Íþróttir

  • Grindavík tapaði óvænt fyrir Þór Akureyri í undanúrslitum VÍS-bikarsins
    Fjölmargir Grindvíkingar mættu í Laugardalshöllina
  • Grindavík tapaði óvænt fyrir Þór Akureyri í undanúrslitum VÍS-bikarsins
    Fjölmargir Grindvíkingar mættu í Laugardalshöllina.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 21:56

Grindavík tapaði óvænt fyrir Þór Akureyri í undanúrslitum VÍS-bikarsins

Flestir áttu eflaust von á öruggum sigri Grindvíkinga á móti Þór frá Akureyri í undanúrslitum VÍS-bikars kvenna en norðankonur komu mjög einbeittar til leiks, tóku stjórnina í öðrum leikhluta sem þær unnu 23-9 og þrátt fyrir mikla baráttu, tókst Grindavíkurkonum ekki að brúa bilið og þurftu því að sætta sig við tap, 79-75.

Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar, Þórskonur í fyrsta sinn á þessu stóra sviði Laugardalshallarinnar, sýndu engin merki um taugaóstyrkleika, vel hvattar af þónokkrum Þórsurum í stúkunni - sem þó var yfirgnæfandi gul að lit þetta miðvikudagskvöld. Fjölmargir Grindvíkingar gerðu sér ferð og studdu sínar konur vel. Ef einhverjir bjuggust við auðveldum Grindavíkursigri var það alls ekki uppi á teningnum í fyrsta leikhluta, jafnt var á flestum tölum og þegar hann var búinn var staðan 28-25 fyrir Grindavík.

Hin danska Sarah Mortensen var heit í fyrsta leikhluta, var komin með 10 stig og Danielle Rodriguez var komin með 9 stig.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað gerðist í öðrum leikhluta er rannsóknarefni. Eftir tæplega átta mínútna leik var Grindavík eingöngu búið að skora 3 stig á móti 15 hjá Þór, staðan allt í einu orðin 42-31 fyrir Þór! Þessi orrahríð átti sér að mestu stað þegar Sarah Mortensen settist á bekkinn en allt kom fyrir ekki eftir að hún sneri til baka, Grindavík var í mesta basli með að finna körfuna og Þórskonur fengur auðveldar körfur á móti. Grindavík náði að hanga í norðankonum það sem eftir lifði hálfleiksins, 48-37 fyrir Þór sem vann annan leikhlutann, 23-9!

Sarah og Danielle þær einu sem voru með lífsmarki hjá Grindavík í fyrri hálfleik, Eve Braslis setti ekki stig í öðrum leikhluta og aðeins fjórir leikmenn voru komnar á blað hjá Grindavík á meðan sjö leikmenn settu stig hjá Þórsurum. Það var nokkuð ljóst að Grindavík þyrfti að bretta upp ermar ef ekki átti illa að fara.

Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, var ekki komin á blað þegar seinni hálfleikur hófst en var fljót að reka af sér slyðruorðið. Eftir að Þórsarar komu mun sínum upp í 12 stig með þristi, svaraði Hulda í sömu mynt og fljótlega tók hún sóknarfrákast, brotið á henni og hún fór á línuna. Á þessum tímapunkti fóru grindvískir stuðningsmenn að kannast við sínar dömur og stemningin snerist á sveif með Grindavík, munurinn kominn niður í sex stig, 53-47. Grindavík virtist vera ná muninum alveg niður en erlendu leikmenn Þórs, þær Maddison Sutton og Lore Devos, voru mjög skeinuhættar, sérstaklega Lore sem var komin með 27 stig. Staðan að loknum þriðja leikhluta 64-58, Grindavík sem sagt búið að minnka muninn um tæpan helming frá því í hálfleik.

Það sem mátti ekki koma fyrir hjá Grindavíkurkonum í lokaleikhlutanum gerðist, Þórsarar opnuðu með 5-0 og munurinn kominn upp í 11 stig, 69-58. Grindavík var fyrirmunað að skora og Lalli tók leikhlé þegar tvær og hálf mínúta var liðin. Danielle Rodriguez kom mjög sterk út úr leikhléinu og setti næstu fjögur stig, Sarah kom með tvist og áður en varði var þjálfari Þórs búinn að taka leikhlé, staðan 69-64 og spennan rafmögnuð! Körfubolti er leikur áhlaupa, aftur var komið að Þórsurum að eiga sviðið, þristur og svo tvistur og munurinn kominn upp í 10 stig aftur. Grindavíkurkonur börðust eins og þær gátu en allt kom fyrir ykkur, sárgrætilegt tap staðreynd, 79-75.

Grindavíkurkonur vilja sjálfsagt gleyma þessum leik sem fyrst, Danielle Rodriguez var stigahæst með 27 stig og Sarah Mortensen skoraði 24.