Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Leið strax eins og heima í Japan
  • Leið strax eins og heima í Japan
    Guðrún og Sigrún hittu uppáhalds fyrirsæturnar sínar í Tókýó, þær Chie og Chika sem líka eru tvíburar.
Laugardagur 31. október 2015 kl. 07:00

Leið strax eins og heima í Japan

Sigrún Lea og Guðrún Emilía eru samrýmdar tvíburasystur sem hafa brennandi áhuga á Japan og gangi allt upp ætla þær að flytja þangað á næsta ári.

Sigrún Lea og Guðrún Emilía Halldórudætur eru samrýmdar tvíburasystur sem hafa haft óslökkvandi áhuga á Japan frá 14 ára aldri. Þær eru nú 24 ára og búnar að ljúka BA-gráðu í japönsku frá Háskóla Íslands og stóri draumurinn er að flytja til Japans. Gangi allt upp, flytja þær í febrúar eða mars á næsta ári. Hugmyndin er að finna vinnu við enskukennslu eða á leikskóla til að byrja með. „Það er svo gott að læra tungumál með því að tala við börn því þau eru svo opin. Það er eins og þau skynji hvað maður er að reyna að segja þegar maður finnur ekki réttu orðin. Svo er ekkert verra að vera með börnum,“ segir Sigrún. Systrunum hefur einnig boðist að sitja fyrir hjá uppáhalds tímaritinu sínu í Japan, Koakuma Ageha. „Það væri virkilega gaman að prufa það einu sinni eða tvisvar, svona til gamans,“ segir Guðrún.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Byrjaði með manga-bók

„Japönskuáhuginn byrjaði þegar við vorum 14 ára. Þá sáum við fyrst Manga teiknimyndabækur á bókasafninu á Ísafirði. Bækurnar voru á ensku og við sökktum okkur ofan í þær og bættum okkur mikið í ensku. Svo fengum við PC tölvur í fermingargjöf og fórum þá að hlusta á asíska tónlist á netinu en áður höfðum við átt PSX tölvu og í henni spilað japanska tölvuleikinn Final Fantasy VIII síðan við vorum 12 ára,“ segir Sigrún.

 

Fyrstu ár ævinnar bjuggu Sigrún og Guðrún í Sandgerði en fluttu svo til Reykjavíkur þegar þær voru fjögurra ára og á Ísafjörð þegar þær voru sjö ára. 14 ára fluttu þær svo á Húsavík. Nú búa þær með mömmu sinni á Ásbrú og vinna í Lækningalind Bláa lónsins og bíða eftir að fá atvinnuleyfi í Japan. Þær luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugum á þremur árum. „Mamma hvatti okkur til að útskrifast á þremur árum. Við nenntum því nú varla en þá benti hún okkur á að þá gætum við farið fyrr að læra japönsku við Háskóla Íslands. Þegar við sáum hversu auðvelt var að klára stúdentspróf á þremur árum fannst okkur það hljóma vel og tókum 70 einingar á síðasta árinu til að ljúka stúdentsprófinu á þremur árum og drífa okkur í japönsku,“ segir Sigrún. Þriðja árið í japönskunáminu dvöldu þær í Japan og komu til baka í september 2013 og fóru svo aftur út fyrr á þessu ári og freistuðu þess að fá atvinnuleyfi en það gekk ekki upp í það skipti svo þær snéru aftur til Íslands.

