Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Virkjað á Reykjanesi fyrir 7 til 9 milljarða
Föstudagur 19. september 2003 kl. 09:58

Virkjað á Reykjanesi fyrir 7 til 9 milljarða

-Vonast er til að Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur mæti orkuþörf vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga.

Ef samningar nást við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um sölu á raforku vegna stækkunar Norðuráls á Grundartanga er ljóst að um gríðarlega stórt verkefni verður að ræða fyrir Hitaveituna. Fyrirhuguð virkjun Hitaveitu Suðurnesja í tengslum við verkefnið er á bilinu 70 til 90 megavött og er talið að slík virkjun myndi kosta um 7 til 9 milljarða króna. Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja segir í viðtali við Víkurfréttir að hann sé bjartsýnn á að af framkvæmdum á Reykjanesi vegna stækkunar Norðuráls verði. Gert er ráð fyrir að byggingartími slíkrar virkjunar sé um 30 mánuðir.

Hvert var upphafið að innkomu Hitaveitu Suðurnesja í að mæta orkuþörf Norðuráls?

Í júlí 2001 ræddi Landsvirkjun við Hitaveitu Suðurnesja (HS) og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og þá voru uppi hugmyndir um að stækka álver Norðuráls um 150 þúsund tonn og til þess þurfti rúm 250 MW. Þá fórum við að ræða saman um að uppfylla þessa orkuþörf. Í kjölfarið beindust hugmyndir Norðuráls í þá átt að stækkun álversins yrði 90 þúsund tonn, en ákveðið var að þessi þrjú fyrirtæki myndu áfram vinna að orkumálum varðandi stækkunina. Á fyrstu stigum var rætt um að OR myndi útvega 40MW, HS 40MW og Landsvirkjun 70MW þannig að þetta yrðu samtals 150 MW. Þegar úrskurðurinn um að lónhæð Norðlingaölduveitu mætti ekki fara yfir verndarsvæðið kom fram þá minnkaði orkugeta Landsvirkjunar og þá var farið að ræða um að HS myndi útvega 55MW, Landsvirkjun 55MW og OR 40MW. Það sem í raun gerðist með ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar um að fresta Norðlingaölduveitu var að þá vantar 55MW sem Landsvirkjun ætlaði að útvega. Þá kom upp sú spurning hvort HS og OR gætu útvegað það rafmagn sem til þyrfti fyrir Norðurál.

Var Hitaveita Suðurnesja með einhverjar hugmyndir um byggingu raforkuvers á Reykjanesi áður en hugmyndir um stækkun Norðuráls komu upp?

Já, við erum búnir að vera að bora á Reykjanesi og fara í umhverfismat, án þess að vera búnir að ákveða hvert þetta rafmagn ætti að fara. Við höfum í allnokkur ár undirbúið virkjun á þessu svæði, því það er mjög tímafrekt ferli að undirbúa slíkt. Þegar þetta kemur upp er búið að bora fjórar holur á Reykjanesi og verja 800 milljónum í undirbúning að virkjun á svæðinu, hvort sem það yrði þessi eða einhver önnur.

Hvernig er Hitaveita Suðurnesja í stakk búin til að takast á við svona verkefni?

Fyrirtækið er vel í stakk búið að takast á við verkefni af þessari stærðargráðu. Eigin fjárstaða er góð og skuldir litlar. Það er að vísu verið að skoða ýmis tæknileg atriði þessa stundina, því Reykjanessvæðið er ekki það sama og Svartsengi. Við höfum geysilega reynslu úr Svartsengi, en Reykjanessvæðið er aðeins öðruvísi og nauðsynlegt að skoða alla tæknilega hluti vel svo við lendum ekki í rekstrarvandamálum. 

Hvað þýðir fyrirhuguð virkjun fyrir Suðurnesin í atvinnulegu tilliti?

Þumalputtareglan sem notuð er í svona framkvæmdum er að megavattið kosti 100 milljónir króna. Ef við erum að ræða um 70 til 90MW virkjun þá er framkvæmdakostnaður um 7 til 9 milljarðar króna. Það er svo margt sem tengist slíkum framkvæmdum, s.s. vegagerð, húsbyggingar, línulagning og uppbygging sjálfrar virkjunarinnar. Allt er þetta náttúrulega boðið út og þá ræðst náttúrulega hverjir fá verk tengd slíkri virkjun. Við vitum því ekki nákvæmlega hver þátttaka Suðurnesjamanna verður í verkinu, en væntanlega verður hún talsverð.

Það hljóta að vera ákveðnar arðsemiskröfur hjá Hitaveitunni varðandi þetta verkefni?

Við höfum engan áhuga á að fara í þessar framkvæmdir nema það sé arðbært fyrir fyrirtækið. Það er alger grundvallarforsenda fyrir því að farið verði út í þessar framkvæmdir. Við förum ekki í þetta til að laga atvinnuástand á Akranesi eða annarsstaðar, þó það sé hinsvegar hið besta mál ef það gerist í leiðinni. Við skoðum þetta mál eingöngu út frá arðsemi fyrir fyrirtækið.

Hver verður veltuaukning Hitaveitunnar ef samningar við Norðurál takast?

Ef að gert er ráð fyrir því að orka sé öll seld til stóriðju þá erum við að tala um veltuaukningu upp á rúman einn milljarð á ári.

Hver er heildarvelta fyrirtækisins í dag?

Um þrír og hálfur milljarður á öllum stöðunum, þ.e. Suðurnesjum, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum.

