Fréttir

Nýr innanlandsflugvöllur í Vogum?
Fimmtudagur 25. júní 2015 kl. 15:52

Nýr innanlandsflugvöllur í Vogum?

- stofnkostnaður flugvallar í Hvassahrauni 22 milljarðar króna

Stýrihópur, sem falið var að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri, hefur skilað af sér skýrslu þar sem fram kemur að nýr flugvöllur í Hvassahrauni í landi Sveitarfélagsins Voga er álitlegasti kosturinn. Stýrihópurinn leggur til að aðilar samkomulagsins komi sér saman um næstu skref í málinu á grundvelli þeirra gagna sem hann hefur aflað. Í tillögu hópsins segir að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð með nauðsynlegum rannsóknum næsta vetur auk þess sem rekstrarskilyrði mismunandi útfærslu og hönnunar verði metin. Náist samstaða um það leggur stýrihópurinn til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni.

Áætlaður stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi flugvallar í Vatnsmýri er um 22 milljarðar kr. Metinn nothæfisstuðull flugvallar er 96,4-97,2% fyrir tvær flugbrautir en 99,6% fyrir þrjár flugbrautir m.v. 13 kt. hliðarvind.

Hvassahraun er sá flugvallarkostur sem liggur fjærst búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins. Meðalaksturstími að/frá búsetumiðju er um 19 mín. sem er 8 mín. lengra en að/frá Vatnsmýri. Akstursvegalengd er um 21 km.

Samkvæmt samkomulagi ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group var verkefni stýrihópsins að fullkanna aðra kosti til rekstrar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu en framtíðarflugvöll í Vatnsmýri.  Verkefni stýrihópsins skv. samkomulaginu var í fyrsta lagi að athuga hvort önnur flugvallarstæði en Vatnsmýri kæmu til greina fyrir rekstur innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu.

Í öðru lagi „að leggja mat á rekstrargrundvöll og möguleg sóknarfæri sem nýr flugvöllur með þróunarmöguleika til framtíðar hefði í för með sér fyrir íbúa, ferðaþjónustu og atvinnulíf“. Athugun stýrihópsins náði hvorki til óbreytts flugvallar í Vatnsmýri né Keflavíkurflugvallar, enda utan verksviðs hans. Byggt á niðurstöðum fyrri nefnda og samráði við samráðshópinn beindist könnun stýrihópsins að fjórum nýjum flugvallarstæðum. Þau eru Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker. Þá ákvað stýrihópurinn að skoða einnig breyttar útfærslur á legu flugbrauta í Vatnsmýri.

Hvassahraun

Veðurfar í Hvassahrauni er fremur milt. Áhrifa sjávarlofts á hitafar gætir þó í mun minna mæli þar en t.d. á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli. Vindhraði virðist vera nokkuð svipaður og á Reykjavíkurflugvelli en suðlægar áttir eru algengari að vetri í Hvassahrauni. Meðalhviðustuðullinn var svipaður og á Reykjavíkurflugvelli í öllum vindáttum að undanskildum norðlægum og norðaustlægum áttum þegar vindur er byljóttari á Reykjavíkurflugvelli. Metinn nothæfisstuðull er 96,4-97,2% fyrir tvær flugbrautir en 99,6% fyrir þrjár flugbrautir.

Nýleg úttekt á nothæfisstuðli fyrir Reykjavíkurflugvöll gefur til kynna að takmarkandi skyggni og skýjahæð skerði nothæfisstuðul þar um 1,1-1,5 prósentustig. Að mati Veðurstofunnar er ekkert í landslagi eða staðsetningu Hvassahrauns sem gefur til kynna önnur skyggnis- og skýjahæðarskilyrði þar en á Reykjavíkurflugvelli. Flugkvikureikningar benda til að tíðni mikillar ókyrrðar í aðflugi í Hvassahrauni sé ekki vandamál samanborið við aðra flugvallarkosti.

Möguleikar á nákvæmnisaðflugi eru ágætir í samanburði við önnur flugvallarstæði. Eldhraun myndi raskast vegna framkvæmda en áhrif á gróðurfar og lífríki með verndargildi yrðu óveruleg. Hraunrennsli þykir ólíklegt næstu aldir og sömuleiðis eru taldar mjög litlar líkur á vandræðum vegna sprunguvirkni næstu aldir. Í Hvassahrauni er landrými gott og eru þróunarmöguleikar þar heilt á litið betri en á öðrum flugvallarstæðum.

Áætlaður stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi Reykjavíkurflugvallar  er um 22 milljarðar króna. Nálægð við Keflavíkurflugvöll gerir það að verkum að endurskoða þyrfti loftrými, aðflugs- og brottflugsferla o.fl. Akstursvegalengd frá Keflavíkurflugvelli er um 29 km, frá búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins í Fossvogi eru um 21 km og meðalaksturstími 8 mínútum lengri en frá Reykjavíkurflugvelli. Tími sjúkraflutninga var athugaður sérstaklega vegna Hvassahrauns en sá kostur er ásamt Hólmsheiði lengst frá búsetumiðju og því vegalengdir til annarra flugvallarkosta styttri. Búast má við að tími sjúkraflutninga á LSH með sjúkraflugi lengist um 8,5-12,5 mínútur vegna lengri flug- og aksturstíma en viðbragðs-, bið- og flugtími flutninga í fyrsta útkallsflokki nú er um 152 mínútur að meðaltali. Flugvallarstæðið liggur á mörkum Hafnarfjarðar og Voga.

Hefur áhrif á Keflavíkurflugvöll

Fyrirhugaður flugvöllur í Hvassahrauni er staðsettur þannig að hann hefur áhrif á flug inn og út frá Keflavíkurflugvelli. Einnig á vélar sem fara í biðflug austan og norðan við Keflavíkurflugvöll annað hvort vegna veðurs eða umferðar og hann hefur einnig áhrif á æfingasvæði lítilla flugvéla yfir Reykjanesi. Vegna leiðakerfa flugfélaganna sem nota BIKF skapast álagspunktar nokkrum sinnum á sólarhring auk þess sem álag er meira að sumri en vetri. Fyrirséð er að að minnsta kosti tveir (kl. 7–9 og kl. 13-15)  af fimm þessara álagspunkta hefði mikil áhrif á notkun flugvallar í Hvassahrauni. Þó er mögulegt að áhrif yrðu á tímabilinu kl. 16-17 ef stífir vindar stæðu úr vestri eða austri. Hinir tveir álagspunktarnir eru á þeim tíma þegar umferð um væntanlegan nýjan flugvöll yrði líklega lítil.

Flugvöllur í Hvassahrauni hefur áhrif á hluta þeirra véla sem fljúga inn til Keflavíkurflugvallar. Það orsakast fyrst og fremst af því að meirihluti þeirra er á leið milli Keflavíkurflugvallat og Evrópu og koma því úr austri eða fara til austurs frá Keflavíkurflugvelli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024