Gaman að gleðja aðra
Suðurnesin ljóma af birtu um jólin og eru að verða eitt aðalsvæði landsins hvað varðar jólaskraut. Hingað streyma heilu rúturnar úr höfuðborginni til að skoða öll skemmtilega skreyttu húsin er prýða bæina okkar hérna.
Eitt þessara jólahúsa er við Túngötu 14 í gamla bænum í Keflavík. Margir bíða spenntir á hverju ári eftir að sjá allt jólaskrautið þar á bæ og finnst jafn ómissandi að skoða skreytingarnar þar og að fara í kirkju á jólum.
Ég er ein af þeim sem tek rúntinn um hver jól til að skoða öll jólaljósin og Túngata 14 er alltaf eitt af þessum jólahúsum sem ég vil sjá. Það er svo gaman að skoða allt jólaskrautið þar og alla töfrana í kringum húsið. Mér lék núna forvitni á að kynnast manninum á bakvið jólaskrautið. Hver er hann og hvers vegna skreytir hann svona mikið?
Börnin hafa gaman af þessu
Maðurinn heitir Hallbjörn Sæmundsson sem á jólahúsið fræga við Túngötu. „Það eru tíu ellefu ár síðan ég flutti hingað í þetta hús og ákvað frá byrjun að skreyta hérna. Ég hef alltaf verið jólabarn og skreytti einnig ágætlega þar sem ég bjó áður en það var í fjölbýlishúsi. Ég geri þetta aðallega fyrir börnin, til að gleðja þau. Ég byrjaði með eina eða tvær seríur úti en gat alltaf keypt meira þegar ég var til sjós. Ég byrjaði á sjó þegar ég var 15 ára og var á togurum og fiskiskipum en síðustu ellefu árin á meðan ég vann, þá var ég hjá Eimskip. Þegar ég var hjá Eimskip þá sigldum við til Hollands meðal annars og þar keypti ég mikið af jólaskrauti. Yfirleitt hef ég keypt jólaskrautið en seinni árin hef ég einnig smíðað það. Grýluhellirinn og fleira hérna fyrir utan er heimasmíðað jólaskraut. Ég hef ógurlega gaman af þessu jólastússi og hef nógan tíma til þess núna, þar sem ég er 75% öryrki. Húsið er lítið og gamalt og býður upp á alla þessa jólastemningu,“ segir hann.
Hallbjörn eða Halli eins og hann er oftast kallaður, býr einn með litlum hundi, sem heitir Emma en hún á sinn eigin gluggastól í stofunni, þar sem hún horfir út og fylgist með umferðinni fyrir utan.
Halli er löngu byrjaður að huga að jólaskreytingum þessa árs en hann er heillengi að setja upp allt skrautið, í nokkra daga en kveikir ekki á því fyrr en allt er klárt og uppsett. „Svona í kringum 20. nóvember kveiki ég á jólaljósunum og skreyti hérna innandyra eitthvað seinna. Ég hef alltaf verið jólabarn og þegar ég var í siglingunum þá fór ég inn í jólabúðir á meðan hinir karlarnir fóru inn í verkfærabúð. Mamma mín var líka jólabarn og ég held ég hafi erft þetta frá henni, hún var einnig mjög listræn. Systir mín hefur einnig gaman af þessu og skreytir fallega húsið sitt í Þverholti. Ég er með fullt af jóla fígúrum hérna inni líka,“ segir Halli og sýnir mér ljósmyndir af öllu skrautinu, sem eru vægast sagt frábærar!
Töfraheimur jólanna innandyra
Ég sé á myndunum, að húsið hans Halla er ekki bara skreytt að utan hver jól, heldur er ævintýraheimur jólanna einnig innandyra. Það er heilt þorp og járnbrautalest undir jólatrénu í stað jóladúks. Það sitja stórir jólasveinar á stólbaki við stofuborðið, sem er dekkað upp með jóladúk og jólaskrauti. Hallbjörn situr svo sjálfur einn frammi í eldhúsi á aðfangadagskvöld með uppdekkað borð þar fyrir sig.
En hvers vegna er hann einn á aðfangadagskvöldi? „Ég á nokkur eldri systkini og þau eru nú alltaf að bjóða mér að koma til sín en mér finnst bara svo notalegt að vera hérna einn á aðfangadagskvöld. Ég var kokkur til sjós og elda handa mér góða jólamáltíð og nýt þess að borða í rólegheitum. Svo opna ég pakkana en við systkinin gefum hverju öðru einn jólapakka um hver jól. Ég ætla nú samt að láta undan þessi jól og borða hjá bróður mínum. Ég má ekki alltaf segja nei þegar verið er að bjóða mér að koma. Ég á samt erfitt með að bjóða fólki hingað á jólum því húsið er svo lítið og jólaskrautið tekur mikið pláss. Systkini mín hafa verið að skamma mig fyrir að skreyta svona mikið hérna inni,“ segir hann.
Halli segist skreyta fyrir börnin og fullorðna fólkið einnig, því margir hafi svo gaman af að sjá hjá honum húsið um hver jól. Hann veit um einn pabba, sem þarf að koma á hverjum degi með lítinn dreng, sem fer að gráta ef hann fær ekki að sjá jólahúsið.
„Börnin af leikskólunum koma hingað í hópum og ég fer stundum í jólasveinabúning þegar ég sé þau og vínka þeim út um gluggann. Þá verða þau svaka hissa og mjög ánægð að sjá alvöru jólasvein í jólahúsinu! Það má alveg hringja í mig og láta mig vita þegar hópur ætlar að koma til að sjá en þá get ég klætt mig í jólasveinabúning og tekið á móti gestum hérna fyrir utan eða frá glugganum. Þau halda þá að hérna búi alvöru jólasveinn. Það gerir þetta enn meira spennandi fyrir þau,“ segir hann.
Halli klæðist alltaf jólasveinabúning á Þorláksmessu og fer niðri í bæ eða er heima því það aka margir framhjá húsinu þetta kvöld. Hann segist hafa svo gaman af þessu öllu en segist ekkert skilja í þessari Sverrisdóttur, að koma með umræðuna um að banna jólahald í skólum. Hvaða vitleysa þetta væri eiginlega. Við séum kristin þjóð og jólahaldið gleðji marga, sérstaklega börnin. Á að taka þessa gleði frá þeim? Honum finnst allt í lagi að fræða börn í skóla um aðra trú en kristna en að Íslendingar séu áfram eins og aðrar vestrænar þjóðir með jólahátíð, það er mikilvægt.
Halli segir mér að jólaskrautið hans hafi alltaf fengið að vera í friði fyrir utan húsið nema síðustu tvö ár, þá hafi einhverjir óprúttnir verið að skemma og hann segist dapur vegna þess. „Það er mjög mikil vinna sem liggur að baki jólaskreytingunum hérna um hver jól. Mig langar að biðja fólk að virða jólaskrautið og hugsa til barnanna, sem njóta þess að horfa á öll ljósin. Ég vil einnig biðja nágranna mína að fylgjast vel með húsinu mínu um jólin og láta mig vita eða reka í burtu þá sem eru að eyðileggja. Ég vil halda áfram að skreyta og gleðja alla, bæði stóra sem smáa og þá verður að vera friður fyrir þessu“, segir Halli með alvörusvip.
Við viljum öll að Halli haldi áfram að skreyta jólahúsið sitt árlega til að gleðja okkur hin og sjáum það því fyrir okkur að jólaskrautið hans fái áfram að vera í friði.