Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Streymi og betri tíð
Hljónsveitin Valdimar streymdi tónleikum frá Hljómahöll um áramótin.
Föstudagur 29. janúar 2021 kl. 07:52

Streymi og betri tíð

Á tímum kórónu­veirunnar höfum við þurft að læra að nálgast hlutina á annan hátt. Mannamót eru nær engin, samkomutakmarkanir settu skorður. Það var lítið hægt að gera þegar aðeins tíu manns máttu koma saman. Til að bregðast við þessu færðust viðburðir yfir á netið – var streymt heim í stofu. Tónlistafólk mætti í Hljómahöll og setti upp tónleika fyrir framan myndavélar. Tónleikarnir voru svo sýndir í beinni útsendingu til að lyfta brúninni á landanum eftir margra mánaða takmarkanir. Þetta fyrirkomulag er hins vegar að skila litlu í kassann hjá listafólkinu – sem á heiður skilið fyrir sitt framlag til bættrar geðheilsu landans á tímum Covid-19.

Nú horfir hins vegar til betri tíðar. Núna mega koma saman eitthundrað manns á menningarviðburðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sóttvarnaryfirvalda. Bríet mætir á tónleika í Hljómahöll á fimmtudagskvöld og það seldist strax upp. Leikfélag Keflavíkur er að setja upp fjörugan farsa sem verður frumsýndur í næstu viku. Verk sem hefur verið í æfingaferli síðan í haust en verið í klemmu samkomutakmarkana. Það er vonandi að Suðurnesjafólk mæti í leikhúsið og lyfti sér upp og skelli upp úr í gegnum grímurnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dauðinn er óumflýjanlegur og ástvinir deyja á tímum kórónuveiru og samkomutakmarkana. Aðeins örfáir tugir hafa mátt koma saman við útfarir. Á þessum fordæmalausu tímum höfum við lært að hugsa hlutina upp á nýtt og eins og með menningarviðburði er útförum nú streymt á netinu. Þar hefur verið leitað til okkar hjá Víkurfréttum með það verkefni að sjónvarpa úr kirkjum Suðurnesja inn á netið. Látið hefur verið vel af þessari þjónustu, enda er áhorfendahópurinn víðsvegar um landið og auk þess bæði austan og vestan Atlantsála.

Á þessu ári kórónuveirunnar hafa Víkurfréttir annast beinar útsendingar frá fjölmörgum kirkjuathöfnum og öðrum viðburðum. Nú er líka talað um það að þegar sigur hefur unnist á kórónuveirunni þá verði útsendingar á netinu eitthvað sem haldi áfram svipað og fundir í gegnum Zoom og Teams og hvað öll þessi forrit heita. Fordæmalausir tíma hafa kennt okkur nýja siði og nýjar aðferðir.

Og talandi um netið og fólk handan Atlantsála. Keflvíkingurinn dr. Magnús Þórsson er í viðtali í Víkur-fréttum vikunnar. Ísland var of lítið fyrir hann og draumur hans var að spreyta sig í landi tækifæranna, henni stóru Ameríku. Það hefur hann nú gert í þrjátíu ár, unnið í hótel- og veitingageiranum og séð um veislur fyrir þjóðhöfðingja og stjórstjörnur Hollywood. Hann hefur rekið skíða- og fjallahótel, náð sér í græna kortið, bandarískan ríkisborgararétt og verið í bæjarráði í amerískum bæ. Svo fann hann það fljótt út að hann væri ekki svo vitlaus eins og hann orðar það svo skemmtilega í viðtalinu – að hann gat líka lært og það heilan helling því hann er orðinn doktor í hegðunartengdri hagfræði. Sjálfbærni er frumkvöðlinum Magnúsi ofarlega í huga en það er orðið eitt af lykilorðum heimsins. Hann hefur á síðustu árum undirbúið nám í kannabistengdu frumkvöðlanámi í Johnson & Wales háskólanum í Rhode Island en þar steig Magnús sín fyrstu skref þegar hann fór til Bandaríkjanna í námi og starfi. Strákurinn sem ólst upp í Keflavík og lærði matreiðslu þar og víðar er í skemmtilegum málum í Bandaríkjunum og hann segir okkur frá ferlinum í áhugaverðu viðtali.


Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson.