„Mér finnst þessi bær bara pínu stórkostlegur“
- segir Jóhanna Vigfúsdóttir sem var búin að gefa námsferilinn upp á bátinn. Fór aftur í skóla eftir langt hlé og brilleraði.
Jóhanna Vigfúsdóttir fluttist á Ásbrú fyrir þremur árum en hún hafði áður búið nokkuð víða um Ísland. Jóhanna hóf þá nám aftur eftir nokkurt hlé, þar sem hún hafði nánast gefið háskólanám upp á bátinn. Með tvo unga stráka og mann sem var mikið fjarverandi vegna vinnu tókst Jóhönnu að ljúka námi frá Keili með glæsibrag. Eftir það lá leið hennar í Háskóla Íslands þar sem viðfangsefni hennar var sálfræði. Nú er Jóhanna í miðju fræðilegu og verklegu námi við Háskóla Íslands. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður á kaffihúsi með Jóhönnu og spurði hana um reynslu hennar af lífinu í Reykjanesbæ, námið, fjölmiðlaferilinn og framtíðardrauma.
Fannst hún ekki vera þessi skólatýpa
Frá því að Jóhanna hóf hér nám í háskólabrú Keilis hefur Reykjanesbær heillað hana. Hún var búin að gefa það upp á bátinn að sækja nokkurn tímann háskóla en snerist hugur þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn árið 2007. Hún hóf fjarnám hjá Keili og gekk það að hennar sögn vonum framar. Það er óhætt að taka undir það en Jóhanna varð semi-dúx þegar hún útskrifaðist með næsthæstu einkunn árið 2010. Í framhaldinu sneri Jóhanna sér að sálfræðinámi við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BS gráðu á þremur árum.
Jóhanna ákvað að hefja skólagöngu að nýju eftir að hún hætti um 17 ára aldur. Hún segir að aðrir hlutir hafi verið meira spennandi á þeim árum. „Ég hafði í raun enga trú á því að ég gæti farið í skóla. Mér fannst ég ekki vera þessi týpa.“ Það var aldeilds fjarri lagi en þegar Jóhanna útskrifaðist úr háskólabrú var hún með 9,12 í einkunn og var semi-dúx við skólann eins og áður segir.
Í sálfræðináminu í Háskóla Íslands var Jóhanna svo einnig í hópi efstu nemenda þegar hún útskrifaðist. Þessi misserin stundar Jóhanna framhaldsnám í sálfræði og svo virðist sem hún hafi hreinlega smitast af skólabakteríunni eftir að hún fór loks af stað aftur. „Þegar ég var 25 ára þá hugsaði ég að ég væri orðin of gömul fyrir háskólanám. Eins og það sé einhver aldur,“ segir Jóhanna sem í dag er 33 ára.
Reykjanesbær hefur komið á óvart
Jóhanna hefur búið víða á Íslandi í gegnum tíðina en hún kallar sjálfa sig þó Reykvíking, það sé auðveldast.
Þegar ákvörðun var tekin um að helga sig algjörlega náminu þá fluttist fjölskyldan á Ásbrú. Jóhanna viðurkennir það fúslega að áður en hún fluttist á Ásbrú þá hafi hún sjálf verið með fordóma í garð Reykjanesbæjar. Hún segir að fólk úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu sé yfirleitt með nokkuð neikvætt viðhorf þegar kemur að Reykjanesbæ. Hún komst fljótlega að því að fordómar hennar voru ekki á rökum reistir. „Hér er margt frábært í gangi og bærinn hefur komið mér mikið á óvart,“ segir Jóhanna. Hún segist aldrei hafa séð jafn mikið og uppbyggilegt starf í kringum börn eins og í Reykjanesbæ. Mikill metnaður er jafnframt í bæjarfélaginu að hennar mati. „Það er rosalega gott að búa í svona bæjarfélagi sem hefur svona gríðarlegan metnað í málum sem snúa t.d. að menntun og íþróttum.“
Verður kannski eins og Dr. Phil
Einhverjir gætu kannast við rödd Jóhönnu en hún hefur starfað töluvert í útvarpi. Fyrst á FM 95,7 þar sem hún var m.a. í morgunþættinum Zuber. Jóhanna hafði einnig umsjón með þættinum Kósý á sínum tíma. Ennþá er Jóhanna viðloðin útvarpið þar sem hún er reglulegur gestur í þætti Svala og Svavars á K100 en auk þess er hún með regluleg innslög í þætti Siggu Lund, en þar var hún áður meðstjórnandi. „Þetta er gott fyrir athyglisþörfina. Þetta tekur lúmskan tíma en ég hef gaman af þessu,“ segir Jóhanna um framgöngu sína í fjölmiðlum, en takmark hennar er fyrst og fremst að starfa sem sálfræðingur í framtíðinni þrátt fyrir að ferill í fjölmiðlum gæti hugsanlega verið í myndinni. „Kannski verð ég svona Dr. Phil, hver veit,“ segir hin hláturmilda Jóhanna og skellir upp úr. „Maður vill stundum festast í þessu hlutverki sálfræðinemans. Hugtök og gagnrýnin hugsun heltaka mann og allt verður rosalega alvarlegt. Þá er gott að skipta aðeins um hlutverk og komast aðeins í útvarpið. Leyfa sér að vera smá kjáni, því annars hættir fólk bara að nenna að tala við mann,“ segir Jóhanna.
Gæti orðið erfitt að fá strákana til þess að flytja
Jóhanna á tvo unga syni, Vigfús Alexander (6 ára) og Eyþór Rafn (5 ára).
Róbert Guðlaugsson maðurinn hennar vinnur hjá Jarðborunum og vegna vinnu sinnar þarf hann oft að dvelja erlendis í lengri tíma, oftast í fimm vikur í senn. Fjölskyldunni þótti því einmitt tilvalið að búa nærri flugvellinum vegna tíðra ferða Róberts erlendis sökum vinnu.
Það gefur því auga leið að Jóhanna þarf að sjá um heimilið og strákana samhliða náminu. Hún segir það vissulega krefjandi en vissar fórnir þurfi að færa. Hún einfaldlega hellti sér af fullum krafti í háskólanámið og annað félagslíf varð hreinlega bara að sitja á hakanum á meðan. Móðurfjölskylda hennar býr í Reykjanesbæ og því getur hún leitað til systkina sinna þegar hún þarfnast aðstoðar með strákana.
Jóhanna gæti vel hugsað sér að setjast hér að til frambúðar. „Ég get vel ímyndað mér að hér sé gott að alast upp. Strákunum mínum líður afskaplega vel og þeim þætti sjálfsagt sárt að fara héðan,“ segir Jóhanna en þrátt fyrir ungan aldur eru synir hennar byrjaðir að æfa sund og Crossfit. „Mér finnst þessi bær bara pínu stórkostlegur. Ég held að hér sé ofboðslega gott að alast upp. Mér finnst þetta svona kósý smábæjarfílingur. Ég er alveg að fíla það í ræmur,“ segir Jóhanna hress en hún hefur kynnst mikið af fólki í bænum og þá sérstaklega í gegnum börnin og þeirra íþróttaiðkun. Varðandi það neikvæða viðhorf sem einhverjir virðast hafa til Reykjanesbæjar þá telur Jóhanna að Reykjanesbær þurfi alls ekki á einhverri ímyndarbreytingu að halda. „Ég held að þetta eigi eftir að koma smátt og smátt. Ég skynja það bara að hér eru góðir hlutir að gerast,“ segir Jóhanna að lokum.