 

Fólk sagði þær skrýtnar

Þær segja að á unglingsárunum hafi fólk stundum haft orð á því við þær að þær væru svolítið skrýtnar að hlusta á tónlist frá Asíu en ekki á bandaríska og evrópska tónlist. Þær fundu sig því strax vel í japönskunáminu við Háskóla Íslands með öðru áhugafólki um Japan. „Þar vorum við með fólki sem hugsar á svipaðan hátt og við. Það eru samt færri hissa á Japans-áhuganum í dag og flestum finnst hann bara mjög spennandi. Fólk er núna opnara fyrir því sem er öðruvísi,“ segir Guðrún. Hún segir þó að margir Íslendingar rugli Japan og Kína saman. „Þegar við erum kannski nýbúnar að segja fólki að við séum á leiðinnni til Japans óskar það okkur góðrar ferðar til Kína. Það er svo algengt að fólk hugsi bara um Kína þegar það heyrir um Asíu. Svo eru líka sumir að reyna að tala japönsku í gríni og segja eitthvað sem hljómar eins og „ping-pong-pang“. Þá bendum við fólki á að það hljómi meira eins og kínverska en ekki japanska. Þá verður fólk oft hálf kindarlegt. Okkur finnst bara pínu fyndið að gera grín að fólki sem lætur svona,“ segir Guðrún og þær hlæja báðar dátt.

 

Eftir útskrift frá Menntaskólanum að Laugum bauð frændi Sigrúnar og Guðrúnar þeim í útskriftarferð til Tókýó, höfuðborgar Japans, en hann er búsettur þar. Þær kunnu strax vel við sig í Japan. „Okkur leið strax eins og við ættum heima þarna. Það voru allir svo vinsamlegir og okkur fannst við aldrei óöruggar. Þó að Japanir tali yfirleitt ekki mikla ensku reyna þeir alltaf að hjálpa villtum ferðamönnum, en okkur tókst einmitt að villast aðeins á leiðinni til Nara. Sem betur fer kunnum við pínu í japönsku á þessum tíma svo þetta bjargaðist allt,“ segir Sigrún. Systurnar kunna vel að meta japanska menningu og benda á að þó að mannmergðin sé gríðarleg á götum úti, komist allir leiðar sinnar. „Japanir eru ekki sikk-sakkandi eftir götunum eins og sumir á Íslandi. Það er hægri umferð gangandi vegfarenda í Tókýó en vinstri umferð norðarlega í landinu og það virkar mjög vel,“ segir Guðrún.

 

Þær hlakka mikið til að flytja til Japans þegar atvinnuleyfið verður loks í höfn. „Okkur leiðist pínulítið á Íslandi. Það er svo kalt og maður þarf að klæða sig svo vel og við erum ekki mikið fyrir það,“ segir Sigrún. „Svo eru líka alltaf útsölur í Japan og flott merki og það kostar miklu minna þar en á Íslandi að gera eitthvað skemmtilegt, eins og til dæmis að fara á skauta, í skemmtigarða eða í keilu,“ segir Guðrún.

 

 

Skemmta sér í karaókí

En þyrftu þær að hneigja sig í tíma og ótíma eins og Japanir og kunna kurteisislega frasa ef þær færu að vinna í Japan? „Það er skilningur á því í Japan að útlendingar tali ekki fullkomna japönsku. Vinkona okkar var að vinna á núðlustað og hún fékk afhent blað með öllum formlegu orðunum sem hún átti að læra. Vinnustaðir gera ekki ráð fyrir því að fólk kunni þetta fullkomlega. Við myndum líklega nota einfalt mál til að byrja með og læra formlegu orðin svo smátt og smátt,“ segir Sigrún. „Við vorum samt alltaf að hneigja okkur í Japan, til dæmis í verslunum. Maður er fjótur að byrja að herma eftir Japönum og þeir kunna að meta það,“ segir Guðrún.

 

Í Japan er skemmtileg karaókí-menning og koma vinahópar þá saman í einu herbergi karaókístaðar og syngja saman en ekki á sviði fyrir framan fjölda fólks eins og algengara er á Vesturlöndum. Eins og sannir Japanir stunduðu Guðrún og Sigrún karaókí-söng af krafti. „Við fórum oft í karaókí á kvöldin og vorum alla nóttina. Það er hægt að velja um vinsælustu lögin frá fjölda landa. Við tökum oftast róleg lög en stundum sungum við lagið What does the fox say með Ylvis,“ segir Sigrún. Guðrún bætir við að þær hafi líka oft sungið lag eftir hljómsveitina Ayaman Japan. „Það er skemmtilegur dans við það lag svo við tókum það stundum fyrir vini okkar. Í lok lagsins hljómar setningin „Kan-kei-nai-kara“ sem þýðir „það skiptir ekki máli.“ Við breyttum henni í „oppai-nai-kara“ sem þýðir „þú ert ekki með nein brjóst“. Japanskar stelpur eru yfirleitt með lítil brjóst og við vorum alltaf að segja við vinkonur okkar að við gætum alveg gefið þeim smá af okkar. Okkur fannst þetta því öllum mjög fyndið,“ segir Guðrún og þær hlæja báðar.

