Mannlíf

Suðurnesjamagasín: Giftusamleg sjóbjörgun við Grindavík árið 1992
Úr myndskeiði sem Helgi Einarsson tannlæknir náði af sjóslysinu.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 24. desember 2023 kl. 22:27

Suðurnesjamagasín: Giftusamleg sjóbjörgun við Grindavík árið 1992

Óhappið sást úr kíki í heimahúsi og náðist fyrir tilviljun á myndband. Sambærileg björgun hjá afa skipstjórans – rúmum tuttugu árum fyrr.

21. mars árið 1992, er dagur sem rennur áhöfnunum á Ólafi GK-33 og Ársæli Sigurðssyni HF-80, seint úr minni. Ólafur hafði komið úr róðri tuttugu mínútum fyrr og var að ljúka löndun þegar Hafsteinn Sæmundsson, fyrrum skipstjóri kom askvaðandi niður á bryggju og tilkynnti Eiríki Dagbjartssyni, skipstjóra á Ólafi, að bátur hefði farið á hvolf í innsiglingunni að Grindavíkurhöfn. Eiríkur og áhöfn hans ruku strax af stað og tókst að bjarga öllum áhafnarmeðlimum Ársæls Sigurðssonar. Blaðamaður tók hús á Eiríki, Óskari Sævarssyni, sem var stýrimaður á Ólafi, og Viðari Sæmundssyni, sem var skipstjóri á Ársæli og var síðastur dreginn upp úr ísköldum sjónum.

Eiríkur Dagbjartsson.

Eiríkur man þetta eins og hafi gerst í gær. „Ég var nýbyrjaður sem skipstjóri á þessum tíma, hafði tekið við stjórninni um áramótin svo mín reynsla sem skipstjóri var ekki mikil, ég hafði þó eitthvað aðeins leyst af á rækju yfir sumartímann fyrir vestan. Ég man að við rérum mikið í janúar á línu, komumst nánast ekkert út í febrúar og vorum búnir að skipta yfir á net á þessum tíma þegar þetta sjóslys varð. Við vorum á leið í helgarfrí, höfðum tekið netin upp og vorum í landi um hádegi þennan laugardag. Það var algjör brakandi blíða þennan dag en þegar leið á morguninn fundum við hvernig fór að þykkna í báru, það var bræla suður í hafi sem sendi öldurnar að Íslandsströndum, þetta var oft kallað „norðanáttarbrim“. Eins bætti ekki úr skák að það var stórstraumsfjara þegar þetta gerðist. Ég man að ég var ósáttur við sjálfan mig þegar við komum inn sundið því það kom hryggur undir bátinn og við fórum á talsverða ferð undan öldunni og þetta kom mér á óvart, ég átti að vera tilbúinn. Strákarnir voru þarna úti á dekki, að ganga frá netum og gera klárt fyrir löndun. Ég kallaði í talstöðina og lét skipstjórann á Eldhamri vita að það væri farið að hryggja á sundinu. Við vorum svo búnir að landa og vorum að hífa tóm kör niður í lestina þegar Hafsteinn Sæmundsson kom askvaðandi og sagði mér að báti hefði hvolft í innsiglingunni. Hafsteinn hafði verið heima hjá sér með kíki að skoða þegar bátar voru að koma inn og sá óhappið, hann sagði konunni sinni að hringja í lögregluna og brunaði svo niður á bryggju. Við vorum að keyra í springinn, áttum að færa okkur eftir löndun og Hafsteinn sleppti og við drifum okkur. Ég kallaði á strákana neðan úr lest, sagði þeim að loka lestarlúgunni og svo drifum við okkur út. Það var stórstraumsfjara og fljótlega sáum við belgi og baujur auk neta, færa og kaðla, báturinn var sokkinn. Sem betur fer fengum við nokkuð sléttan sjó þegar að við komum út, það er alltaf þannig í svona brimum að það eru lög og ólög, þeir á Ársæli voru óheppnir að lenda í ólagi en þegar við komum út var tiltölulega kyrr sjór.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Óskar Sævarsson.