Er Hitaveita Suðurnesja að vinna að einhverjum öðrum verkefnum?

Verkefnið tengt Norðuráli er náttúrulega langstærst, en það má nefna að við vorum að kaupa Vatnsveitu Reykjanesbæjar. Það hefur einnig komið fram ósk frá Gerðahreppi um sölu á vatnsveitu hreppsins og það er verið að vinna í því máli.

Hitaveita Suðurnesja hefur haft uppi hugmyndir um sameiningu veitna á Suðurlandi. Hvernig standa þau mál?

Það hefur lítið gerst í viðræðum okkar við veitur á Suðurlandi, en þráðurinn í þeim viðræðum verður brátt tekinn upp aftur og athugað hvort menn eru tilbúnir að stíga næstu skref í þeim efnum.

Eru einhver tímamörk varðandi Norðurálsverkefnið?

Það sem verið er að horfa til er að álver í Grundartanga geti verið gangsett með fullum afköstum í apríl árið 2006.

Þá þurfa virkjanirnar að vera tilbúnar á þeim tíma?

Orkuveitan er búin að kaupa 30MW vél sem sett verður niður á Nesjavöllum og hún getur verið tilbúin í nóvember 2005. Við hyggjumst verða tilbúnir í apríl 2006. Orkuveita Reykjavíkur ætlar sér einnig að reisa virkjun á Hellisheiði, en hún yrði ekki tilbúin fyrr en í september eða október 2006. Það er verið að ræða við Landsvirkjun um hvort hún geti útvegað orku yfir sumarið til að brúa þetta bil. Ef að ákvarðanataka dregst þá seinkar þessum dagsetningum því verktíminn verður alltaf sá sami.

Hver er áætlaður verktími fyrir 70 til 80MW virkjun á Reykjanesi?

Við erum að tala um 30 mánuði. Það er búið að bora fjórar holur og vinna að öðrum undirbúningi þannig að við teljum að við getum reist slíka virkjun á 30 mánuðum. Við erum núna að fara ofan í alla liði þessarar framkvæmdar með okkar tækniliði og ráðgjöfum.

Hvernig hefur samstarfið við Orkuveitu Reykjavíkur gengið?

Í þessu máli hefur það gengið afskaplega vel. Við höfum átt samleið síðustu misseri vegna umræðunnar um ný raforkulög og flutning raforku og við höfum verið mjög samstíga í allri þeirri umræðu sem staðið hefur yfir í 2 til 3 ár.

Þið hafið gagnrýnt flutningsmálin mjög hart?

Við teljum að það sé nauðsynlegt á þessu sviði sem öðrum að menn megi ekki gleyma kostnaðinum. Raunverulegur kostnaður verður að skipta máli við gjaldtöku, en ekki að jafna þessu vítt og breitt þannig að engin viti í raun hvað hlutirnir kosta í raun og veru.  Við liggjum vel við og okkur finnst ekkert óeðlilegt við að flutningskostnaður orku úr Svartsengi sé lægri hér en annarsstaðar. Það finnst sumum óeðlilegt og að við eigum ekki að njóta þess, en við erum ekki sammála því.

Á Íslandi hefur safnast upp mikil þekking og tækni varðandi orkuiðnað. Hefur Hitaveita Suðurnesja komið að útflutningsmálum á slíkri þekkingu?

Við erum hluthafar í fyrirtækinu ENEX, en það er félag sem er að reyna að selja íslenska jarðhitaþekkingu og þá aðallega til austantjaldsríkja, Kína og nokkurra annarra landa. Það hafa engin stór verkefni fæðst ennþá en við tökum þátt í þessu fyrirtæki ásamt Orkuveitunni, Landsvirkjun og Jarðborunum. Það er verið að huga að þessum málum og við teljum að þessi þekking hljóti að vera söluvara. Hinsvegar er búið að reyna þetta lengi en það hefur ekki gengið alltof vel, hverju sem um er að kenna.

Eru margir virkjanakostir til staðar á Reykjanesi?

Það sem við höfum gælt við er að svæðið bjóði uppá um 100 til 120MW. Við myndum ekki leggja meira á það í bili, en reynslan verður að leiða annað í ljós. Nesjavallavirkjun var í upphafi reist sem varmaorkuver og talið var óráðlegt að reisa þar rafmagnsvirkjun. Innan tíðar verður rafmagnsframleiðsla þar um 120 MW og reynslan er því að segja mönnum að yfirleitt séu þessi svæði öflugri þegar á reynir. Við boruðum í Trölladyngju fyrir tveimur árum og hyggjumst bora þar aftur fljótlega. Við höfum einnig óskað eftir rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum en höfum ekki fengið svör við þeim óskum ennþá. Þar er hugmyndin að rannsaka svæðið með Orkuveitu Reykjavíkur. 

Hvernig sérðu Hitaveitu Suðurnesja fyrir þér eftir 10 ár?

Ég hefði vonað að við værum komnir með víðtækari virkjanir og öflugri starfsemi. Ég hefði viljað sjá sameiningu við veitur á Suðurlandi. Það er nokkuð ljóst að Hitaveita Suðurnesja mun auka framleiðslu sína á næstu árum, jafnvel þó við færum ekki út í þessar Norðurálsframkvæmdir sem ég er hinsvegar mjög bjartsýnn á að verði, þá verður um að ræða einn hagstæðasta virkjanakost landsins.

VF-ljósmyndir: Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja. Starfsmenn Jarðborana vinna við borinn Jötunn á Reykjanesi í vor.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024