Veiðihorfurnar góðar og breytingar í útgerð
Þegar þessi pistill er skrifaður er ansi góð vika í gangi. Blankalogn úti fyrir og það þýðir að færabátarnir geta sótt nokkuð duglega á boðann þar sem þeir eru að veiða ufsa.
Það er hagstætt að sækja ufsa núna. Hátt í 20 þúsund tonn af ufsakvóta mun líklega brenna inni við næstu kvótaáramót, og því er leiguverðið lágt, aðeins um 10 krónur, á sama tíma og verð á mörkuðum er gott.
Nesfisksskip komin á sjóinn
Smátt og smátt er að færast líf í útgerðina. Þrír bátar frá Nesfiski eru farnir af stað:
Pálína Þórunn GK landaði 61 tonni í Sandgerði. Sigurfari GK er kominn af stað. Siggi Bjarna GK hóf vertíðina með 23 tonn í þremur róðrum.
Einnig má nefna að Margrét GK, sem var við veiðar á Neskaupstað, kom með tæp 5 tonn í sína fyrstu löndun í Sandgerði. Dúddi Gísla GK, sem hafði legið í Sandgerði frá því í maí, fór á veiðar eftir gott sumarfrí og landaði 5,2 tonnum. Hann hélt svo norður á Skagaströnd, og sama gerði Fjölnir GK eftir slipp í Njarðvík.
Netabátarnir í Keflavík
Nú eru orðnir fimm bátar á netaveiðum í Keflavík, allir fyrir Hólmgrím. Veiðin hefur gengið vel:
Sunna Líf GK – 46 tonn í níu róðrum, mest 6,7 tonn. Halldór Afi GK – 34,2 tonn í 9 róðrum, mest 5,3 tonn. Addi Afi GK – 30 tonn í 9 róðrum, mest 5,8 tonn. Emma Rós KE – 7 róðrar, mest 5,4 tonn. Svala Dís KE – ekki búin að landa þegar pistillinn var skrifaður.
Það er vert að geta þess að Sunna Líf GK er aflahæsti netabátur landsins í ágúst – þó enginn stór bátur sé nú á þorsknetaveiðum.
Frystitogarinn í Grindavík
Hrafn Sveinbjarnarsson GK kom til Grindavíkur snemma í ágúst með 304 tonn eftir 13 daga túr. Það gerir rúm 23 tonn á dag. Aflinn var blandaður: Ýsa 91 tonn. Gullax 73 tonn. Þorskur 73 tonn.
Grindvísk línuskip – þá og nú
Stóru línubátarnir frá Vísi hf. eru ekki enn komnir á veiðar. Páll Jónsson GK er í slipp í Reykjavík og Sighvatur GK í Njarðvík.
Það er þó athyglisvert að horfa til baka. Árið 2025 eru aðeins tveir stórir línubátar á veiðum frá Grindavík. Fyrir rúmum 20 árum voru þeir ellefu talsins. Þá réru meðal annars: Jóhanna Gísladóttir GK (hóf veiðar í ágúst 2005). Freyr GK, seldur til Flateyrar og nefndur Siggi Þorsteins ÍS. Fjölnir ÍS, síðar nefndur Arnarberg ÁR. Hrungnir GK, Kristín GK, Sighvatur GK og Páll Jónsson GK – allir í eigu Vísis.
Þorbjörn ehf. gerði einnig út nokkra báta, þar á meðal Geirfugl GK, Sturlu GK, Ágúst GK og Valdimar GK.
Af þessum ellefu bátum voru fimm áður loðnubátar sem fengu nýtt hlutverk á línu. Þar á meðal voru Jóhanna Gísladóttir GK (fyrrum Guðrún Þorkelsdóttir SU), Páll Jónsson GK (fyrrum Rauðsey AK), Geirfugl GK (fyrrum Háberg GK), Ágúst GK (fyrrum Gullberg VE) og Sturla GK, sem hét áður Guðmundur VE í Vestmannaeyjum og hafði þá um 900 tonna burðargetu.