Álverið í Helguvík: Fyrsta skóflustunga fyrir lok þessa árs
Logan Kruger, forstjóri Century Aluminium álfyrirtækisins er bjartsýnn á framtíð álvers í Helguvík og segir að það verði eitt það umhverfisvænasta í heiminum. Páll Ketilsson,ritstjóri Víkurfrétta, hitti Logan að máli og lagði fyrir hann nokkrar spurningar um væntanlegt álver í Helguvík.
Hvernig kom til að þið fenguð áhuga á að skoða þann möguleika á að reisa álver í Helguvík?
Áhuginn byrjaði með reynslu okkar á Grundartanga. Þar höfum við verið mjög ánægð með gott starfsumhverfi og starfsfólk. Öll samskipti og tengsl á Íslandi hafa verði ánægjuleg og þar sem við stefnum að vexti fyrirtækisins var Ísland augljós fyrsti kostur.
Norðurál hefur lengi haft augastað á Helguvík. Helguvík er afbragðs staður fyrir álver. Þar er góð höfn og umhverfisvæn orka til reiðu. Lóðin hentar vel og gefur færi á að lágmarka sjónræn áhrif bygginga. Síðast en ekki síst hafa bæjarfélögin stutt verkefnið dyggilega frá upphafi enda hafa þau lengi leitað að hentugum kosti til uppbyggingar til lengri tíma.
Hver er staða verkefnisins í dag?
Við höfum gengið frá orkusamningi við Hitaveitu Suðurnesja og samningur við Orkuveitu Reykjavíkur er langt kominn. Við höfum lagt okkur fram um að hönnun álversins sé þannig að það falli sem best að umhverfi sínu og óskum nágranna okkar fyrir utan að standast strangar kröfur sem lög og reglur setja okkur. Hönnun og tæknileg útfærsla er á lokastigum. Mat á umhverfisáhrifum álversins hefur verið auglýst og er nú til kynningar fyrir almenning. Vinnan við matið hófst fyrir tveimur árum og ferlinu mun ljúka seinni hluta sumars. Með því lýkur opinberri meðferð verkefnisins.
Og ef allt er að ganga að óskum, hvenær er þá áætluð fyrsta skóflustunga og í framhaldi af því, hvenær er áætlað að hefja starfsemi?
Við áætlum að taka fyrstu skóflustungu fyrir lok þessa árs og hefja framleiðslu í Helguvík síðari hluta ársins 2010.
Nú hefur umræða um mengun verið æ háværari að undanförnu. Hversu mikil mengun verður frá álverinu?
Með því að nota nýjustu tækni, þekkingu íslenskra sérfræðinga í áliðnaði og umhverfisvæna orku mun álverið í Helguvík verða eitt umhverfisvænasta álver í heiminum. Sem dæmi um það má nefna að gróðurhúsaáhrif af álverinu í Helguvík verða innan við 10% af gróðurhúsaáhrifum sambærilegs álvers sem fengi orku frá kolaorkuverum.
Hvað með útlit húsakosts, hafið þið skoðað það sérstaklega?
Norðurál hefur unnið náið með forsvarsmönnum sveitarfélaganna í nágrenninu að útliti svæðisins og álversins sjálfs. Íslenskir arkitektar hafa komið að hönnuninni frá byrjun og við erum mjög ánægð með fyrirliggjandi tillögur að útliti sem við munum kynna á næstunni. Við teljum að sú vinna og mikið samráð við bæjarfélögin muni setja ný viðmið í útlitshönnun framkvæmdar sem þessarar.
Hvernig hefur samstarf við bæjaryfirvöld og fleiri aðila sem tengjast óhjákvæmilega málinu verið?
Eins og á Grundartanga höfum við unnið náið með sveitarfélögum og fleirum til að reyna að mæta óskum og þörfum sem uppi eru. Þessi samvinna hefur gengið sérlega vel og hjálpað okkur að leysa ýmis flókin úrlausnarefni eins og t.d. varðandi rafmagnslínur og staðsetningu álversins.
Hver er stofnkostnaður álvers í Helguvík og hvað er áætlað að það verði stórt?
Núverandi áform okkar gera ráð fyrir byggja í tveimur áföngum álver sem framleiðir 250 þúsund tonn af áli á ári. Heildar fjárfestingin er áætluð um 70 milljarðar króna.
Hvað áætlið þið mörg störf við verksmiðjuna og hvernig eru laun miðað við almennan markað?
Í álverinu munu starfa 300400 manns. Álver er langtímafjárfesting og því verða þetta varanleg störf og reynslan sýnir að meðallaun í álverum eru hærri en meðallaun á almennum markaði. Til viðbótar er gert ráð fyrir um 600 afleiddum störfum í tengdum atvinnugreinum.
Störfin henta báðum kynjum, verða fjölbreytt og krefjast ýmist háskólamenntunar, iðnmenntunar, almennrar menntunar eða starfsþjálfunar. Hjá Norðuráli á Grundartanga starfa í dag um 100 konur og hefur hlutfall þeirra farið vaxandi.
Hvernig munuð þið svo manna hana?
Norðurál kýs að manna álver sín með fólki úr nágrannasveitarfélögum eins og mögulegt er. Þannig koma fjórir af hverjum fimm starfsmönnum á Grundartanga frá Akranesi, Borgarnesi og sveitunum í kring. Í nágrenni Helguvíkur eru fjölmennari sveitarfélög og því væntum við þess að þetta hlutfall verði enn hærra í álverinu þar.
.