Nivea
Nivea

Íþróttir

Hnífjafnt en Gísli rétt marði sigur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 10. febrúar 2024 kl. 09:29

Hnífjafnt en Gísli rétt marði sigur

Við fengum æsispennandi leik í tippleik Víkurfrétta á laugardaginn en þá mættust sá sem er á stalli, Gísli Hlynur Jóhannsson, og áskorandinn Ævar Jónasson. Úr varð æsispennandi leikur sem endaði 8-8 og því þurfti að fletta reglugerðarbókinni og eftir að félagarnir höfðu verið með jafnmarga leiki með einu og tveimur merkjum hafði Gísli nauman sigur með því að fá fleiri rétta á fyrstu sex leikjunum á seðlinum, 4-3. Gísli heldur því velli og er meistaranum frá Nesfiski, Ævari, kærlega þökkuð drengileg barátta. Blaðamaður heyrði hljóðið í Ævari sem bar sig illa.

„Ég er auðvitað miður mín yfir að hafa ekki unnið Gísla. Ég gerði þau hroðalegu mistök að taka ráðleggingum frá samstarfsmanni mínum, Leifi Guðjónssyni. Það er nokkuð ljóst að ef ég hefði gert þetta einn og óstuddur, hefði ég fengið fleiri en átta rétta, sem hefði dugað til sigurs.“

Public deli
Public deli

Leifur sendi blaðamanni skilaboð í morgun: „Ég er klár í tippið.“

Tippleikur Víkurfrétta mun hugsanlega bjóða Leifi í leikinn ef allir aðrir möguleikar eru úr sögunni.

Úrslit síðustu helgar voru greinilega óvænt, þrettán réttir gáfu tæpar fjórar milljónir og voru alls 43 get-spakir, þar af einn Íslendingur. Tólf réttir gáfu tæpar 40 þúsund krónur, tæplega 1.000 tipparar náðu því og voru 25 Íslendingar þar á meðal.

Áskorandi vikunnar er Grindvíkingurinn Gunnar Már Gunnarsson. Tími til kominn myndi einhver segja en varla er á nokkurn hallað þótt Gunnar Már sé nánast titlaður Getraunaguð Grindavíkur. Hann hefur verið með puttana í getraunastarfi Grindavíkur meira og minna síðan 1992 og er tíður gestur á veitingastaðnum Brons alla laugardaga og býður Grindvíkingum og öðrum að tippa. Gunnar Már slær hugsanlega metið í þessum leik hvað varðar yfirlýsingagleði. „Ætlarðu að bjóða mér að tippa? Er það svo sniðugt, væri ekki nær að gefa einhverjum öðrum sénsinn? Er ekki hugmyndin að hafa spennu í leiknum? Fyrst það er ferð á úrslitaleikinn í FA cup ætla ég að vinna leikinn.“ Svo mörg voru þau orð hjá verðandi meistara, Gunnari Má Gunnarssyni.

Gísli saup hveljur þegar honum var tilkynnt um næsta áskoranda. „Jæja, það er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur til að reyna að henda mér út. Mjög gott er að ná þremur skiptum í þessum tippleik og er ég stoltur af því en fjögur skipti plús myndi ekki skemma. Nú set ég bara takmarkið á að fá tíu rétta, þá fer ég upp að hlið Jónasar í þriðja sætinu. Reyndar væri frábært að fá ellefu rétta og eiga sætið einn. Ég veit að Gunnar Már er gallharður tippari og er örugglega búinn að vinna mig fyrirfram. Ég er hógvær maður, það verða allir að fljúga eins og þeir eru fiðraðir,“ sagði maðurinn á stallinum, Gísli Hlynur Jóhannsson.