Flugger
Flugger

Fréttir

Framkvæmdir við hjáveitulögnina ganga vel - 50 manns að störfum á vöktum
Frá lagnavinnunni aðfaranótt sunnudags. Mynd: HS Orka.
Sunnudagur 11. febrúar 2024 kl. 11:26

Framkvæmdir við hjáveitulögnina ganga vel - 50 manns að störfum á vöktum

Sjóða þarf saman hátt í fimmta tug stálröra og vinna mörg suðuteymi að verkinu samtímis.

Framkvæmdir næturinnar við hjáveitulögn Njarðvíkuræðar gengu vel og örugglega fyrir sig. Vegagerð yfir hraunið er lokið og búið er að sjóða saman um helming stálröranna sem mynda hjáveitulögnina. Sömuleiðis hefur gengið vel að smíða allan tengibúnað og er þegar byrjað að koma hluta hans fyrir við norðurenda hraunsins. Um 50 manns unnu að framkvæmdum í nótt og nýjar vaktir taka síðan við keflinu í dag. Allur rekstur í orkuverum HS Orku er stöðugur, segir í tilkynningu frá HS Orku.

Við suðuna hefur verið komið upp stóru framleiðsluplani sem liggur eftir löngum vegi og raða suðuteymi sér upp eftir línunni. Sjóða þarf saman hátt í fimmta tug stálröra og vinna mörg suðuteymi að verkinu samtímis. Lögnin verður um 500 metra löng og mun vega hátt í 80 tonn samansett.

Verið er að flytja rúllukefli á framkvæmdasvæðið og verður lögnin sett ofan á þau og dregin af jarðýtum út á hraunbrautina sem lokið var við að leggja í nótt. Einnig verða gamlir símastaurar sagaðir niður og notaðir sem undirlag við drátt lagnarinnar en nokkrar jarðýtur þarf til verksins vegna þyngdar hennar. Vonir standa til þess að hægt verði að draga fyrsta hluta lagnarinnar út á hraunið síðdegis í dag.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Aðstæður á vettvangi í nótt voru nokkuð erfiðar til suðu, hvasst en þó mun hlýrra en verið hefur að undanförnu. Mannskapurinn ber sig vel en hraðinn á verkinu er óvenjulegur, auk þess sem telja má einstakt að halda úti jafnmörgum ólíkum verkhópum við störf samtímis. Í þeim kringumstæðum er brýnt að fyllsta öryggis sé gætt um leið og kappkostað er að hleypa heitu vatni á Njarðvíkuræðina sem allra fyrst.