STAÐARDAGSKRÁ 21 - 1. GREIN
Mál málanna?Ert þú einn af þeim sem hefur ekki hugleitt umhverfismál mikið og álítur að þau séu aðeins fyrir sérfræðinga og sérvitringa? Í næstu tölublöðum Víkurfrétta mun undirritaður rita stuttar greinar sem ætlað er að fræða lesendur lítillega um verkefni sem Reykjanesbær er þátttakandi í og heitir Staðardagskrá 21 (Local Agenda). Forsenda fyrir því að verkefnið heppnist er að fá sem flesta til þess að byrja hugsa um umhverfi sitt í nýju ljósi.Í lok síðasta árs hóf 31 íslenskt sveitarfélag þátttöku í samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um gerð slíkrar dagskrár fyrir sveitarfélögin. Reykjanesbær er eitt þeirra og á síðari hluta vetrar var skipaður vinnuhópur á vegum bæjaryfirvalda til þess að stýra þátttöku Reykjanesbæjar í verkefninu. Í honum sitja auk undirritaðs bæjarfulltrúarnir Björk Guðjónsdóttir og Ólafur Thordersen. En hvað er Staðardagskrá 21? Hér sé um að ræða áætlun um hvernig íbúar í Reykjanebæ ætla að lifa í sem bestu sambandi við umhverfi sitt í breiðum skilningi á næstu öld. Áætlunin á að vera forskrift að sjálfbærri þróun, þ.e.a.s. lýsing á því hvernig samfélagið ætlar að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði á jörðinni. Áætlunin snýst um að í framtíðinni nái maðurinn að njóti ávaxta jarðarinnar án þess að skemma hana þ.e. að hirða gulleggin en slátra ekki Gullhænunni, svo vitnað sé í ævintýrin. Hér skipta þættir eins og endurvinnsla og takmörkun mengunar miklu máli.Staðardagskrá 21 snýst ekki eingöngu um umhverfismál heldur er henni einnig ætlað að taka tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Eitt aðalatriðið í hugmyndafræðinni er að umhverfismál verða aldrei slitin úr samhengi við aðra málaflokka heldur ber að skoða áhrif mannsins á umhverfi sitt í víðu samhengi. Það er ekki mjög langt síðan að þeir, sem töluðu um umhverfismál, t.d. á Alþingi, voru af þorra fólks taldir furðulegir sérvitringar. Þessi hugsanagangur er nú sem betur fer að breytast mjög hratt. Langstærsti hluti stjórnmálamanna og annarra Íslendinga gerir sér grein fyrir því að umhverfismál eru að verða mál málanna og einn mikilvægasti málaflokkur samtíðarinnar. Ef við gætum ekki að okkur mun manninum ekki verða vært í margar aldir í viðbót á Móður jörð og hvað stoðar þá að tala um heilbrigðismál, atvinnumál, menningu og listir?Í næsta pistli mun ég gera nánari grein fyrir íslenska Staðardagskrárverkefninu, hvernig það er til komið og hvernig það hefur farið af stað hér hjá okkur í Reykjanesbæ. Áhugasömum er bent á heimasíðu verkefnins en hún er: www.samband.is/dagskra21