Handahreyfingar frá stefni

Óskar Sævarsson var stýrimaður á Ólafi þegar þetta gerðist. Hann fór strax fram í stefni til að skoða aðstæður í sjónum en ef Ólafur hefði siglt inn í netadræsu, færi eða eitthvað annað, er nokkuð ljóst að skrúfan hefði stöðvast og þar með hefðu örlög Ólafs GK verið ráðin. „Við sáum að þetta hafði gerst á snúningnum svokallaða á sundinu, þar sem bátar og skip þurftu að beygja á merkjum. Ég fór beint fram í stefni til að sjá hvernig aðstæður væru í sjónum en hann var fullur af netum, færum og öðru. Ég gaf handabendingar til hægri eða vinstri eftir því sem við átti og Eiríkur gat stýrt bátnum þar til við vorum komnir að fyrsta skipsbrotsmanninum sem var kominn aðeins frá hinum sem héldu sér í knippi af belgjum og baujum. Við náðum þeim fyrsta nokkuð auðveldlega upp, komumst svo nær hinum og gátum kastað til þeirra færi, vorum nokkuð nálægt þeim og tókst nokkuð vel að ná þeim upp. Mér er minnisstætt þegar Olgeir skipsfélagi minn var búinn að ná taki á einum þeirra sem vissi að hann væri í einhverri yfirvigt og  sagði eitthvað á þessa leið; „Þú nærð mér aldrei upp.“ Olli var fljótur að svara; „Ég er búinn að ná taki á þér, ég sleppi þér ekki!“ Svona náðum við þeim einum af öðrum úr sjónum en Viðar Sæmundsson skipstjóri var eftir. Við köstuðum til hans bjarghring eða færi, ég man það ekki alveg en hann var greinilega orðinn mjög þrekaður. Hann hélt dauðahaldi í belg en sleppti svo loksins og tók í lífsbjörgina og við komum honum um borð til okkar. Hann ætlaði ekki að vilja sleppa takinu á því sem við köstuðum til hans og ég var með hann í fanginu þar til við komum í land. Hann var búinn að gleypa mikið af sjó og mér fannst hann detta inn og út og alltaf þegar mér fannst hann vera missa meðvitund tók ég þéttingsfast utan um hann. Það var mikið af fólki komið á bryggjuna, sjúkrabíll kominn á staðinn en allir skipbrotsmennirnir komust að sjálfsdáðun úr bátnum. Við áttum eftir að hífa netin um borð og ganga frá, það var helgarfrí framundan og líklega áttuðum við okkur ekkert almennilega á þessu afreki. Ég man eftir okkur niðri í lúkar þegar allt var búið og menn sögðu svo sem ekki margt. Við mættum svo ef ég man rétt, kvöldið eftir til að leggja netin og lífið hélt áfram sinn vanagang,“ sagði Óskar.

Viðar Sæmundsson.

