Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fólkið er fyrirtækið
Bræðurnir Eiríkur og Gunnar Tómassynir.
Þriðjudagur 17. júní 2014 kl. 11:00

Fólkið er fyrirtækið

Ekki bara vinna heldur áhugamál.

Fjórir sjómenn stofnuðu útgerðarfyrirtækið Þorbjörn í nóvember 1953 og ráku það saman til ársins 1975. Einn þeirra var Tómas Þorvaldsson, faðir bræðranna Eiríks og Gunnars, sem reka fyrirtækið ásamt systur sinni, Gerði. Tómas keypti hluti félaga sinna í fyrirtækinu árið 1975 og rak það ásamt fjölskyldu sinni í um 20 ár. Þorbjörn keypti fyrirtækið Bakka hf í Bolungarvík árið 1997 og árið 2000 sameinuðust þau svo Fiskanesi í Grindavík og Valdimar í Vogum. Við  systkinin höfum verið þrír aðaleigendur síðan 2004, en hluthafar eru alls 23,“ segir Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar hf. 

Starfsfólk á fjórða hundrað
Þorbjörn hf hefur rekið fiskvinnslu í Grindavík frá stofnun og einnig í Vogunum frá árinu 2000. Gert út netabáta, línubáta, loðnubáta og togara og verið með frystitogararekstur frá árinu 1990. „Í dag erum við með fjóra stóra línubáta, og þrjá frystitogara, en munum reyndar fækka þeim í tvo í haust. Fjöldi starfsmanna er yfirleitt 320 - 350 manns, þar af helmingur sjómenn,“ segir Eiríkur.
 
Áhugamál í blóð borið
Spurður um hvað sé mest gefandi við að eiga og reka útgerðarfyrirtæki segir Eiríkur þetta ekki bara hafa verið vinnuna sína heldur áhugamál alla tíð. „Við byrjuðum mjög ung að vinna fyrir okkur eins og átti við um okkar kynslóð. Nú má það ekki lengur. Höfum unnið með skólum bæði á sjó og á landi. Áður voru oft gefin frí í skólum t.d. kringum páska bara til þess að geta bjargað fiski sem var landað. Það var skemmtilegur tími.“ Eiríkur rifjar upp að löngu áður en Þorbjörn var stofnaður gerðu afi og amma og langafi og langamma þeirra systkina út bát í Grindavík. „Ætt okkar er í raun búin að gera út og vinna fisk í Járngerðarstaðahverfinu í rúm 200 ár, og fyrir þann tíma í Staðarhverfinu. 
 
 
Eiga Haustak með Vísi
Eiríkur segir að í gegnum tíðina hafi gengið á ýmsu og reksturinn farið eftir því hvernig landið hefur legið hverju sinni. „Við vorum bara með netabáta lengi og svo hefur reksturinn þróast gegnum árin í það sem er nú. Hráefni af línubátum hentar betur gagnvart þeim markaði sem við seljum á, og eftir að kvótakerfið kom færðist þetta úr vertíðum og yfir í ársvinnu.“ Stór hluti afurða er frystur úti á sjó, aðrar tegundir en þorskur. Þorskurinn er saltaður að mestu. „Svo eigum við helminginn í Haustaki á móti Vísi þar sem þorskhausar og bein eru þurrkað. Mjög öflugt og myndarlegt fyrirtæki,“ segir Eiríkur og bætir við að einnig séu þau með útflutning á ferskum flökum og flakahlutum til Evrópu og Bandaríkjanna. 
 
Norðmenn orðnir grimmir í samkeppni
Hann segir markaðinn vera misjafnan og flöktandi enda stuttur líftími á vörunni. „Samkeppni er orðin mikil og Norðmenn orðnir grimmari samkeppnisaðili og hafa fært sig meira yfir í það sem við erum að gera. Það er erfitt að keppa við þá því við borgum aukaskatta í auðlindagjaldi en Norðmenn greiða enga slíka skatta.“ Auk þess sé sjóður sem útgerðir leggi í á móti ríkinu, sem kosti söluherferðir á þeirra vegum. Eiríkur segir Íslendinga ekki eiga ráð á móti þeim í því. „Frá janúar og fram á vor eru Norðmenn ráðandi í sölu á ferskum fiski. Við höfum þurft að lækka verðin og afkoman verður verri. En það verður bara að berjast.“ 
 
Vinnslan ræður hvar og hvenær er veitt
Spurður um hvað hafi breyst mest í rekstrinum á undanförnum 10 árum segir Eiríkur vera það að nú sé það vinnslan og sölumálin sem ráði hvar og hvenær bátarnir veiði. „Áður fyrr var veitt, landað og unnið úr hráefninu, en farið í pökkun og frágang á afurðum á vorin og þá hefði verið flutt út til kaupenda fram á haust. Í dag er fiskur kominn til neytanda á innan við mánuði. Þetta er gífurleg breyting.“ Þá hafi kvótakerfið hjálpað gífurlega við að gera rekstur hagkvæmari. „Við fullnýtum nánast allt sem kemur í land. Erum að einbeita okkur að þróa vinnslu á slóginu sem erfitt hefur verið að koma í verð á undanförnum árum. Verðmætið í aukaafurðum stefnir í að verða meira en í fisknum sjálfum,“ segir Eiríkur. 
 
 
Gott samband við aðrar útgerðir
Afkomendur þeirra systkina munu að sögn Eiríks vonandi taka við með tímanum. „Fólkið er fyrirtækið. Synir okkar eru að vinna með okkur í fyrirtækinu og hafa gert í nokkur ár, bæði á sjó og í landi. Þeir þekkja þetta allt eins og við.“ Þá segir hann ágætis samband vera á milli útgerðarfyrirtækja í Grindavík. „Við byggðum saman ísstöð hérna um árið og fiskmarkaðshús og þetta hefur gengið bara vel, öll samvinna að því leyti. Eina sem virkilega hrjáir okkur eins og alla er veiðigjaldið; að skattleggja þessa atvinnugrein umfram aðrar. Það er búinn að fara milljarður frá okkur á síðustu árum í þennan skatt. Það er sama upphæð og einn nýr línubátur kostar,“ segir Eiríkur að lokum.  
 
VF/Olga Björt
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024