Íþróttir

Grindavík komst áfram í VÍS bikar kvenna
Hin danska, Sarah Sofie Mortensen, var besti leikmaður Grindavíkur í dag.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 20. janúar 2024 kl. 22:26

Grindavík komst áfram í VÍS bikar kvenna

Kvennalið Grindavíkur mætti Valskonum í Origo-höllinni í 8-liða úrslitum VÍS bikarsins í dag. Grindavík tryggði sér sæti í Laugardalshöllinni í „Final four“ með sannfærandi sigri, 49-61.

Eftir andlausa frammistöðu á móti Keflavík í deildarleik á miðvikudaginn, var allt annað að sjá til Grindavíkurliðsins. Baráttan skein úr andlitum leikmanna og þær hentu sér á alla lausa bolta. Þetta skilaði sér í 11 stiga forystu í hálfleik, 26-37. Eve Braslis var hlutskörpust hvað snerti stigaskort og var komin með 12 stig í hálfleik og Daniele Rodriguez og Hulda Björk Ólafsdóttir með 7 stig hvor.

Hjartveikir þurftu ekki að hafa áhyggjur í seinni hálfleik, þær grindvísku voru með völdin allan tímann og Valskonur ógnuðu aldrei, öruggur 12 stiga sigur staðreynd, 49-61.

Optical Studio
Optical Studio

Blaðamaður telur á enga hallað, ef hin danska Sarah Sofie Mortensen, fær MVP stimpilinn. Hún skoraði 12 stig, tók heil 15 fráköst, stal boltum og barðist eins og sönn ljónynja. Allt liðið stóð sig vel, óþarfi að gera upp á milli hinna.

Grindavík því á góðri siglingu og liðið er til alls víst í baráttunni sem er framundan. Farseðillinn klár í „Final four“ í Laugardalshöllinni og vonandi mun liðið styrkja sig með bandarískum leikmanni, það varð mögulegt þegar Daniele Rodriguez fékk íslenskan ríkisborgararétt og hóf að éta íslenskan súrmat og drekka lýsi.

Lalli þjálfari að fara yfir málin með sínum leikmönnum.

Fjölmargir Grindvíkingar mættu að styðja sínar konur.