Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Grindvíkingar úr leik en Keflavík komst áfram í VÍS bikar karla
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 21. janúar 2024 kl. 21:39

Grindvíkingar úr leik en Keflavík komst áfram í VÍS bikar karla

Eftir hremmingarnar sem Grindvíkingar hafa þurft að ganga í gegnum að undanförnu fannst mörgum eins og skrifað væri í skýin, að bæði körfuboltaliðin myndu fara í „Final four“ í Laugardalshöllinni. Kvennaliðið tryggði sig örugglega í gær en karlaliðið náði ekki að fylgja þeim eftir og tapaði fyrir liði Álftnesinga á heimavelli sínum í Smáranum í kvöld, 79-90. Hinn fulltrúi Suðurnesja karlamegin, Keflvík, vann Hött örugglega á útivelli, 93-123.

Leikurinn var mjög jafn í fyrri hálfleik og skiptust liðin á að hafa forystuna. Grindavík fór inn í hálfleikinn þremur stigum yfir, 43-40. Decrick Basile var lang atkvæðamestur grindvískra með 18 stig. Deandre Kane var kominn með 11 stig.

Seinni hálfleikur byrjaði svipað en Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, tók leikhlé í stöðunni 55-49. Grindavík stal boltanum í næstu tveimur sóknum og setti tvær auðveldar körfur og munurinn allt í einu orðinn 10 stig, 59-49 og „síðan ekki sögunnar meir,“ eins og Stuðmenn sungu forðum. Álftanes var búið að jafna eftir rúma mínútu eftir misskilning í varnarleik Grindvíkinga og eftir það má segja að spennan hafi verið takmörkuð. Grindavík dritaði endalausum þristum - sem duttu ekki og vítanýtingin var sömuleiðis mjög döpur, eða 55% og þriggja stiga nýtingin var 21%. Nokkuð ljóst að erfitt er að sigra leiki með svona nýtingatölur og því fór sem fór, Grindavík fer ekki með systrum sínum í bikarvikuna í Laugardalshöllinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Dedrick Basile var í raun sá eini sem lék af eðlilegri getu í kvöld, endaði leikinn með 28 stig og fimm stoðsendingar. Deandre Kane er mjög líklega hæfileikaríkasti leikmaður deildarinnar, það dylst engum en þangað til hann einbeitir sér að því og hættir tuði í dómurum, liðsfélögum og þjálfarateyminu, mun hann ekki koma til álita sem besti leikmaður deildarinnar. Kane setti einungis 7 stig í seinni hálfleik og misnotaði öll fjögur vítaskot sín í leiknum.

Grindvíkingar því úr leik en Keflvíkingar halda heiðri karlaliða frá Suðurnesjunum í bikarnum, þeir unnu öruggan sigur á Hetti, 93-123. Sturluð staðreynd að enginn leikmaður skoraði meira en 20 stig í leiknum en alls átta leikmenn voru með +10! Flottur liðssigur Keflvíkinga.