komu muninum niður í þrettán stig í öðrum leikhluta (20:33) en þá var allur vindur úr þeim og Grindvíkingar fóru inn í hálfleikinn með 24 stig í farteskinu (27:51).

Skaðinn var skeður fyrir norðankonur og þær áttu aldrei möguleika á að vinna þenna mikla mun upp. Þegar fjórði og síðasti leikhluti fór af stað munaði nítján stigum á liðunum (50:69) og endaði leikurinn með þrettán stiga sigri Grindavíkur (72:85) sem eru í þriðja sæti deildarinnar.

Sarah Mortensen var afgerandi besti leikmaður vallarins með 28 stig og sextán fráköst, hún var jafnframt valin Lykilleikmaður umferðarinnar á vefmiðlinum Karfan.is. Danielle Rodriguez var með átján stig, Eva Braslis sextán, Hulda Björk Ólafsdóttir tíu, Aalexandra Sveirrisdóttir sex, Ólöf Óladóttir þrjú stig og þær Dagný Lísa Davísdóttir og Þórey Tea Þorleifsdóttir með tvö stig hvor.


Valur - Keflavík 79:77

Þrátt fyrir að Birna Valgerður Benónýsdóttir hafi verið funheit undir körfunni og skorað 23 stig þá höfðu Keflvíkingar ekki erindi sem erfiði og töpuðu fyrir Val.

Valskonur tóku forystu í byrjun leiks og héldu henni allan fyrri hálfleikinn að undanskildu þegar Sara Rún Hinriksdóttir setti niður þrist í fyrsta leikhluta og jafnaði leikinn í 14:14. Tuttugu sekúndum síðar setti Valur sömuleiðis niður þrist og tók forystuna á nýjan leik.

Keflvíkingar misstu heimakonur aldrei langt fram úr sér en Valur leiddi með sex stigum í hálfleik (41:35)

Keflavík hóf þriðja leikhluta vel og tók að vinna niður forskot Vals jafnt og örugglega. Birna Valgerður Benónýsdóttir kom Keflvíkingum yfir í fyrsta sinn í leiknum um miðbik leikhlutans (46:47) og fyrir lokaleikhlutann hafði Keflavík fimm stiga forystu (56:61).

Keflavík leiddi leikinn þangað til tvær og hálf mínúta voru eftir en þá jafnaði Valur í 74:74 og fékk vítaskot að auki sem rataði ofan í, staðan 75:74.

Síðustu rúmu mínútuna af leiknum, í stöðunni 77:77, mistókst Keflavík í tvígang að koma boltanum í körfuna en leikmaður Vals náði frákastinu eftir seinni tilraun Keflvíkinga og brunaði upp til að skora sigurkörfuna með þrjár sekúndur eftir á klukkunni. Lokatölur 79:77.

Birna Valgerður Benónýsdóttir átti flottan leik og skoraði 23 stig, næstar henni komu Daniela Wallen með fjórtán stig og Elisa Pinzan með þrettán. Anna Ingunn Svansdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoruðu átta stig hvor, Sara Rún Hinriksdóttir sjö og Thelma Ágústsdóttir fjögur.