Í leit að betra lífi
Ungt par flutti frá Kúbu til Íslands til að freista þess að finna betra líf. Bæði búin að læra íslensku
Hjónin Disley og Yosvany Torralba fluttu frá Kúbu til Íslands til að freista þess að finna betra líf en á Kúbu er mjög erfitt að búa segja þau. Hún starfar í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar og hann í Bláa lóninu. Við heimsóttum hjónin og tvo unga syni á heimili þeirra í Innri Njarðvík, Reykjanesbæ.
Opinberlega er Kúba trúlaust ríki þó svo að stór hluti íbúa sé kaþólskur. Kúba er stunduð kölluð El Caiman, krókódíllinn, enda minnir lega landsins á það dýr. Þar ríkir enn sem komið er flokksræði Kommúnistaflokksins, allir aðrir flokkar eru bannaðir lögum samkvæmt.
Hinn ítalski Kristófer Kólumbus er sagður hafa fundið Kúbu fyrstur manna en aðrir telja slíkt fráleitt því þar hafa innfæddir íbúar af ættbálki Taínó-indíána verið í aldaraðir og kölluðu land sitt Caobana.
„Okkur langaði í betra líf hér á Íslandi því lífið var mjög erfitt á Kúbu. Pabbi minn fær tólf dollara í laun á mánuði og mamma hans Yosvany sem vinnur á barnaspítala fær 25 dollara í mánaðarlaun“
Við viljum tala íslensku
Það fyrsta sem blaðamaður tekur eftir er hversu vel hjónin tala íslensku. „Já, við viljum tala íslensku en ekki ensku. Sumir Íslendingar byrja alltaf á því að tala við okkur á ensku en við segjum þeim að við viljum tala íslensku því þá verðum við betri og betri í að tala málið ykkar,“ segir Disley og eiginmaðurinn Yosvany bætir við; „Já, ég verð stundum pirraður þegar ég vil tala íslensku og fólk talar ensku við mig. Þegar ég var að læra íslensku þá var ég alltaf með litla stílabók í vasanum og penna og þegar ég heyrði eitthvað orð sem ég skildi ekki þá spurði ég vinnufélaga mína í Bláa lóninu hvað þetta orð þýddi og skrifaði það niður. Þannig lærði ég fljótt íslensku. Mig langaði að læra íslensku og verða góður í að tala málið. Íslendingar þurfa að vera duglegri að tala íslensku við útlendinga, ekki að skipta yfir á ensku. Þegar ég byrjaði að vinna í Bláa lóninu fyrir nokkrum árum var léttara að æfa sig á íslensku því þá unnu miklu fleiri Íslendingar þar en í dag vinna mun fleiri útlendingar þarna og enska er því miður aðalmálið á meðal starfsmanna.“
„Já, hann var mjög fljótur að læra að tala íslensku með því að skrifa niður í bók, mjög sniðugt hjá honum. Ég var alltaf að vinna með Íslendingum og kunni ekki ensku þegar ég kom fyrst til Íslands árið 2006 og þess vegna var betra fyrir mig líka að byrja strax að tala íslensku, ég vildi heldur ekki tala ensku. Yosvany flutti hingað árið 2012 og hann hefur verið mjög fljótur að læra málið ykkar og tók meirapróf á íslensku líka, svo duglegur,“ segir Disley.
Mikil fátækt á Kúbu
Disley og Yosvany voru kærustupar á Kúbu áður en hún flutti þaðan tvítug að aldri en hann er fjórum árum eldri. Disley hafði kynnst Íslendingum sem voru á ferðalagi á Kúbu og þeir sögðu henni og vinum hennar frá Íslandi. Hún og vinir hennar ákváðu að freista gæfunnar á þessari eyju í norðri og búa öll ennþá á Íslandi. Það var ekki eins erfitt fyrir hana að fá dvalarleyfi árið 2006 og það var fyrir Yosvany sex árum síðar eða árið 2012, því reglurnar voru hertar mjög mikið á þessum árum á Íslandi. Frænka Disley sem er í heimsókn hjá þeim yfir jól þurfti að svara ótalmörgum spurningum þegar hún vildi koma til þeirra. Hjónin þurftu að sýna fram á tekjur heimilisins og allt mögulegt áður en grænt ljós var gefið frá yfirvöldum á heimsókn hennar. Þau segjast skilja þetta því allskonar fólk sé að reyna að komast inn í landið.
