Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Keflvísk samvinna að löngu gleymdri galdrabók
Laugardagur 12. apríl 2014 kl. 11:11

Keflvísk samvinna að löngu gleymdri galdrabók

- Arnar Fells Gunnarsson dúxaði með Galdraskræðu

Keflvíkingurinn Arnar Fells Gunnarsson er útskrifaður grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands. Hann ákvað að ráðast í metnaðarfullt lokaverkefni þar sem hann tók fyrir efni sem honum var afar hugleikið. Hann gerði sér lítið fyrir og endurgerði bókina Galdraskræðu eftir Jochum Magnús Eggertsson, einnig þekktur sem Skuggi, en bókin sú hafði verið ófáanleg um áratugaskeið. Fyrst kom hún út árið 1940 í litlu upplagi, en henni var misvel tekið enda viðfangsefnið umdeilt.

Á öðru ári í Listaháskólanum sótti Arnar tíma hjá Guðmundi Oddi Magnússyni prófessor við skólann. Í þeim áfanga voru skoðaðir íslenskir galdrastafir og var Galdraskræða Skugga aðal rannsóknarverkið. Arnar hrósaði happi yfir því enda fróður og áhugasamur um flest verk Skugga. Arnar segir að Skuggi hafi verið jaðarrithöfundur sem naut ekki mikillar hylli samtímamanna sinna. Hann var til að mynda harðlega gagnrýndur fyrir kenningar sínar um að landnám Íslendinga væri sögufölsun og að landið hefði fyrst verið byggt af hámenningu Krýsa sem höfðu m.a. aðsetur í Krýsuvík. „Skuggi var beittur penni og oftar en ekki upp á kant við aðra. Þegar hann gerði Galdraskræðu héldu eflaust margir að hann væri endanlega búinn að tapa glórunni. Það þorði enginn að gefa nokkuð út um galdra á þessum tíma, til þess hefur þurft sterkan karakter.“

Tilviljun réði því að Arnar fór í samstarf með Lesstofunni sem er bókaútgáfa sem var stofnuð árið 2011. Markmið hennar er að gefa út áhugaverðar bækur, gamlar sem og nýjar. Þar eru tveir Keflvíkingar innanborðs, þeir Svavar Steinarr Guðmundsson og Þorsteinn Surmeli. Arnar frétti af því að Lesstofan hygðist endurútgefa Galdraskræðu. Hann setti sig í samband við þá Þorstein og Svavar og úr varð samstarf. Upphaflega ætlaði Lesstofan að ljósrita bókina og hreinskrifa hana. Arnar vildi fara með verkefnið alla leið og ráðist var í að endurteikna upp alla galdrana og gera bókina að eigulegum grip.

Ærið verk var því fyrir höndum en Arnar þurfti í raun að hreinskrifa upp allan textann og teikna upp galdrana og táknin sem telja yfir fimmtán hundruð.
Arnar sá um uppsetningu og hönnun á bókinni en verkefnið varð á endanum að útskriftarverkefni hans við Listaháskólann. Svo vel tókst til að Arnar hlaut hæstu einkunn frá skólanum fyrir verkefnið og dúxaði með glæsibrag. „Þetta er magnaður hópur af algjörum snillingum. Það er í raun aðdáunarvert hvað þau eru miklir bókamógúlar. Það var mjög gaman að vinna með þeim“ segir Arnar um Lesstofuna sem hefur unnið hörðum höndum við að kynna bókina fyrir heimsbyggðinni.

Bókin vakið áhuga víða um heim

Lesstofan kynnti bókina á hinni heimsþekktu bókamessu í Frankfurt síðastliðið haust og vakti hún áhuga margra. „Bókin kom út í september og strax í kjölfarið fundum við fyrir miklum áhuga, bæði frá Íslendingum og fólki víða um heim. Salan hér heima hefur gengið mjög vel en stærstur hluti upplagsins kláraðist fyrir jólin. Við höfum líka sent mörg eintök í báðar áttir yfir hafið, t.d. til Rússlands, jafnvel þótt kaupendurnir hafi ekki skilið stakt orð í íslensku,“ segir Keflvíkingurinn Þorsteinn en búið er að þýða bókina á ensku. „Við vorum að fá ensku þýðinguna í hendurnar og gerum við ráð fyrir að hún muni líta dagsins ljós á allra næstu mánuðum. Sjálfur hef ég unnið í bókabúð í Reykjavík og veit hversu mikinn áhuga ferðamenn hafa á íslenskri menningu, og þá sérstaklega galdramenningu. Hingað til hefur engin bók komið út sem veitir jafn gott yfirlit yfir galdra og Galdraskræðan og við búumst því við að margir vilji kippa eintaki með sér til heimalandsins og prófa alvöru íslenskt kukl, t.d. til að ná ástum kvenna, bola burt óvinum eða gera sig ósýnilegan. Það er ýmislegt í boði,“ segir bókaútgefandinn Þorsteinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimasíðu Arnars má sjá hér en þar má finna fleiri verk eftir hann.

Lesstofan á sína heimasíðu en þar má panta bækur þeirra.

Keflvíkingarnir Þorsteinn Surmeli og Svavar Guðmundsson hafa verið í bókaáutgáfu síðan árið 2011.