Flugger
Flugger

Fréttir

Land rís í Svartsengi á sama hraða og áður
VF/Ísak Finnbogason
Mánudagur 13. maí 2024 kl. 12:10

Land rís í Svartsengi á sama hraða og áður

Land rís í Svartsengi með sama hraða og áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslandsþ Frá 16. mars, þegar síðasta eldgos hófst, hefur land risið um tæplega 20 sentimetra á GPS stöðinni í Svartsengi. Kvikusöfnun heldur því áfram og auknar líkur eru á nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi. 

Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við frá 16. mars komið upp fyrir efri mörkin.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skjálftavirkni er nokkuð svipuð á milli daga. Síðustu viku hafa um 50 til 80 skjálftar mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Flestir skjálftanna eru undir 1,0 að stærð en stöku skjálftar nærri 2,0 að stærð hafa mælst. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.

Sólarhringsvakt Veðurstofunnar fylgist náið með virkninni. Nýjar gossprungur gætu opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og hraunflæði gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum, jafnvel engum fyrirvara.

Linurit_Kvikusofnun_Athugasemd

Línuritið sýnir áætlað magn kviku sem hefur bæst við undir Svartsengi á milli þeirra eldgosa eða kvikuhlaupa sem hafa orðið frá því í nóvember 2023. Það skal tekið fram að sólstormur um helgina hafðu áhrif á mælingar. (Sjá umfjöllun hér að neðan).

Sólstormur hafði áhrif á GPS mælingar

Mælingar á landrisi byggja á því að reikna út breytingar á þeim tíma sem það tekur merkið að berast frá gervitunglum sem eru á sveimi umhverfis jörðina í GPS mæla á jörðu niðri. Ef tíminn sem það tekur merkið að ferðast á milli tungls og mælis styttist, þýðir það að land hefur risið.

Um helgina varð einn öflugasti segulstormur síðustu ára þegar sólvindar frá stærðarinnar sólblettum á sólinni skullu á jörðinni. Síðast varð svo sterkur segulstormur 30. október 2003.

Sterkir sólvindar senda hlaðnar agnir inn í segulsvið jarðar sem hafa áhrif á merkjasendingar milli GPS mæla á jörðu niðri og gervitungla. Þessi truflun hefur áhrif á ferðatíma merkisins og kemur fram eins og að dregið hafi úr kvikusöfnuninni. Það er þau ekki raunin, enda er nýr punktur sem reiknaður var í morgun, á „eðlilegum“ stað miðað við fyrri mælingar. (Sjá línurit hér að ofan).

Truflanir vegna sólstorma hafa ekki áhrif á getu Veðurstofunnar til að vara við yfirvofandi kvikuhlaupi eða eldgosi.