Af hverju breyta þegar ekki er þörf?
Allar breytingar eru af hinu góða, þar til annað kemur í ljós er gott viðhorf. Sjá hvað út úr breytingunni kann að koma. Mér brá þó aðeins þegar að tilkynnt var að breyta ætti háheilögum fréttatíma sjónvarpsins vegna „ofríkis íþróttaheimsins“ ens og einhver orðaði það svo snyrtilega.
Stjórnunarfræði og heilbrigð skynsemi segja manni að öllum breytingum fylgi ákveðin aðlögun. Menn geta valið að vera með eða á móti. En að breyta fréttatíma sjónvarps nánast án fyrirvara og sleppa svo seinni fréttatímanum fannst mér stappa við hreinan dólgshátt. Hvernig í ósköpunum átti ég, fréttaþyrstur maðurinn, að fylgjast með hvað væri að gerast í kringum mig. Ákvað samt að vera opinn fyrir breytingunni í þeirri veiku von að ég sæi að lokum ljósið.
Það líður að sumarsólstöðum, þegar ljósið ríkir allan sólarhringinn. Það verður að segjast eins og er að að ég er að verða nokkuð ánægður með þessa valdbeitingu útvarpsstjóra, bara að verða nokkuð sammála honum um að fréttatímar eru ofmetið fyrirbæri sem helst skuli vera á dagskrá eftir að allt sómakært fólk er farið að sofa.
Að öllu gamni slepptu og sem áhugamaður um sjónvarp þá er bara eitt sem ég skil ekki. Af hverju þurfti að breyta, þegar að breytinganna var ekki þörf. Ríkisútvarpið ræður yfir nokkum rásum. Þannig hefði mátt sýna íþróttaefnið á einni rás, eða jafnvel tveimur, og leyft þverhausunum að að velja hvort þeir vildu horfa á stórskemmtilega íþróttadagskrá kvölds og morgna og auka við efnið, hafa golf, fjallaklifur og pílukast eða bara horfa á fréttir eins og venjulega.