Aflafréttir: Grímsi eltist við ufsann
Síðasti pistill var kannski full neikvæður, svo við skulum hafa þennan pistil á jákvæðu nótunum.
Á Suðurnesjunum er gerður út bátur sem vill svo til að er með lægsta skipaskrárnúmerið allra fiskibáta á Íslandi sem enn eru gerðir út, númer 89. Heitir sá bátur í dag Grímsnes GK.
Grímsnes GK lenti í því í febrúar að mjög alvarleg vélarbilun varð í bátnum og var hann frá veiðum frá þeim tíma og fram í miðjan ágúst síðastliðinn.
Sigvaldi Hólmgrímsson sem var með Grímsnes GK síðast er aftur kominn af stað á Grímsa, en svo Sigvaldi kallar hann bátinn. Hann fór beint austur undir Vestmannaeyjar og þar á svæðinu í kring að eltast við ufsa.
Það óhætt er að segja að það byrji vel hjá honum því að í tveimur róðrum hefur báturinn landað um 41 tonni og af því er ufsi um 38 tonn.
Ufsavertíðin hjá Grímsnesi GK haustið 2019 var mjög léleg en árið 2018 var mokveiði hjá bátnum á ufsanum og svo góð veiði var að Grímsnes GK endaði aflahæstur allra netabáta á Íslandi árið 2018.
Það er reyndar annar bátur sem tengist Hólmgrími og Grímsnesi GK sem er líka með lágt skipaskrárnúmer. Það er bátur með númerið þrettán. Sá bátur hét síðast Happasæll KE en hafði líka heitið Búddi KE. Þeim báti var lagt 2016 og lá við bryggju í Njarðvík. Báturinn var síðan seldur til Bíldudals en þar fékk báturinn annað líf því hann hefur verið notaður sem þjónustubátur við fiskeldið í Arnarfirði og þegar þessi orð eru skrifuð þá er Happasæll KE á hægri siglingu til Stykkishólms dragandi á eftir sér pramma sem er að fara í slipp þar í bæ.
Nýtt kvótaár að hefjast
Annars er stutt í nýtt kvótaár en það hefst 1. september og nú þegar eru nokkrir línubátar komnir af stað sem og dragnótabátarnir. Siggi Bjarna GK hefur landað 6,4 tonnum í einum róðri. Benni Sæm GK 54 tonnum í sjö túrum, Aðalbjörg RE 28,3 tonnum í þremur og allir hafa landað í Sandgerði. Sigurfari GK hefur reyndar ekkert farið af stað.
Af stóru línubátunum er Sighvatur GK kominn með 226 ton, Fjölnir GK 127 tonn og Páll Jónsson GK 125 tonn, allir í tveimur róðrum og allir hafa þeir landað úti á landi. Sighvatur GK og Fjölnir GK á Siglufirði og Páll Jónsson GK á Djúpavogi.
Eins og greint var frá fyrir nokkru í þessum pistlum þá var talað um að Vísir ehf. í Grindavík hefði lagt línubátnum Kristínu GK og leigt í staðinn togarann Bylgju VE frá Vestmannaeyjum.
Núna er Bylgja VE kominn á veiðar fyrir Vísi ehf. og hefur landað 48 tonnum í einni löndun sem landað var á Ísafirði. Kvótinn á Bylgju VE kom í byrjun frá Páli Jónssyni GK en reyndar er Bylgja VE með úthlutuðum kvóta ár hvert um 1.554 tonn miðað við þorsk-ígildi.