Endar Bob í kirkjugarðinum í Grindavík?
Grindvískar mæðgur ráku upp stór augu þegar þær kíktu í kirkjugarðinn við Stað í Grindavík á dögunum, við þeim blasti poki með rennilás, með mynd af Bob Bibbings og leyfir blaðamaður sér að gera ráð fyrir að Bob sé frá Bandaríkjunum. Bob hafði lengi dreymt um að koma til Íslands og náði að láta drauminn rætast en þó ekki á meðan hann lifði.
Í pokanum sem er með rennilás, er mynd af Bob með þessum orðum:
„Hi. My name is Bob Bibbings and I passed away from cancer in January 2025. I always wanted to visit Iceland but never got the chance. My friend has brought me with her and left me here for you to find. Please take me with you and let me know where I go.“
Fyrir þá sem eru ekki með enskukunnáttuna upp á tíu:
„Hæ. Ég heiti Bob Bibbings, ég dó úr krabbameini í janúar 2025. Ég hafði alltaf viljað heimsækja Ísland en fékk aldrei tækifæri til þess. Vinkona mín kom með mig hingað og skyldi mig eftir hér, fyrir þig að finna. Vinsamlegast taktu mig með þér og láttu mig vita hvert ég fer.“
Dagbjört Óskarsdóttir veit ekki alveg hvernig hún eigi að túlka þessi lokaorð Bob.
„Þetta kom okkur spánskt fyrir sjónir, að finna þennan poka með rennilás og steinn ofan á, við settum stærri stein en daginn eftir gerði hávaðarok og við höfðum áhyggjur af pokanum og kom á á daginn að pokinn var horfinn. Dóttir mín fann pokann sem betur fer og við fórum með hann heim og settum svo í glerkrukku. Þar sem við fundum pokann upprunanlega í kirkjugarðinum, grófum við smá holu fyrir glerkrukkuna og er hún þar núna en hvað við gerum meira veit ég bara hreinlega ekki. Ég veit ekki hvernig við eigum að skilja þessi lokaorð mannsins, eigum við að taka myndina með okkur og hvert vill hann að við förum með myndina? Ég held að við leyfum bara krukkunni að vera þar sem við grófum hana hana en ef einhver er með betri hugmynd þá má endilega hafa samband,“ sagði Didda eins og hún er jafnan kölluð.




