Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Toppurinn að fá að klifra upp í kirkjuturninn
Sunnudagur 23. desember 2018 kl. 10:42

Toppurinn að fá að klifra upp í kirkjuturninn

Notaleg stund á aðventu í Sandgerði

Sumt er ómissandi um hver jól og eitt af því eru aðventutónleikar. Á þriðja í aðventu voru tónleikar þar sem kórsöngurinn hljómaði frá fólki á öllum aldri í Safnaðarheimilinu í Sandgerði. Einstaklega vel heppnaðir tónleikar með hátíðarbrag í umsjón séra Sigurðar Grétars sóknarprests í Útskálaprestakalli. Fullt var út úr dyrum.

Haukur Arnórsson lék snilldarvel á píanó í upphafi og þá tók Barnakórinn í Sandgerði við undir stjórn Birtu Rósar Sigurjónsdóttur. Stúlkurnar sungu á einlægan og fallegan hátt. Félagarnir úr söngsveitinni Víkingar lyftu þakinu með kraftmiklum söng undir stjórn Jóhanns Smára Sævarssonar. Kirkjukór Útskála- og Hvalsnessókna hrifu gesti með einstaklega léttum og fallegum flutningi undir styrkri stjórn Keith Reed. Einsöngur var í höndum Júlíusar Viggó sem hefur glatt marga hlustendur síðan hann var lítið barn með söngrödd sinni og gerir enn en hann syngur með kirkjukórnum.

Einar Jón Pálsson forseti bæjarstjórnar hins verðandi Suðurnesjabæjar flutti hugvekju sem vakti mikla lukku á meðal hlustenda. Í lok aðventustundarinnar voru öll ljósin slökkt og gestir lýstu upp salinn með kertaljósi og sungu saman Heims um ból. Einstaklega falleg jólastemning sveif yfir vötnum. Án efa hafa margir farið heim til sín með nýtendraðan anda jólanna innra með sér. Við endum þennan pistil á því að birta brot úr hugvekju Einars Jóns með góðfúslegu leyfi hans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Með tengingar við báðar sóknir

„Kæru sóknarbörn og gestir, það er mér sönn ánægja að fá að standa hér í dag sem forseti okkar nýja sameinaða bæjarfélags, sem senn mun taka nafnið Suðurnesjabær og fá að ávarpa ykkur og veita ykkur innsýn í hugleiðingar mínar um hvernig ég upplifði jólin hér áður fyrr í aðdraganda jólanna.

Sjálfur á ég tengingar við báðar sóknir, Útskála- og Hvalnessóknir tengdar jólunum.

Ég er innfæddur Garðmaður og hef búið þar stærstan hluta af ævi minni utan nokkurra ára í Reykjanesbæ, er ég byrjaði að búa og svo í Danmörku er ég var við nám. Móðir mín er Matthildur Ingvarsdóttir, búsett í Garði og eflaust margir þekkja en færri þekkja faðir minn Bobby sem búsettur er í Svíþjóð. Málin þróuðust þannig að ég ólst upp hjá móðurömmu minni og afa, Jónu og Ingvari á Bjargi í Garði en þar kemur tengingin mín við þessar sóknir.

Afi minn var Ingvar Júlíusson frá Bursthúsum í Hvalneshverfi og ólst hann þar upp ásamt stórum systkinahópi. Eflaust þekktu margir bræður hans Agnar, Einar og Óskar Júlíussyni sem bjuggu hér í Sandgerði.

Afi minn Ingvar söng í kór Hvalneskirkju og síðar í kór Útskálakirkju, þá hringdi hann kirkjubjöllunum í Útskálakirkju seinni árin. Vegna tenginga afa við sóknirnar eru minningar mínar tengdar jólunum nátengdar sóknunum. Afi kom oft að Útskálum og oftar en ekki var litli peyinn, sá sem hér stendur, með í för og verður að segja að það var gott að koma á heimili þeirra séra Guðmundar Guðmundssonar og Steinvarar konu hans.

Hvalneshverfið var líka reglulega sótt heim og oftar en ekki var kirkjugarðurinn áfangastaðurinn, enda þurfti að huga að leiðum foreldra afa og bróður hans. Þannig var það fastur hluti af aðventunni að koma fyrir jólaljósum á leiðum þeirra í Hvalneskirkjugarðinum og einnig á leiði bróður mömmu sem jarðsettur er í Útskálakirkjugarði.

Uppi á kirkjulofti í Útskálakirkju

Jólunum fylgdu líka jólamessur og þá fékk ég að fylgja afa upp á kirkjuloftið þar sem hann ásamt kórnum söng svo fallega og þannig setti taktinn fyrir þann hátíðleik sem jólunum fylgdi. Toppurinn var að sjálfsögðu að fá að klifra upp í kirkjuturninn í Útskálakirkju og fá að fylgjast með afa hringja kirkjubjöllunum en í þá tíð var taktfast togað í spotta til að hringja bjöllunum.

Jólunum hafa alltaf fylgt fastar hefðir og oftar en ekki hafa þær hefðir fylgt fólki þegar það sjálft fer að búa. Jólahefðir í minni æsku voru engin undantekning enda alin upp af fólki sem fætt var í upphafi síðustu aldar, en í þá tíð var mikið lagt upp úr að gera sem best við sig í mat, þó oft hafi nú verið hart í ári.

Amma bakaði að sjálfsögðu ótal tegundir af smákökum, eins og þekkt var hér áður og að sjálfsögðu fékk maður að hjálpa til við framleiðsluna. Lagkökur ömmu voru þó hennar sérgrein og hafa margir af hennar ættingjum haldið í þessa hefð en einhvern veginn finnst mér engum hafa tekist að gera þetta eins og hún amma gerði. Ekki má gleyma þykku hveitikökunum sem bakaðar voru beint á eldavélahellunni, þær voru lostæti og ég hef sjálfur gert nokkrar tilraunir til að baka þær með misgóðum árangri. Einhvern veginn er þetta bara þannig að maturinn og baksturinn hennar ömmu er alltaf bestur.

Verandi eina barnið eftir á heimilinu fékk ég líka alltaf að skreyta jólatréð og svo þurfti að sjálfsögðu að skoða alla pakkana vel í aðdraganda jólanna. Verð þó að segja ykkur að ég man ekki sérstaklega eftir öllum gjöfunum sem ég fékk, þær voru margar og ég man að ég var alltaf mjög ánægður, jafnt með harða sem mjúka pakka, þó á ég erfitt með að telja gjafirnar upp, jólin snérust nefnilega um annað hér áður fyrr að mínu mati, það var samveran og friðurinn.“