Fréttir

Eldgosið vikugamalt í dag
Hraunið frá eldgosinu fór yfir Grindavíkurveg. VF/Ísak Finnbogason
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 23. mars 2024 kl. 13:10

Eldgosið vikugamalt í dag

Eldgosið við Grindavík er vikugamalt í dag. Það hófst að kvöldi laugardagsins 16. mars kl. 20:23 á sprungu í Sundhnúkagígaröðinni milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þegar gosið var mest gaus á um 3,5 km. langri sprungu. 

Þetta er fjórða gosið sem verður í Sundhnúkagígaröðinni en þar hafa til viðbótar orðið tvö kvikuinnskot, 10. nóvember 2023 og 2. mars 2024. Eldgosin urðu 18. desember 2023, 14. janúar 2014 og 8. febrúar síðastliðinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eldgosið sem nú er vikugamalt er stærst þessara gosa sem orðið hafa í Sundhnúkagígaröðinni og hegðar sér með öðrum hætti en þau þrjú sem urðu á undan.

Vísindamenn segja að nú sé komið jafnvægi á gosrásina og tala um sírennslu, þ.e. að kvika er ekki að safnast fyrir undir Svartsengi, heldur leitar beint upp til yfirborðs af meira dýpi.

Erfitt er að segja til um framvindu gossins eða hvað það geti staðið lengi yfir. Hegðun þess í dag minnir meira á eldgosin í og við Fagradalsfjall á árunum 2021 til 2023. Þar stóðu gosin yfir frá um þremur vikum og upp í hálft ár. Eldgosið sem nú stendur yfir getur staðið yfir vikum og mánuðum saman en jafnframt er möguleiki á það það lognist útaf á næstu dögum. 

Hraun frá eldstöðinni hefur síðustu daga runnið til suðurs og vestur með varnargörðum norðan byggðarinnar í Grindavík. Lítil hreyfing er þó á hraunjaðrinum núna. Hann hefur ekkert lengst síðan hraunið náði í Melhólsnámuna í vikunni og jaðarinn við varnargarðinn austan Grindavíkur hefur ekkert mjakast áfram.

Á myndum úr myndavél Live from Iceland, sem fór könnunarferð um gosstöðvarnar í hádeginu, mátti þó sjá að það rauk talsvert úr hrauntungu sem virðist renna til suðurs með varnargarðinum austan Grindavíkur.

Ísak Finnbogason er myndatökumaður Víkurfrétta á eldstöðvunum. Hann verður líklega í beinu streymi frá Grindavík í dag, laugardag. Hér má nálgast síðuna sem hann streymir á á Youtube. Streymið verður einnig gert aðgengilegt á vef Víkurfrétta.