„Okkur langaði í betra líf hér á Íslandi því lífið var mjög erfitt á Kúbu. Pabbi minn fær tólf dollara í laun á mánuði og mamma hans Yosvany sem vinnur á barnaspítala fær 25 dollara í mánaðarlaun. Það er líka mun erfiðara núna að komast frá Kúbu en það var. Við vorum bara heppin að komast burt þegar við fórum. Ég er búin að vera of lengi í burtu frá Kúbu og hef engan rétt þar lengur en Yosvany hefur meiri réttindi þar því það er ekki svo langt síðan hann fór. Ef ég vil flytja aftur til Kúbu þá þarf ég að sækja um eins og ókunnugir gera en mig langar ekki aftur þangað því á Íslandi líður okkur vel og hérna viljum við búa,“ segir Disley.
Hjónin eiga tvo litla drengi sem heita Jóhann Daníel og Jón Davíð en þau vildu skíra þá íslenskum nöfnum því hér verður framtíðarheimili þeirra. Það er svo gott lífið hjá þeim á Íslandi segja þau en þeim hjónum hefur tekist að eignast þak yfir höfuðið í íbúðarblokk rétt hjá leikskóla Jóhanns. „Það er lúxus að geta átt sitt eigið heimili og að kaupa allt sem við gátum aldrei dreymt um að eignast á Kúbu eins og t.d. sjónvarp eða tölvu. Við erum þakklát fyrir lífið okkar hér,“ segir Yosvany.
„Það er mjög gott að ala upp börn hérna og okkur finnst gott að búa í Reykjanesbæ, það er svo rólegt. Við erum bara að hugsa um börnin okkar, við lifum rólegu fjölskyldulífi og finnst það mjög fínt. Við höfum eignast góða vini og líka á vinnustaðnum okkar, allir eru mjög hjálplegir við okkur,“ segir Disley.
„Já, það er mjög gott að vera á Íslandi nema veðrið, það er ekki Kúbuveður hér. Við höfum farið í heimsókn til Kúbu og það er allt í lagi en hér viljum við búa þrátt fyrir veðrið. Mamma mín hefur komið hingað þrisvar í heimsókn, mjög gaman,“ segir Yosvany.
Elskar jólin á Íslandi
Í spjalli blaðamanns við Disley kemur í ljós að hún vissi ekki að á jólum væru kristnir Íslendingar að fagna fæðingu Jesú Krists þann 25. desember, að allt þetta umstang væri vegna hans.
„Nei, ég vissi það ekki, að Jesú væri fæddur á jólum. Við erum ekki með svona jólahald á Kúbu og það var meira að segja bannað að fagna jólum þegar ég bjó þar. Enginn jólasveinn og engin jól. Ég elska jólin hérna á Íslandi, öll ljósin og allt skrautið. Þetta er svo skemmtilegt,“ segir Disley.
Dansið þið salsa?
Í hugum flestra er salsadans nátengt menningu Kúbverja. Salsa þýðir suðupottur eða sósa þar sem öllu er blandað saman. Rekja má salsa til þræla sem komu til Kúbu frá Afríku. Ferðamenn hafa talað um mikla dansmenningu á Kúbu og mikla gleði innfæddra.
„Já, það er satt að þótt að það sé mikil fátækt á Kúbu þá er alltaf dansað mikið þarna og spiluð fjörug tónlist. Það er mikil tónlist og gleði í fólkinu og margir dansa. Það er líka partur af menningu okkar. Við erum alin upp við dans og við dönsum oft hérna heima með strákunum okkar. Það er mikil tónlist í okkur og salsadönsum við mikið,“ segir Disley og Yosvany segist líka vera forvitin um Zumba: „Mig langar að læra að kenna Zumba, þetta er mjög líkt og við gerum heima á Kúbu. Það væri gaman að kenna Íslendingum að dansa sig í form.“
Myndir úr einkasafni