Fréttir

Gatan gaf sig undan búkollu
Búkollan í sprungunni við Kirkjustíg. Mynd: Kristinn Sigurður Jormundsson
Mánudagur 25. mars 2024 kl. 15:04

Gatan gaf sig undan búkollu

Kirkjustígur í Grindavík gaf sig undan svokallaðri búkollu þegar unnið var að því að álagsprófa götuna og aðrar götur á lokuðum svæðum fyrr í dag. Búið er að ná vinnuvélinni upp úr sprungunni og ökumanni hennar varð ekki meint af.

Frumniðurstöður jarðkönnunnarverkefnis almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra liggja fyrir vegna fasa 1 í verkefninu  í vesturhluta Grindavíkurbæjar, þ.e. vestan Víkurbrautar. Í fasa 1 eru allar götur sjónskoðaðar og mældar með jarðsjáum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fyrst er farið yfir göturnar með jarðsjá sem nær niður á 4-4,5 m dýpi. Öll svæði sem gáfu til kynna möguleg holrými voru síðan mæld með öflugri jarðsjá sem nær niður á 10-15 m dýpi. 

Þau svæði þar sem vísbendingar eru um holrými og óvissa er um eða þau talin hættuleg í kjölfar rannsóknanna verða girt og/eða merkt sérstaklega af almannavörnum. Almannavarnir fólu öryggisstjóra á vettvangi að girða af nokkur af þessum svæðum. 

Grindavíkurbær tekur nú við svæðunum og metur hver næstu skref eru m.t.t. mótvægisaðgerða.

Sveitarfélagið hefur þegar hafið vinnu, í samvinnu við sérfræðinga frá Verkfræðistofunni Eflu, aðgerðarstjórn og vettvangsstjórn, að undirbúningi mótvægisaðgerða. Þá mun jarðkönnunarhópur almannavarna kanna þessi svæði betur.

Mótvægisaðgerðirnar til skemmri tíma geta verið eftirfarandi: 
    Girðing fjarlægð og svæði merkt þar sem fólk er hvatt til að fara um svæðið með varúð enda komi í ljós við frekari greiningu á gögnum að holrými séu ekki talin hættuleg akandi umferð.  
    Bráðabirgðaaðgerð á yfirborði götu t.d. með stálplötum, brú eða öðru, þannig að umferð komist um götuna. 

Umræddar girðingar valda því að umferðarflæði í Grindavík er breytt og mikilvægt að íbúar séu upplýstir um það, sér í lagi þegar kemur að flóttaleiðum.

Eftirfarandi er mikilvægt fyrir íbúa að hafa upplýsingar um í kjölfar ofangreinds: 
    Göturnar Sunnubraut og Kirkjustígur eru lokaðar vegna girðinga. 
    Aðgengi að Laut og Dalbraut er um göngustíg frá Ásabraut. 
    Aðgengi að Fornuvör er um flóttaleið frá Nesvegi
    Flóttaleið frá Ásabraut er lokuð öðrum en þeim sem búa við Fornuvör. 
    Hringakstur um Glæsivellir/Ásvelli er lokaður. 
    Víkurbraut er lokuð neðan frá Kvennó niður fyrir Sunnubraut.  

Ljóst er að umræddar lokanir hafa áhrif íbúa Grindavíkurbæjar, sér í lagi við Sunnubraut og Kirkjustíg. Grindavíkurbæjar kappkostar að vinna í mótvægisaðgerðum þannig að hægt verði að koma umferð á þau svæði sem í dag sæta lokunum sem allra fyrst. 

Íbúar sem eiga fasteignir sem sæta takmörkuðu aðgengi geta komið við hjá vettvangsstjórn í björgunarsveitarhúsinu við Seljabót 10 og rætt við öryggisstjóra á vettvangi um málið. 

Unnið er að uppfærslu á afgirtum svæðum og flóttaleiðum inn á kortavef/sprungjusjá Eflu, sjá hér

Að öðru leyti varðandi aðgengi íbúa að bænum er vísað til reglulegra tilkynninga lögreglustjórans á Suðurnesjum.