Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Njarðvíkingurinn  á Hótel Bláfelli í Breiðdalsvík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 6. ágúst 2020 kl. 07:11

Njarðvíkingurinn á Hótel Bláfelli í Breiðdalsvík

„Íslendingarnir eru allt öðruvísi ferðamenn en þeir útlendu. Þeir gera til dæmis miklu betur við sig í mat og drykk og svo eru þeir bara skemmtilegir,“ segir Njarðvíkingurinn Friðrik Árnason, eigandi Hótels Bláfells í Breiðdalsvík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Friðrik Árnason er búinn að reka hótelið vel á annan áratug en það opnaði árið 1983. Friðrik hefur upplifað ýmislegt í hótelrekstri og ferðaþjónustu en ekkert í líkingu við afleiðingar kórónuveirunnar.

„Eftir langt stopp vegna Covid-19 fór allt í gang seinni part júnímánaðar þegar Íslendingarnir fóru að mæta og þeir hafa verið góðir viðskiptavinir í sumar. Það er mikill munur á íslenskum og erlendum ferðamönnum þegar þeir eru í fríi. Íslendingarnir velja sér til dæmis dýrari rétti á matseðli, gjarnan dýrustu steikina og fá sér gott rauðvín með á meðan útlendingurinn velur sér það ódýrasta á matseðli og fær sér sjaldan vín með matnum. Við höfum verið að selja jafn mikið af rauðvíni á einu kvöldi eins og við gerðum á þremur vikum þegar útlendingar voru að megninu til gestir á hótelinu,“ segir Friðrik.

Aðbúnaður til fyrirmyndar á Bláfelli

Eitthvað hefur verið um erlenda ferðamenn í sumar en þó í mjög litlum mæli og þegar Víkurfréttir litu við hjá Friðriki um miðjan júlí var von á svissneskum ferðamönnum sem ætluðu að hertaka hótelið eina nótt. Njarðvíkingurinn segir að sumarið eigi eftir að verða fínt en mikil óvissa sé með haustið og veturinn.

Á Hótel Bláfelli eru margar tegundir herbergja í boði í hótelbyggingunni og í gömlu pósthúsi sem nú sinnir gistihlutverki á staðnum. Alls eru 39 vel búin herbergi í boði, standard herbergi, bjálkaherbergi, junior-svítur og fjölskylduherbergi. Aðbúnaður á herbergjum er til fyrirmyndar. Þá er á hótelinu hugguleg setustofa með arni og bókasafni. Þar er líka finnskt sána og veitingastaður þar sem boðið er upp á ekta íslenska rétti, matreidda úr fersku, íslensku hráefni úr nærumhverfi hótelsins.

Ástríðuverkefni

„Þetta er skemmtilegur rekstur og það er gaman að vinna í ferðaþjónustu. Ísland er magnað land og það er gaman að skoða það og heimsækja, Íslendingar og útlendingar eru sammála um það, en að reka hótel er svolítið ástríðuverkefni og tekur mikinn tíma ef maður vill gera það vel,“ segir Friðrik.

Auk hefðbundins hótelsreksturs hefur Friðrik staðið fyrir ýmsum uppákomum á staðnum en á móti Hótel Bláfelli er hann með aðgang að stórum salarkynnum fyrir allt að 300 manns þar sem frystihúsið á staðnum var áður með starfsemi. Þar er góð aðstaða fyrir hvers kyns fundarhald og þá hafa verið haldnir þar margir tónleikar og fyrir jólin hefur hann fengið vini sína frá Suðurnesjum til að hjálpa sér með jólahlaðborð. Friðrik hefur verið útsjónarsamur í ýmsu sem hann hefur gert þarna eystra. Hann útbjó til dæmis stórar ljósakrónur  í veislusalinn úr trampólínum.

Gamla frystihúsið er núna stór veislusalur. Trampólínu-ljós voru útbúin í veislusalinn. 



Barinn var gerður úr efniviði úr nágrenninu og bæjarbjórinn Beljandi í hávegum hafður.

Hugguleg arinstofa er á Hótel Bláfelli.

Séð inn í eitt af herbergjum Hótels Bláfells.

Veitingasalurinn á Hótel Bláfelli.

Friðrik hafði mikið fyrir því að fá Íslandskortið en það hafðist og hér stendur hann við það.

Íslandskort dregur að

Í öðrum sal við hlið veislusalarins við Hótel Bláfell er mjög sérstakt Íslandskort, nærri nítján fermetrar að flatarmáli. Þetta er stórt steinkort sem Axel Helgason gerði og það er um þrjú tonn að þyngd, gert úr steinsteypu og járni og upphaflega málað með olíulitum. Axel gerði þrjú svona Íslandskort en þetta er það eina sem hefur varðveist.

Háskóli Íslands fékk upphaflega kortið að gjöf og átti að setja það upp við byggingu skólans. Af því varð þó aldrei og var kortið í geymslu skólans til ársins 2008, þá fór það til varðveislu á safnið að Skógum á Suðurlandi þar sem til stóð að byggja sérstaklega yfir það og hafa til sýnis. Úr því varð ekki og var kortið geymt úti undir berum himni í nokkur ár og skemmdist mikið. Gosið í Eyjafjallajökli 2010 setti mark sitt á það og máði út mest alla málningu á hluta þess.

Kortið er til sýnis hjá Friðriki í því ástandi sem það var þegar því var bjargað frá náttúruöflunum. Kortið er í eigu fjölskyldu Axels og er sýnt í fyrsta skipti í samvinnu við Friðrik og íbúa Breiðdalsvíkur. Friðrik segist hafa séð frétt um kortið og haft samband við fjölskyldu Axels og í framhaldinu var sýning á því sett upp á staðnum.

Brugghúsið Beljandi

Á Breiðdalsvík er rekið handverksbrugghúsið og barinn Beljandi. Fyrirtækið hefur verið starfandi frá árinu 2017 og býður alla jafna upp á fjórar, fimm tegundir af bjór. Hann er að mestu seldur á staðnum en einnig á nokkrum góðum stöðum á Austfjörðum á sumrin og má líka finna hann í Reykjavík og á Akureyri stöku sinnum. Barinn á Breiðdalsvík er opinn öll kvöld yfir sumartímann en lokað er að mestu yfir veturinn. Rétt hjá er svo Gamla Kaupfjelagið á Breiðdalsvík, þar er kaffihús og verslun og í hillum er að finna gamlar vörur sem voru til sölu í Kaupfjelaginu á upphafsárum þess. Breiðdalssetur er einnig í Gamla Kaupfélaginu en það er elsta húsið í þorpinu, byggt árið 1906.

Á Breiðdalsvík búa aðeins um 140 manns en einnig er önnur afþreying í boði, eins og skemmtileg sundlaug sem er opin alla daga, hægt er að fara í gönguferðir og fleira.