Skegg
Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar
Undanfarin ár hefur gengið yfir tíska sem er mér ekki mjög að skapi. Karlmönnum var talin trú um að útlit löngu útdauðra loðfíla væri það sem heillaði mest. Bæði karla og konur. Þannig sáum við flesta myndarlegustu karlmenn landsins hverfa í felur bak við ósnyrta andlitsbrúska. Flestir kalla þetta skegg. Hver stórstjarnan á fætur annarri féll fyrir þessari hörmungarbylgju og lítið lát virðist vera á.
Afar mínir báðir og faðir létu sér aldrei vaxa skegg. Móðurafi minn kallaði þetta sóðaskap. Þótt blindur væri orðinn sá hann skegg á andlitum manna og setti út á við þá sem voru honum kærastir.
Ég hef veikum mætti reynt að benda nokkrum vinum mínum og bræðrum á að þetta sé ekki smart. Eiginlega bara glatað. En þeir hafa glaðir vísað í að einhverjar skvísur og eiginkonur hafi hrósað þeim fyrir karlmannlegt og glæsilegt útlit sem þeir meti framar mínu.
Það var vatn á myllu mína þegar fréttir bárust af því að veira kennd við töluna nítján dveldi í skeggi manna. Ég tók mig til á ferðalagi í höfuðborg Skotlands og pantaði „on-line“ skeggsnyrtingu fyrir ástkæran bróður minn sem aldrei þessu vant gegndi bara. Fyrir hönd hans var ég búinn að ákveða að nóg væri nóg – burtu með loðfílinn.
Þegar skeggsnyrtirinn tók á móti okkur sagðist hann hafa hafnað bókuninni og hefði engan tíma til að sinna okkur. Þegar hann svo rekur augun í verkefnið og finna manninn á bak við það, stóðst hann ekki mátið. Beint í stólinn. Hefst hann svo handa við að mæra skeggið það sé glæsilegt, þykkt og hann muni ekki undir nokkrum kringumstæðum raka það af. Það verði bara snyrt og gert enn glæsilegra. Mér féllust hendur. Bróðir minn naut lífsins í hálftíma í stólnum og stóð þaðan upp með best snyrta skegg sem sést hefur. Að auki var skeggsnyrtirinn ungur skoskur strákur af Borginni búinn að hrósa skegginu svo í hástert að það fýkur ekki í bráð.
Við kvöddum Skotann. Bróðir minn sæll og glaður. Ég tuttugu pundum fátækari.
Skegg eru víst ekki metin til fjár.
Margeir Vilhjálmsson.