Fjölbreytni safna á Suðurnesjum er líklega einstök
Safnahelgin á Suðurnesjum haldin í sjötta sinn.
„Síðustu ár hafa komið um 2000 gestir og það er fjórfalt meira en kemur um venjulega helgi. Kynningin hefur því skilað sér,“ segir Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri menningarsviðs hjá Reykjanesbæ. Safnahelgin á Suðurnesjum er nú haldin í sjötta sinn og markmiðið með henni hefur frá upphafi verið að sýna landsmönnum hversu öflugt safna- og setrastarf blómstar á Suðurnesjum.
Fjölbreytni safna einstök
Tilurð Safnahelgarinnar var þegar Menningarsjóður Suðurnesja var stofnaður á sínum tíma og leitað var að verkefnum sem öll sveitarfélög á Suðurnesjum gætu unnið sameiginlega að. „Söfn, safnvísar og sýningar nálgast á annan tug og eru þá bókasöfnin ekki talin með. Fjölbreytni safna á svæðinu er líklega einstök miðað við stærð svæðisins. Fólk getur kynnst sögunni frá því fyrir landnám og til okkar tíma, margvíslegum atvinnuháttum, listum og náttúru,“ segir Valgerður.
Allt frá sköpun jarðar til poppsins
Poppsagan er rakin í Rokkheimum Rúna Júl, sköpun jarðar og nýting orkunnar er tekin fyrir í Orkuveitunni jörð og náttúru sjávarins er hægt að kynnast í Þekkingarsetrinu í Sandgerði. Þá verða sjósókn og vinnsla sjávaraflans kynnt á a.m.k. fjórum söfnum í þremur mismunandi bæjarfélögum. Nýjustu sýningarnar verða í Víkingaheimum, m.a. um fornminjar á Suðurnesjum. Nýstofnað víkingafélag verður með kynningu og Ásatrúarfélagið kynnir sína starfsemi. „Íbúð Kanans er líka splunkunýr sýningarstaður á Ásbrú sem áhugavert er að skoða. Einnig verður opin sýning í eina listasafninu á svæðinu, Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum. Þar verða sýndar portrettmyndir eftir málarana Stephen Lárus Stephen og Stefán Boulter,“ segir Valgerður.
Frítt inn alls staðar
Safnahelgin hefur verið liður í menningartengdri ferðaþjónustu og höfða til höfuðborgarsvæðisins og reyna að ná til höfuðborgarbúa. Suðurnesjabúar hafa einnig notið þess að kíkja líka. Mörg gallerí og listhús verða líka opin og dagskrána er að finna vefsíðunni safnahelgi.is. „Fyrirtækin í sveitarfélögunum hoppa einnig á vagninn og gera eitthvað í tilefni helgarinnar. Margir staðanna eru ekki endilega opnir á þessum árstíma og það verður alls staðar frítt inn. Því er upplagt fyrir heimamenn að nýta sér það,“ segir Valgerður.