Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Mikið um að vera í útgerðarmálum á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 15. júlí 2022 kl. 07:01

Mikið um að vera í útgerðarmálum á Suðurnesjum

Júlímánuður kominn í gang og ansi rólegt um að vera í útgerðarmálum á Suðurnesjunum. Reyndar hefur verið mjög góð handfæraveiði hjá þeim bátum sem róa á handfæri en langflestir, eða yfir 30 bátar, eru að landa í Sandgerði og skiptast þeir í tvo hópa. Strandveiðibátana og handfærabátana sem eru að eltast við ufsann.

Það verður að segjast að veiðin hjá handfærabátunum er búin að vera óvenjulega góð núna það sem af er sumri en vanalega hefur þorskveiðin dottið niður um miðjan júní. Núna hefur verið góð þorskveiði og strandveiðibátarnir náð skammtinum auk þess að fá ufsa með.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þeir bátar sem hafa einblínt á ufsann, þeim hefur gengið mjög vel. Flestir bátanna landa í Sandgerði og núna það sem af er júlí er t.d. Snorri GK 1 með 5,7 tonn í þremur róðrum en þessi bátur hét áður Brynjar KE, Addi Afi GK 18,3 tonn í þremur róðrum, Ragnar Alfreðs GK 14,1 tonn í tveimur og mest átta tonn í einni löndun, Sindri GK 8,6 tonn í tveimur og Guðrún GK með níu tonn í þremur róðrum. Allir þessir bátar hafa landað í Sandgerði.

Enginn bátur er á netum frá Suðurnesjum enn sem komið er og vekur það nokkra athygli. Grímsnes GK fór á rækjuveiðar en er hættur veiðum og kominn til Njarðvíkur. Aðeins einn bátur hefur verið að róa á dragnót núna í júlí og er það Aðalbjörg RE frá Reykjavík en hún rær frá Sandgerði. Aðalbjörg RE er með fimmtán tonn í tveimur róðrum og mest ellefu tonn í einni löndun. Annars er mest um að vera núna í slippnum í Njarðvík enda margir bátar þar í viðhaldi og Öðlingur SU er kominn þangað til lengingar. 

Annars er stærsta fréttin um þessar mundir sú að eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtækið á Suðurnesjum Vísir hf. í Grindavík hefur nú verið selt. Kaupandinn er Síldarvinnslan á Neskaupstað, eða SVN. Þetta vekur nokkra athygli og alveg víst að mörgum þekkja sögu SVN á Suðurnesjunum líst kannski ekki á þetta.

Um aldamótin var loðnubræðsla í Sandgerði, sem áður hafði heitið Njörður ehf., en var seld til fyrirtækisins Snæfells ehf. Á þeim tíma rak SVN verksmiðju í Helguvík. Nokkrum árum eftir aldamótin þá kaupir SVN Snæfell og var þá verksmiðjunni í Sandgerði lokað. Verksmiðjan í Helguvík var þó rekin áfram en henni var á endanum lokað fyrir nokkrum árum síðan.

Vísir hf. er fjölskyldufyrirtæki en SVN er með nokkur fyrirtæki sem eiga í því, t.d. á  Samherji hf. hlut í SVN. SVN á Berg Huginn ehf. í Vestmannaeyjum og með smá flækjum má sjá að annað fyrirtæki sem er mikið í Grindavík er þá orðinn svo til hluthafi í Vísir hf. í gegnum SVN, það er Gjögur ehf. en Gjögur á hlut í Samherja sem rekja má aftur til þess tíma þegar að togarinn Guðsteinn GK var keyptur af nokkrum útgerðarfyrirtækjum í Grindavík. 

Reyndar komst Guðsteinn GK aldrei inn í Grindavíkurhöfn en landaði þess í stað í Hafnarfirði. Óskar sem þá átti Arnarvík HF í Grindavík kom upp með nafnið Samherji en það var sameiginlegt nafn fyrirtækjanna sem áttu Guðstein GK. Þessi togari varð síðan upphafið af því veldi sem  Samherji hf. er í dag, því þeir kaupa Guðstein GK og skíra hann Akureyrin EA. Því má kannski segja að  Samherji hf. sé aftur kominn til Grindavíkur með flækjum, því þeir áttu fiskimjölsverksmiðjuna sem var í Grindavík en brann og eyðilagðist.