Raforkusölusamningur undirritaður í Svartsengi
Norðurál, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu í dag samning um raforkusölu vegna stækkunar Norðuráls úr 90 þúsund tonnum í 180 þúsund tonn. Gert er ráð fyrir að stækkuð verksmiðja Norðuráls taki til starfa vorið 2006.
Samningur sem þessi markar tímamót í raforkusölu hérlendis, því þetta er í fyrsta sinn, sem önnur orkufyrirtæki en Landsvirkjun gera samning um raforkusölu af þessu umfangi.
Undarfarið hafa staðið yfir viðræður milli Norðuráls og orkufyrirtækjanna tveggja um að þau sjái fyrirhugaðri 90 þúsund tonna stækkun Norðuráls fyrir því rafmagni sem framleiðsluaukningin krefst, en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð 31. október 2003.
Fyrirhugað er að Hitaveita Suðurnesja reisi um 80 - 100 MW virkjun á Reykjanesi og að Orkuveitan reisi um 80 MW virkjun á Hellisheiði. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni skapast mörg störf við þessar framkvæmdir, bæði hjá orkufyrirtækjunum og Norðuráli. Við framkvæmdirnar aflist mikil, fjölþætt og ný reynsla og þekking við virkjun háhitasvæða á Íslandi. Framkvæmdirnar í heild sinni séu mikilvægir áfangar á vegi sjálfbærar þróunar og séu til þess fallnar að losun úrgangsefna við framleiðslu áls verði sem minnst.
Orkufyrirtækin áætla að við uppbyggingu orkuvera og álvers muni allt að 800 manns starfa og þegar framkvæmdum ljúki komi um 30 manns til með að starfa við virkjanirnar og um 320 manns muni starfa hjá Norðuráli, en þar af bætast við um 130 ný störf vegna stækkunarinnar. Þar fyrir utan verðir um fjölda afleiddra starfa að ræða.
Gert er ráð fyrir því að miðað við meðalverð á áli og núverandi gengi íslensku krónunnar muni stækkunin í 180 þús. tonn auka verðmæti útflutnings frá Íslandi um 12 milljarða króna á ári.
Samanlögð fjárfesting vegna þessa samnings er tæpir 50 milljarðar króna, þar af er fjárfesting í virkjunum og flutningsvirkjum rúmlega 20 milljarðar og í álveri rúmlega 23 milljarðar.
Myndin: Frá undirritun samningsins í Svartsengi í dag: f.v. Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Norðuráls, Ellert Eiríksson stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja og Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.