 

Japönum liggur ekki á að fullorðnast

Systurnar segja að í æsku hafi þær verið mun barnalegri en aðrir og ekki farið að huga að tísku og förðun fyrr en í kringum 17 til 18 ára aldurinn. Nú hafa þær brennandi áhuga á tísku og förðun og hafa gaman af því að fylgjast með götutískunni í Tókýó. Fígúran Hello Kitty er mjög vinsæl í Japan hjá fólki á öllum aldri. Guðrún og Sigrún segja að í Japan sé ekkert óskrifað aldurstakmark á því hversu lengi fólk megi hafa gaman af krúttlegum hlutum. „Hello Kitty og því um líkt er vinsælt hjá fólki á öllum aldri í Japan. Það er stundum eins og krökkum á Íslandi liggi á að verða fullorðin. Til dæmis ef 11 ára gamlir krakkar á Íslandi vilja leika sér með dúkku þykir það skrítið. Það er eins og þeir sem eldri eru megi ekki hafa áhuga á því sem er sætt. Í Japan skiptir þetta engu máli og þar eru næstum því allir hrifnir af sætum hlutum. Til dæmis var einn kennarinn okkar fimmtug og með skrautlegt hulstur utan um símann sinn með mangamyndum. Það fer enginn að hlæja að þér í Japan þó þú sért með eitthvað sætt,“ segir Guðrún.

 

Japanir hissa að hitta japönskumælandi Íslendinga

Guðrún og Sigrún hafa unnið ýmis störf tengd ferðamennsku á sumrin og eftir að þær luku námi í japönsku. Núna vinna þær hjá Lækningalindinni í Bláa lóninu og hafa hitt nokkra Japani þar. „Einu sinni voru þar tvær konur sem voru hálf villtar því það voru framkvæmdir í gangi í húsinu. Ég vísaði þeim til vegar á japönsku og þær voru mjög hissa,“ segir Guðrún. „Svo einu sinni þegar við vorum að vinna á Flughóteli voru þar japanskir viðskiptamenn sem voru að tala saman og velta því fyrir sér hvort við værum tvíburar. Við heyrðum til þeirra og sögðum þeim á japönsku að það væri rétt hjá þeim, við værum tvíburar. Þeim brá svolítið enda eiga Japanir síst von á því að hitta einhvern japönskumælandi á Íslandi,“ segir Sigrún.

 

Guðrún og Sigrún hafa alla tíð fylgst að í skóla og vinnu. Áður voru þær með svipaða hárgreiðslu og klæddu sig alltaf í eins föt svo fólk átti erfitt með að þekkja þær í sundur. Guðrún ákvað svo fyrir ári síðan að klippa hárið sitt stutt. „Það var þannig að vanalega þegar við fórum í klippingu þá var Sigrún með ákveðna hugmynd um hvað hún vildi og þar sem ég vissi ekki hvað mig langaði endaði ég ávallt með að gera það sama, en svo fyrir ári langaði mig að klippa á mér hárið stutt og skellti mér því í klippingu.” Þeim sjálfum finnst þær þó frekar ólíkar. „Það vill bara þannig til að við eigum sömu áhugamál,“ segir Guðrún.

 

 

Guðrún Emilía í kimono. Þær sóttu tíma í hefðbundnum japönskum dansi þar sem átti að klæðast slíkum fatnaði.