Íþróttir

Heimaleikir Grindvíkinga í Safamýri í sumar
Haukur er fullviss um að Grindvíkingar muni ná að búa til góða stemmningu í Safamýrinni í sumar.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 24. mars 2024 kl. 06:09

Heimaleikir Grindvíkinga í Safamýri í sumar

Safamýrin í Reykjavík verður heimavöllur knattspyrnuliða Grindvíkinga í sumar. Við eldgosið 14. janúar, þegar hraunið náði inn í Grindavíkurbæ og fór yfir þrjú hús, var ljóst að Grindvíkingar myndu ekki leika heimaleiki sína í sumar í Grindavík. KSÍ var fljótt að bregðast við, Grindvíkingum stóð sjálfur Laugardalsvöllurinn til boða en flestum var ljóst að það væri líklega ekki vænsti kosturinn því erfitt yrði að búa til góða stemmningu í svo stóru mannvirki. Því fóru þreifingar af stað og á endanum voru það Víkingar sem koma Grindvíkingum til hjálpar í sumar, Safamýrin verður heimavöllurinn.

Haukur Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG, og Haraldur V. Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, handsöluðu samkomulag á fimmtudaginn í síðustu viku á nýja heimavellinum í Safamýri. Töluverður aðdragandi var að málinu sem þurfti stuðning og samþykki mennta- og barnamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Víkingur lánar Grindavík, endurgjaldslaust, aðstöðuna í sumar en ráðuneytið og Reykjavíkurborg tryggja að umgjörð fyrir leiki liðanna verði til mikils sóma, m.a. með framlagi á borð við nýja vallarklukku og að stúkusætum í eigu ÍBR verði komið upp við völlinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, voru kátir þegar þeir handsöluðu samkomulagið á Víkingssvæðinu í Safamýri.

Meistaraflokkar Grindavíkur munu æfa á grasæfingasvæðinu í Safamýri en spila leiki sína í Lengjudeildunum á gervigrasvellinum.

Grindavík mun leggja til vallarstjóra og starfsmenn  við íþróttamannvirkin í Safamýri en fá á móti skrifstofuaðstöðu og annan aðgang að mannvirkjunum skv. samkomulagi. Einnig mun Grindavík stilla upp auglýsingaskiltum með sínum styrktaraðilum við völlinn í sumar.

Lagt er upp með að fyrsti leikur beggja liða, karla og kvenna, í Lengjudeildunum verði leiknir í Víkinni við Íslandsmeistaraumgjörð og mun knattspyrnudeild Víkings manna miða- og veitingasölu til að Grindvíkingar geti notið dagsins í stúkunni. Þá mun allur ágóði af veitingasölunni renna óskiptur til Grindvíkinga, sem eiga alla miðasölu og fylla vonandi völlinn í bæði skiptin.

Haukur sagði að þessi möguleiki hefði fljótlega komið upp þegar ljóst var að Grindavík myndi ekki leika heimaleiki sína á sínum gamla stað í sumar.

„Þegar okkur var ljóst að við gætum ekki spilað í Grindavík hafði ég samband við KSÍ sem bauð okkur strax Laugardalsvöllinn og fyrir það vorum við og erum auðvitað mjög þakklátir. Við fórum samt að kíkja í kringum okkur og ég hafði fljótlega samband við Víkingana. Þeir tóku okkur mjög vel og þess vegna er það okkur mikið gleðiefni að geta tilkynnt nýja heimavöllinn okkar. Orri Freyr Hjaltalín, vallarstjórinn okkar, getur ekki beðið eftir að hefjast handa og er ég viss um að við munum ná að búa til góða stemmningu hér í Safamýrinni í sumar. Við munum æfa á grasvellinum en spila á gervigrasinu, ástæða þess er að við getum komið auglýsingaspjöldunum fyrir við gervigrasvöllinn, það var ekki hægt á grasvellinum. Gervigras er það sem koma skal í framtíðinni held ég svo það er fínt fyrir okkur Grindvíkinga að venja okkur strax við það. Það er ekki alveg komið á hreint hvar unglingastarfið verður en það ætti að skýrast á næstunni. Það hefur gengið vel að halda krökkunum okkar saman til þessa og á Anton Ingi Rúnarsson, yfirþjálfari unglinga, heiður skilinn fyrir frábært starf. Það skýrist á næstunni hvernig þetta verður í sumar hjá krökkunum, við ætlum að reyna gera það sem er börnunum okkar fyrir bestu. Þau munu vonandi geta keppt undir merkjum Grindavíkur en hvort þau æfi að mestu með öðrum liðum eða hvað, þetta á allt eftir að koma betur í ljós.

Meistaraflokkarnir líta vel út. Karlaliðið var að koma heim úr vel heppnaðri æfingaferð til Spánar. Þeir hafa litið vel út í undirbúningsleikjunum í vetur og koma vel undirbúnir til leiks. Við þekkjum ekkert annað en stefna upp á við og það er markmiðið. Kvennaliðið er á leið í æfingaferð og þær hafa sömuleiðis litið vel út í vetur. Ég myndi segja að það sé bjart yfir hjá okkur, reksturinn lítur vel út og ber að þakka okkar frábæru styrktaraðilum kærlega fyrir og vil ég kannski sérstaklega minnast á Hermann í Stakkavík. Hann hefur bara bætt í og að sjálfsögðu mun heimavöllurinn okkar í Safamýrinni heita Stakkavíkurvöllurinn í sumar. Hermann vill meina að íþróttirnar séu líflínan okkar inn í Grindavík aftur, það má alveg koma fram að hann á stóran þátt í hvað ég næ að halda dampi í formannsstarfinu. Ég fæ mikinn kraft frá honum,“ sagði Haukur að lokum.