ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Pistlar

Lokasprettur fyrir kvótaárslok
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
þriðjudaginn 2. september 2025 kl. 06:00

Lokasprettur fyrir kvótaárslok

Það líður að áramótum – þó ekki þeim sem marka nýtt ár á dagatali, heldur nýju kvótaári í sjávarútvegi. Eins og venjulega fylgir því spenna og kapphlaup á sjónum þegar skip og bátar leggja af stað í síðustu róðrana.
Línubátarnir frá Vísi

Stóru línubátarnir frá Vísi eru nú farnir til veiða. Sighvatur GK hélt norður í land og Páll Jónsson GK fór austur. Þegar pistillinn var skrifaður höfðu þeir þó ekki landað neinum afla.

Smærri bátarnir eru þegar komnir með afla:

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Óli á Stað GK hóf veiðar 21. ágúst, landaði 4 tonnum í Sandgerði og fór síðan til Skagastrandar þar sem hann landaði 5 tonnum í fyrsta róðri.

Dúddi Gísla GK byrjaði snemma í ágúst, landaði 5,2 tonnum í Sandgerði og hefur síðan landað um 23 tonnum í þremur róðrum á Skagaströnd.

Margrét GK hefur landað mest, eða 27 tonnum í fimm róðrum, þar af tæpum 11 tonnum í einum róðri.

Mokveiði á ufsa í Sandgerði

Síðasta vika var einstaklega góð veðurfarslega, sem nýttist vel færabátunum á ufsaveiðum í Sandgerði. Nokkrir þeirra má segja að hafi beinlínis mokveitt:

Séra Árni GK kom með 13,7 tonn í aðeins tveimur róðrum, þar af 7,1 tonn í einni löndun. Á bátnum eru tveir menn.

Guðrún GK, sams konar bátur og Séra Árni, landaði tæpum 9 tonnum í tveimur róðrum – einnig með tveggja manna áhöfn.

Hawkerinn GK skilaði 8,4 tonnum í tveimur róðrum, en þar er aðeins einn maður um borð. Hann hefur verið á sömu slóðum og Séra Árni GK og Dóra Sæm HF, og bátarnir fylgjast náið með hver öðrum.

Bátarnir sóttu langt út – allt að 53 sjómílur frá Sandgerði.

Ævintýri með Garpi RE

Óvænt atvik átti sér stað þegar stálbáturinn Garpur RE fór út frá Sandgerði. Þar sem hann er með svokallað A-kerfi í AIS sem nær skemur en B-kerfi, hvarf hann af skjám. Gæslan undirbjó þá leit með þyrlu, en Stakkur GK frá Grindavík fann Garpinn við veiðar.

Allt var í lagi um borð og Garpur RE landaði síðar um 3 tonnum af ufsa í Sandgerði.

Dragnótaveiðar – Maggý VE aflahæstur

Dragnótabátarnir hafa einnig veitt vel að undanförnu:

Siggi Bjarna GK – um 45 tonn í fimm róðrum.

Sigurfari GK – um 44 tonn í sjö róðrum, þrátt fyrir bilað stýringarkerfi við hífingu úr einu hali. Þaðan fengu þeir þó 2,4 tonn.

Maggý VE – aflahæstur með 64 tonn í fimm róðrum og mest 20 tonn í einni löndun. Uppistaðan er koli og langlúra.

Skipstjóri á Maggý VE er Karl Ólafsson, sem hefur stýrt dragnótabátum í nær 30 ár, fyrst Haförni KE og síðan Erni KE. Hann hefur mest róið frá Sandgerði en einnig stundað veiðar í Faxaflóanum þegar bugtin opnaði að hausti.

Maggý VE getur þó ekki sótt í Faxaflóann, enda er hann of langur – aðeins bátar undir 24 metrum mega róa þar. Sama gildir um Sigurfara GK og Margréti GK. Hins vegar má Auðbjörg HF, sem er undir 24 metrum, stunda bugtarveiðar.

Öll þessi skip eru í eigu Kiddó ehf., sem Sigurður Aðalsteinsson á. Hann hefur átt fjölda dragnótabáta í gegnum tíðina og þeir hafa flestir landað mikið í Sandgerði.

Veðurspáin næstu daga bendir til þess að færabátarnir á ufsanum nái hugsanlega einum róðri til viðbótar áður en núverandi fiskveiðiár lýkur.

Reykjanes Optikk ljósan25
Reykjanes Optikk ljósan25