Kalt í sjónum

Viðar Sæmundsson var eigandi Ársæls Sigurðssonar og skipstjóri. Hann hafði aldrei lent í öðru eins og man atburðinn vel. „Þetta voru ótrúlegar aðstæður, algert dúnalogn en þó var smá undiralda en ekki þannig að maður gæti ímyndað sér hvað væri í aðsigi. Það var nýbúið að endurnýja brúna á bátnum og við vorum þrír í henni og tveir voru fram í lúkari að gera sig klára. Björgvin Sigurðsson, háseti sem var í brúnni með okkur Guðna Einarssyni vélstjóra, sá í glugganum aftan á stýrishúsinu, að stór alda var að myndast og varaði mig við en það skipti engum sköpum, við tókumst nánast á loft og náðum eflaust 15-20 sjómílna hraða ofan á öldunni. Báturinn snerist á bakborða og við lögðumst á stjórnborðshliðina. Ég man hversu skrýtið hljóðið var þegar vélin stöðvaðist en þarna erum við þrír í einhvern tíma á meðan sjórinn flæddi inn en Guðni var nýlega búinn að smyrja tessana á neyðarglugga sem var bakborðsmegin, því var auðvelt að opna hann og koma okkur þaðan út. Ingibergur Hafsteinsson sem var kokkur og Eysteinn Orri Illugason stýrimaður, náðu strax að koma sér upp á kjölinn að framan og þangað fikruðum við þremenningarnir okkur. Báturinn sökk fljótlega en þá kom björgunarbáturinn upp hálfblásinn. Við gátum haldið okkur í hann, einhverjir komust ofan í hann en hann marraði þó í kafi, hinir héngu utan á honum. Í minningunni var biðin löng eftir því að björgun myndi berast, maður vonaði auðvitað að einhver hefði séð óhappið og það var mikil gleði að sjá Ólaf koma siglandi í áttina að okkur. Eiríkur og hans áhöfn stóðu sig ótrúlega vel í þessum aðstæðum, það er hálf ótrúlegt að þeir skyldu ekki fá neitt í skrúfuna og það tók ekki langan tíma að tína bátsfélaga mína einn af öðrum upp úr ísköldum sjónum. Ég var orðinn ansi þrekaður, var búinn að gleypa talsvert af sjó og var búinn að vera í honum í einhverjar tuttugu og fimm mínútur. Líkamshitinn á mér var kominn niður fyrir 30 gráður. Ég lagðist inn á sjúkrahús og þá kom í ljós að tvær kransæðar voru orðnar stíflaðar og hugsanlega fékk ég vægt hjartaáfall þennan örlagaríka dag. Hugsanlega varð þetta mín lífsbjörg því kannski hefði þessi kransæðastífla ekki komið í ljós ef ég hefði ekki verið fluttur á sjúkrahús. Ég fór aftur í þræðingu árið 2014 og er við hestaheilsu í dag. Ég keypti annan bát um haustið þetta ár 1992 en í dag stunda ég strandveiði af krafti og ætla mér að stunda sjóinn um ókomin ár. Ég og mínir bátsfélagar vorum og erum afskaplega þakklátir Hafsteini sem sá óhappið, Eiríki og hans áhöfn. Við hefðum líklega allir látið lífið þennan örlagaríka dag ef þeirra hefði ekki notið við,“ sagði Viðar sem er orðinn 77 ára gamall.

Líkan af Ólafi GK.

Afi Eiríks bjargaði líka mönnum

Áhöfn Ólafs GK-33 samanstóð af fyrrnefndum Eiríki og Óskari, Olgeiri Andréssyni kokki, færeyingnum Nikulás Leo vélstjóra og hásetanum Finnboga (föðurnafn ekki vitað). Þeir voru heiðraðir á Sjómannadeginum þetta ár 1992, Eiríkur Óli verður yfirleitt meyr þegar hann rifjar atburðinn upp. „Ég gleymi líklega aldrei þessari tilfinningu þegar við vorum komnir öruggir í höfn, nýbúnir að bjarga fimm mannslífum. Ég verð alltaf hálf meyr þegar ég rifja þetta upp og eins þegar ég hitti mennina sem við björguðum. Þetta er ansi stór og mikil tilfinning, að eiga þátt í að bjarga mannslífi. Gömlu karlarnir, skipstjórar sögðu mér á sínum tíma, að þetta myndi hjálpa mér á mínum skipstjórnarferli, ég er ekki frá því að eitthvað sé til í því, mér tókst alltaf að vera farsæll. Það er líka gaman frá því að segja að föðurafi minn, Einar Dagbjartsson tók líka þátt í björgun sem skipstjóri, einnig á bát sem hét Ólafur. Afi keypti bátinn ásamt bróður sínum og öðrum og þeir skírðu hann í höfuðið á Ólafi Thors. Annan febrúar 1961, fórst Arnartindur við mjög svipaðar aðstæður og þær sem við lentum í, þeir voru þrír um borð í Arnartindi. Afi og þeir um borð í Ólafi fóru strax út og náðu að bjarga einum en tveir voru taldir af, presturinn var meira að segja búinn að tilkynna eiginkonu annars þeirra að maðurinn hennar hefði farist í sjóslysi. Sá hinn sami kom hins vegar syndandi í land nokkru síðar en hann þóttist sjá hvað verða vildi, fór niður í lúkar og fór í björgunarvesti, sagan segir meira að segja að hann hafi farið í tvö vesti. Svo beið hann einfaldlega niðri og þegar sjórinn var við það að fylla lúkarinn, spyrnti hann sér út og hóf sund til lands. Honum var svo bjargað þegar hann var kominn langleiðina inn í rennuna sem er innsti hluti innsiglingarinnar,“ sagði Eiríkur að lokum.

Hér að neðan má sjá myndir úr myndskeiði sem Helgi Einarsson tannlæknir náði af sjóslysinu.