Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þinglýsingar á fullu  á tímum COVID-19  hjá Sýslumanni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 29. maí 2020 kl. 09:53

Þinglýsingar á fullu á tímum COVID-19 hjá Sýslumanni

Starfsemin minnkaði þó almennt og fáar umsóknir um vegabréf, segir Ásdís Ármannsdóttir, sýslumaður á Suðurnesjum

Lítið dróst úr úr þinglýsingum síðustu tvo mánuði á tímum COVID-19 en almennt dró nokkuð úr starfsemi Sýslumannsins á Suðurnesjum. Ásdís Ármannsdóttir, sýslumaður, segir að sýslumenn séu almennt nokkuð aftarlega á merinni hvað varðar rafræna þjónustu en þó hafi verið unnið að því að auka hana. Víkurfréttir ræddu við Ásdísi um starfsemina á veirutímum.

– Hvernig hefur starfsemi Sýslumannsins verið síðustu tvo mánuði á tímum COVID-19?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á landsvísu var dregið úr innheimtu ýmissa gjalda og eindögum frestað. Einstök embætti gripu svo til frekari aðgerða og má nefna að hjá Sýslumanninum á Suðurnesjum var boðunum í fjárnám frestað og einnig lokasölu við nauðungaruppboð. Margir viðskiptavinir nýttu sér að fresta fyrirtökum í fjölskyldumálum og minna var um tímapantanir en ella í þeim málaflokki. Þjónusta varðandi dánarbú var með svo til óbreyttu sniði og ekkert virtist draga úr þinglýsingum á tímabilinu. Umsóknum um vegabréf fækkaði verulega, eins og gefur að skilja, og einnig frestuðust umsóknir um ökuskírteini að hluta þar sem erfitt var að fá læknisvottorð. Í heildina dró því nokkuð úr starfsemi sýslumanns á tímabilinu.

– Hefur starfsemin breyst eitthvað í þá veru að vera meira rafræn?

Sýslumenn hafa verið nokkuð aftarlega á merinni hvað varðar rafræna þjónustu á ýmsum sviðum, það er helst við innheimtu og hjá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum sem hennar hefur notið við. Þróun í átt að aukinni rafrænni þjónustu var hafin hvað varðar fjölskyldumál og var henni hraðað, þannig að nú getur fólk í mörgum tilfellum sent inn rafræn eyðublöð í stað þess að prenta þau út og koma með til okkar. Einnig er unnt í einhverjum mæli að bjóða upp á rafrænar fyrirtökur með rafrænni undirritun ef þess er óskað og var nokkrum lögum breytt til að þetta yrði mögulegt.

– Hvernig brugðust þið við COVID-19 í starfseminni, þá varðandi starfsmenn og mætingu þeirra, spritt og svoleiðis?

Starfsfólk var og er mjög samviskusamt við sótthreinsun og settir voru upp sprittstandar fyrir viskiptavini. Haft var aðgengi að einnota hönskum ef þess var óskað en meiri áhersla var lögð á handþvott. Aðgengi viðskiptavina í afgreiðslu var heft og gerðar ráðstafanir til að unnt væri að framfylgja tveggja metra reglunni. Þá hætti embættið að taka við reiðufé, þ.e. seðlum og klinki. Í raun eru allar þessar aðgerðir ennþá við lýði.

Skipulögðum kaffitímum starfsfólks var sleppt og menn fóru í mat á mismunandi tímum til að minnka samgang og gildir það ennþá að nokkru leyti.

Á tímabili unnu starfsmenn á tvískiptum vöktum, annan hvern dag, til að draga úr smithættu og til að auka lýkur á að embættið gæti veitt nauðsynlega þjónustu þótt smit kæmi upp. Sem betur fer hefur þó ekki komið til þess að starfsmaður hafi veikst af COVID-19.

– Kom eitthvað óvænt upp á borð hjá þér/ykkur á veirutímum og sýnist þér einhverjar breytingar verða í kjölfarið?

Það sem ég tek út úr þessu er þakklæti til starfsfólks sem leysti öll mál sem komu upp fljótt og vel. Einnig hversu samheldni fólks í samfélaginu í heild var mikil og fólk tók þessu ástandi af miklu æðruleysi.

Ýmsir möguleikar komu í ljós varðandi framkvæmd vinnunnar sem vert væri að skoða frekar, s.s. möguleikar á vinnu að heiman, en þó verður að hafa í huga að starfsemi sýslumanns snýst að verulegu leyti um að sinna þeim viðskiptavinum sem koma á staðinn. Það er þó enginn vafi að rafræna þjónustu má auka verulega, s.s. með notkun rafrænna undirskrifta, svo fólk geti sent fleiri erindi inn rafrænt og sé þannig ekki bundið við að mæta á afgreiðslutíma stofnunar. Hver þróunin verður í þessum efnum helgast mikið af áherslum stjórnvalda og hvaða tíma og fé verður varið í þróunarvinnu.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa svæðið eftir að þú komst til starfa? Gríðarmikill vöxtur á undanförnum árum en núna er atvinnleysi í hæstu hæðum.

Mér fannst myndin af svæðinu á landsvísu mjög neikvæð þegar ég kom, mikið talað um atvinnuleysi, nauðungarsölur og jafnvel dópneyslu. Þegar ég kom á svæðið sá ég samt hvað það hafði margt gott upp á að bjóða, svo sem góða skóla, frábært íþróttalíf og fallegan bæ með göngu- og hjólastígum um allar trissur og háu þjónustustigi. Komandi frá Siglufirði fannst mér mjög mikill munur á sjálfsmynd íbúa á staðnum, enda hafði mikil uppbygging átt sér stað á Siglufirði og allir bæjarbúar þar mjög stoltir af bænum sínum. Það vantaði mikið upp á stolt íbúa hér fannst mér. Kannski einhver óverðskulduð minnimáttarkennd í gangi hér á svæðinu þegar ég kom í ársbyrjun 2015. Mér finnst þetta þó mikið hafa lagast og vona bara að þetta fari ekki í sama farið aftur með auknu atvinnuleysi. Auðvitað hefur maður áhyggjur af ástandinu og áhrifum þess til langframa en vonar það besta.

„Það vantaði mikið upp á stolt íbúa hér fannst mér. Kannski einhver óverðskulduð minnimáttarkennd í gangi hér á svæðinu þegar ég kom í ársbyrjun 2015.“