Sumarið það sveik mig!
Verslunarmannahelgin með sínum sudda og sunnanstormi var varla liðin þegar að þungbúnir fréttamenn fluttu fréttir af því að sumarið væri búið. Dæmdu bæði ágúst og september úr leik. Helst var að skilja að sólin myndi ekki skína meira og hitastig færi niður fyrir frostmark . „Sumarið það sveik mig“ ómaði í útvörpum landsmanna um leið og rökkrið og notalegheitin héldu innreið sína.
Hvað sem fréttamenn og aðrir segja um þetta sumar, sem enn á nóg eftir, hefur það verið gott. Það byrjaði með látum. Langvarandi hitabylgja í byrjun sumars, á sama tíma og skólum var að ljúka og sumarvinnan að hefjast hjá ungmennum landsins. Mitt í hápunkti hitabylgjunnar átti ég erindi í verslun og leyfi upplifun minni af þeirri verslunarferð að fylgja hér á eftir:
Hitamælirinn í bílnum sýndi tuttugu og átta gráður, notalegur hiti hugsaði ég á leið minni í byggingavörverslunina. Þurfti að redda mér nokkrum skrúfum og málningu. Bílaplanið fyrir utan búðina var fullt. Svo virtist sem allir sómakærir miðaldra menn og þar yfir höfðu hugsað það sama. Það var nú eða ekki, því það er ekki oft sem hitabylgjur gerir á Íslandi þar sem met gætu fallið. Ríkjandi hitamet 30,5° var sett á Teigarhorni þann 22. júní 1939, eða fyrir 86 árum. Ég skynjaði að þetta væri sérstakur dagur.
Dagurinn var svona dagur sem bara allra elstu menn muna. Afgreiðslufólkið í búðinni var frekar ungt, ef ég miða við mig. Sá strax að það var frekar máttfarið og vildi frekar tala um veðrið utandyra en skrúfur og málningu. Sjálfum fannst mér það nú reyndar hálfgerður fantaskapur að ætlast til þess að fólk væri að vinna innandyra í þvílíku veðri. Hugsaði einhverja áratugi aftur í tímann þegar í alvöru var rætt að gefa ætti sérstaka frídaga þegar veður væru góð og hiti færi yfir ákveðin mörk. Sú umræða flattist einhvern veginn út í málþófi og ekkert varð úr.
Ég kláraði að versla það sem ég þurfti og fór að kassanum. Þar var ein uppistandandi afgreiðslustúlka, hin lá á gólfinu í hálfgerðu móki. Verandi sá sem ég er og ekki alveg sama um samborgara mína spurði ég þá sem uppistandandi var hvort eitthvað væri að, ég kynni skyndihjálp og gæti jafnvel hringt í sjúkrabíl.„Nei , nei þetta er allt í lagi. Við erum í hitaverkfalli, skiptumst á að liggja í ca. 10 mínútur hvor.“
„Þetta er hárrétt ákvörðun hjá ykkur, ég styð þetta,“ sagði ég ákveðið. Fannst gott að sjá að til var ungt fólk sem lét ekki auðvaldið vaða yfir sig.
„Svona hitamisþyrmingar eiga ekki að þekkjast,“ bætti ég við en fann að þrátt fyrir hitann andaði köldu niður um hálsmálið hjá mér. Leit við og sá að baki mér stóð verslunarstjórinn brúnaþungur en þó örlaði á brosi.
„Hannes við þurfum eitthvað að fara að endurskoða afsláttinn hjá þér.“
Ég flýtti mér út í sólina og hitann sönglandi „Sumarið það sveik mig“ í brakandi hita og sól.