Sveitapiltsins draumur í Duushúsum - Ástleysissaga hinsegin bóndasonar
-Vigdís Viggósdóttir ljósmyndari nam iðnina seint
Ljósmyndasýningin „Sveitapiltsins draumur“ opnar í anddyri Duushúsa á Ljósanótt en umfjöllunarefni hennar er samkynheigð og fordómar. Listamaðurinn er Vigdís Viggósdóttir ljósmyndari sem búið hefur í Grindavík frá árinu 2000 en þangað flutti hún frá Skagaströnd þar sem hún er fædd og uppalin. Vigdís hafði unnið sem bókari hjá fyrirtækinu Martak ehf. en hún hætti því sl. vor og ákvað að taka ljósmyndunina af meiri alvöru en hún lauk námi frá Ljósmyndaskólanum 2014.
„Ég fór seint í það að mennta mig en hef alltaf verið dugleg að taka myndir í náttúrunni og spegla mig í henni. Þegar ég vann að þessari sýningu fór ég í annars konar landslag sem eru innviðir húss, húsið verður persóna. Ég er alltaf að leita að táknum fyrir það sem ég vil segja,“ segir Vigdís en ljósmyndaverkið er að hennar sögn ástarsaga eða nokkurs konar ástleysissaga.
Líf einstaklings í fordómafullu samfélagi þar sem samkynheigð er tabú
„Það má segja að þetta sé gömul saga og ný, saga einstaklings sem lifir í fordómafullu samfélagi þar sem samkynhneigð er tabú og samkynhneigðir útskúfaðir. Þetta er saga þess fordæmda sem haldinn er djúpri skömm, sektarkennd og sjálfshatri. Með öllum ráður reynir hann að afneita eigin hvötum. Feluleikur og sjálfsblekking einkennir líf hans. Hann er óhamingjusamur og ófullnægður. Einungis í draumum sínum nýtur hann lífsins þar sem upphlaðnar kraumandi ástríður hans fá notið sín. Í skápnum er hann öruggur.”
Ljósmyndirnar tók Vígdís í eyðubýlinu Miðhúsi í Skagafirði meðan hún dvaldi á listasetrinu Bæ á höfðaströnd vorið 2015.
Ég ákvað að segja annars konar ástarsögu
„Hugfangin gekk ég um yfirgefið rýmið og myndaði það sem fyrir augun bar, ég sá fyrir mér fólkið sem þarna bjó en ég þekkti ekkert til. Ég ímyndaði mér líf þess og tilveru í húsinu, kynslóð fram að kynslóð og þar kviknaði hugmyndin að þessari verki. Mig langaði að segja ástarsögu heimasætu og sveitapilts af næsta bæ. Saga þeirra átti að enda eins og ástarsögum ber, eitthvað á þessa leið: þau áttu bör og buru, grófu rætur og muru, “ segir Vigdís en verkið tók aðra stefnu.
„Í miðju ferlinu átti ég samtal við konu sem á samkynhneigða dóttir. Átakanleg frásögn hennar af baráttu dótturinnar þegar hún kom útúr skápnum breytti hugsun minni varðandi söguþráðinn og þar af leiðandi seríunni minni, hún klofnaði í tvennt, annarsvegar í ,,Heimasætan" og hinsvegar í ,,Sveitapiltsins draumur". Ég ákvað að segja annarskonar ástarsögur.“
Ljósanótt sameinar listafólk og listunnendur
Vigdís hefur tekið þátt í Ljósanótt á hverju ári frá 2012 og segir sýningahaldið vera orðið að skemmtilegri hefð.
„Fjögur ár er ekki langur tími en fyrir mér er þetta orðin skemmtileg hefð og mikil hvatning. Ljósanótt sameinar listafólk og listunnendur og er mjög mikilvægur vettvangur menningar og listar og ég hlakka sannarlega til þessarar árlegu veislu,” segir Vigdís en viðfangsefni hennar hafa frá upphafi endurspeglað tilfinningalíf mannsins og að sjálfsögðu hennar eigin og þar er náttúran tjáningarformið og móðir jörð fyrirsætan.
„Seríurnar Með eigin augum sem ég sýndi 2012 á Ljósanótt, Samruni 2013 og Skepna sem var útskriftarverkið mitt 2014 fela allar í sér myndefni úr náttúrunni þar sem ég spegla mannlegar tilfinningar á myndrænan hátt og túlka á minn hátt samhliða texta sem styður við verkin. Í fyrra og í ár eru verkin Heimasætan og Sveitapiltsins draumur ljósmynduð í annarskonar landslagi, í innviðum húss. Yfirgefið húsið táknar einangraðan og óhamingjusaman einstakling, tilfinningar hans og þrár.”
Verkið sveitapiltsins draumur er byggt á sex ljósmyndum og hverri þeirra fylgir sex orða saga. Myndin sem hér má sjá er sú fyrsta í seríunni og henni fylgir þessi örsaga. Með kvíðahnút í maganum, sjálfsmyndin brotin. Er þetta andlit eða kviður á manni? Þarna hefur verið spegill og hann er brotinn sem er táknrænt fyrir brotna sjálfsmynd.