Gleðilega goshátíð!
Er hægt að skrifa um annað en gos í fyrsta leiðara eftir að gos hófst á Reykjanesskaga? Svarið er einfalt, nei. Eitthvað sem var búið að spá að myndi gerast, alla vega hugsanlega eða mjög líklega – gerðist. Við hjá Víkurfréttum höfum fylgst náið með jarðskjálftasvæðinu síðustu þrjár vikur og kveiktum í meiri áhuga hjá fólki þegar við hófum að streyma á vefsíðu okkar í beinni útsendingu frá svæðinu. Keilir og Fagradalsfjall í sviðsljósinu og hluti Reykjanesbæjar í forgrunni. Mestu líkurnar voru að á því svæði myndi gjósa en allt kom fyrir ekki, gosið læddist bak við Fagradalsfjall í Geldingadal eða Geldingadali, menn eru ekki alveg vissir ennþá. Hundruð þúsunda höfðu fylgst með streyminu okkar í spenningi. Sumir gerðu grín að streyminu í byrjun, fannst þetta sérstakt en flestir voru þó spenntir og ánægðir með framtakið. Misáhugavert spjall fór fram samtímis á Youtube-síðunni okkar sem hýsti streymið en innan um greinilega gosnördar. Streymi VF endaði á mörgum erlendum vefsíðum sem sýna gosum mikinn áhuga.
En svo kom gos. Rétt fyrir klukkan hálftíu föstudagskvöldið 19. mars birtum við á Facebook-síðu VF að það væri rauður bjarmi og stuttu síðar settum við frétt á vf.is um að gos væri hafið – með flottri mynd Hilmars Braga Bárðarsonar, fréttastjóra og ljósmyndara VF, sem hann tók frá 5. hæð í Krossmóa í Reykjanesbæ. Fyrstir fjölmiðla. Okkur þótti það ekki leiðinlegt. Einu sinni sem oftar fengum við ábendingu frá lesanda sem sá bjarmann og sendi okkur skilaboð. Enn eitt dæmið um frábæra samvinnu sem Víkurfréttir eiga við Suðurnesjamenn. Við þökkum fyrir það. Myndin flotta fór í alheimsdreifingu í gegnum Reuters fréttaveituna, eina þá stærstu í heimi. Hún hafði samband nokkrum mínútum eftir birtingu myndarinnar og fréttarinnar og fékk hana senda úr tölvu ritstjórans sem var kominn í bíl á leið til Grindavíkur. Flestir fjölmiðlar landsins settu sig í samband við Víkurfréttir og Veðurstofan notaði myndina góðu í sína fyrstu tilkynningu sem og margir fleiri fjölmiðlar. Við Hilmar mættum til Grindavíkur. Björgunarsveitarmenn brosandi. Þeir vilja líka fjör þó það hafi kannski kárnað á öðrum degi goss þegar fólk setti sig í stórhættu á gosslóðum.
Þegar þetta er skrifað hefur gos staðið yfir í fimm daga og sýnir engin merki um að það sé að fara að hætta. Vísindamenn hafa sagt síðustu daga að gosið geti varað lengi, jafnvel nokkur ár. Verði það að veruleika er ljóst að Reykjanesskaginn mun ekki bara verða í sviðsljósi Íslendinga heldur líka erlendra ferðamanna og eftir Covid-19 fari þeir að streyma til Íslands, ekki bara horfa á streymið í tölvu. Það ættu því að vera komin næg verkefni fyrir þá sem standa í framlínu markaðssetningar svæðisins og ferðaþjónustunnar á Íslandi. Leiðarahöfundur heyrði í einum hóteleiganda á Suðurnesjum sem var í skýjunum og sagði að þetta væri frábært. Við tökum undir það. Gleðilega goshátíð.