Fréttir

Bæjarstjórn tekur heilshugar undir ákall fyrirtækja í Grindavík
Fimmtudagur 15. febrúar 2024 kl. 09:30

Bæjarstjórn tekur heilshugar undir ákall fyrirtækja í Grindavík

Bæjarstjórn Grindavíkur tekur heilshugar undir sjónarmið þeirra sem standa fyrir ákalli fyrirtækja í Grindavík.

Það er mikilvægt að finna lausnir í aðgengismálum fyrir fyrirtæki sem geta hafið starfsemi fái tækifæri til þess. Skorum við á lögreglustjóra Suðurnesja og Almannavarnir að vinna að lausn þessara mála.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ástandið er ekki lengur neyðarviðbragð heldur langvarandi atburður og eru fyrirtæki nú komin að þolmörkum og þurfa þau að hefja verðmætasköpun í stað verðmætabjörgunar.

Hér kemur ákall fyrirtækjanna:

„Fyrirtæki í Grindvík eru komin að þolmörkum. Mikilvægt er að opna bæinn fyrir aukinni starfsemi. Enn er hægt að halda lífi í fyrirtækjum með því að hefja rekstur meðan náttúran er róleg.

Þó að staðan í Grindavík sé alvarleg þá er stór hluti bæjarins í lagi, og ennþá tækifæri til að halda lífi í fyrirtækjunum þar. Við höfum lært á síðustu vikum og mánuðum að á milli atburða líða einhverjar vikur þar sem náttúran er róleg og tími gefst til að vera í Grindavík.

Öryggi fólks á alltaf að vera í forgrunni, og mikilvægt er að kanna stöðu bæjarins og innviða eftir hvern atburð. En strax að því loknu þarf að gera fyrirtækjum kleift að vinna í bænum frá morgni til kvölds, kl.7:00-19:00, með öryggisvitund og tilbúnar viðbragðsáætlanir. Ef bærinn á að eiga möguleika að byggjast upp aftur þá þarf að halda ljósunum á í fyrirtækjunum. Fyrirtæki í Grindavík krefjast þess að aðgengi að bænum verði gert reglulegt og fyrirsjáanlegt, og ef eitthvað vantar upp á öryggisgæslu í bænum þá geta fyrirtækin sjálf lagt lóð á vogarskálarnar.“

Þessi ályktun bæjarstjórnar er send á lögreglustjórann á Suðurnesjum, Almannavarnir og fjölmiðla.

Frekari upplýsingar veitir forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Ásrún Helga Kristinsdóttir, í síma 781-2503.